26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að ég sé ekki hæstv. fjmrh. í d., vegna þess að ég ætla að beina til hans lítilli fsp. í sambandi við þessar umræður.

Ég vil byrja á því að minnast á eina fullyrðingu hv. l. landsk. út af tekjuskattinum. Hann sagði, að tekjuskatturinn hvíldi nær eingöngu á „hinum almenna launamanni“. Hv. þm. á hér vafalaust við verkamann, sem hefur 30–10 þús. kr. í árslaun. Tekjuskattur hjóna, sem hafa 35 –45 þús. kr. nettó í árslaun (og er þá búið að draga frá tekjum það, sem heimilað er fyrir hjón, þ.e. 12 þús. kr.), er 1460 kr. af 35 þús. kr., eða réttara sagt af 47 þús. kr. tekjum. Það hlýtur nú öllum að vera ljóst, að slík fullyrðing sem þessi er alveg út í hött. Svo skal hitt viðurkennt, — og það er sú hlið málsins, sem hv. þm. ræddi um, — að tekjuskattur til ríkisins út af fyrir sig er ekki sá skattur, sem er að sliga atvinnureksturinn í landinu. En þegar allir skattarnir koma til, bæði ríkis- og bæjarskattar, þá eru skattarnir að sliga atvinnureksturinn í landinu. Þess vegna er endurskoðun á skattalögunum óhjákvæmilega bundin endurskoðun á útsvarsálagningu bæjarog sveitarfélaga. Allir vita, hver vandi þar er á höndum. Bæjar- og sveitarfélög kvarta mjög undan því, að þau skorti tekjur til þess að standa undir nauðsynlegum gjöldum. Þess vegna hafa þau farið inn á fjáröflunarleiðir, sem ekki er hægt að þola í neinu siðuðu bæjarfélagi, og það er að leggja útsvar á fyrirtæki og einstaklinga, sem einhvern rekstur hafa, án nokkurs tillits til tekna þeirra.

Það mun valda mörgum mönnum talsverðum vonbrigðum, að endurskoðun hefur ekki farið fram enn á félagakafla tekjuskattslaganna. Eins og kunnugt er, var einstaklingskaflinn endurskoðaður í fyrra, og hygg ég, að menn séu yfirleitt ánægðir með þá endurskoðun. Þegar þetta mál var til umr. hér í þinginu í fyrra, þá sagði hæstv. fjmrh. m.a.:

„Í samningi þeim, sem núverandi stjórnarflokkar gerðu s.l. sumar og liggur til grundvallar stjórnarsamstarfinu, var það eitt af því, sem fram var tekið, að stjórnin ætlaði að beita sér fyrir setningu nýrra skattalaga á því þingi, sem nú situr.“

Þetta var yfirlýsing hæstv. fjmrh. við umr. um þetta mál á þinginu í fyrra. Nú er þess ekki að dyljast, að endurskoðun skattalaga er mikið verk og mikið starf gekk í endurskoðun laganna í fyrra, þó að ekki ynnist tími til að endurskoða nema einstaklingskafla laganna. Þess vegna gerðu menn sig yfirleitt ánægða með, að bráðabirgðalausn væri gefin meðan frekari endurskoðun færi fram. Um þetta atriði sagði hæstv. fjmrh.:

„Niðurstaðan varð því sú að taka hér algera bráðabirgðalausn varðandi félögin, og til þess að leggja áherzlu á, að hér er um bráðabirgðalausn að ræða, er það ákvæði sett í frv., að það skuli lækka skattgreiðslu félaga um 20% á þessu ári, og gildir það aðeins fyrir þetta ár.“

Þessi ummæli gáfu mönnum ástæðu til að vænta þess, að endurskoðun félagakaflans yrði lokið fyrir þetta þing, sem nú situr. Því miður hefur þetta ekki orðið.

Ég hygg, að það sé rétt frá skýrt, að mþn. hafi starfað allt þetta ár, þó að sýnilegur árangur af starfi hennar sé mjög lítill, og a.m.k. hefur henni ekki tekizt að koma fram með till., sem gætu lokið endurskoðun félagakaflans.

Ég skal fúslega viðurkenna, eins og ég gat um áðan, að ýmsir erfiðleikar eru á endurskoðun skattalaganna og kannske ekki sízt félagakaflans. Endurskoðun félagakaflans, eins og nú er komið með skattlagningu bæjarfélaga, verður ekki framkvæmd, nema því aðeins að um leið verði framkvæmd endurskoðun á útsvarslögunum. Þess vegna hefði n. þurft að taka að sér einnig endurskoðun á útsvarslögunum, en ég hygg, að hún hafi látið mjög lítið starf í það, þó að hún hafi verið starfandi allt árið, og eftir því sem mér skilst hafa nm. verið á fullu kaupi. Kannske er ekkert við það að athuga, en sýnilegur árangur af starfi nefndarinnar er því miður lítill.

Ég hefði því viljað beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort n. eigi nú að starfa áfram milli þinga, hvort henni sé ætlað að skila áliti fyrir næsta þing og þá að sjálfsögðu einnig taka með endurskoðunina á útsvarslögunum. Ef þau eru ekki tekin með og sá hnútur leystur, sem þar er, verður ekki mikið um breytingar á næsta þingi á félagakafla skattalaganna.

Mig langar svo að drepa á nokkur atriði í sambandi við ræðu hv. 1. landsk. (GÞG). Hann gat um það, að í raun og veru borguðu félögin enga skatta til ríkissjóðs. Ég skal ekki deila við hann um þetta og ekki fara inn á neinar tölur eða að reyna að gagnrýna þær tölur, sem hann var með, enda hef ég ekki tök á því. En ég vil benda hv. þm. á það, sem honum er allra manna bezt kunnugt, að núverandi skattstigi félaga hefur verið óbreyttur frá því 1940. Á þessum 15 árum hefur verið gífurleg verðlagsbreyting, þ.e.a.s. krónan hefur minnkað jafnt og þétt, en skattstiginn hefur staðið óbreyttur. — Menn fá að halda nú af tekjum sínum jafnmörgum krónum og þeir fengu 1940, en hver króna er miklu minna virði nú en hún var þá. Þetta er þó ekki þyngsti bagginn, sem hvílir á rekstrinum í landinu. Þyngsti bagginn, sem á honum hvílir, er útsvörin, og þá sérstaklega veltuútsvörin, sem hafa verið á lögð án tillits til tekna manna. Þau hafa verið á lögð sem örþrifaráð af hendi bæjarfélaga vegna skorts á tekjustofnum til þess að mæta nauðsynlegum útgjöldum.

Ég hef litið á þessi 20%, sem þingið hefur samþ. til afsláttar af tekjuskatti fyrir árið í fyrra og væntanlega gerir fyrir árið í ár, sem bráðabirgðaviðurkenningu á því, að skattheimta bæjarfélaganna, eins og hún er nú á hendur atvinnurekstrinum, sé gersamlega óviðunandi og meðan ekki hefur tekizt að endurskoða tekjuskatts- og útsvarslögin í heild, hefur ríkissjóður greitt þessi 20% af hendi sem viðurkenningu á því, að útsvarsálagningunni og tekjuskattinum þurfi að breyta.

Í fyrra, í sambandi við þessar umræður, minntist ég á nokkur dæmi, sem sýndu, hvernig ýmis fyrirtæki eru skattlögð, og á ég þar við skatta bæði ríkis og bæja. Eins og ég tók fram áðan, er veltuútsvarið lagt á án nokkurs tillits til, hverjar nettótekjur manna eru, heldur aðeins með tilliti til þess, hversu mikil velta fyrirtækjanna hefur verið, og að sjálfsögðu eru afar mismunandi tekjur félaga af veltunni. Ég gat um nokkur dæmi, og ég ætla til gamans að rifja það upp, til þess að hv. 1. landsk. fái að hugsa um svolítið aðra hlið málsins en tekjuskattinn, sem lagður er á fyrirtækin.

Skattgreiðandi, sem hefur 597 þús. kr. í tekjur og mundi verða talinn hátekjuskattgreiðandi af hv. 1. landsk., greiðir í skatta 338 þús. og útsvar 250 þús. Eftir af þessum 597 þús. kr. tekjum eru 9 þús. kr., eftir að útsvör og skattar eru greiddir.

Annar skattgreiðandi, sem annast aðallega útflutning, hefur 95 þús. kr. tekjur. Skattar eru 21 þús., útsvar 184 þús., samtals 205 þús., eða skattur og útsvar umfram tekjur 110 þús. Ég skal taka fram, vegna þess að mönnum finnst kannske þetta dæmi heldur ótrúlegt, að þessi dæmi eru öll rétt og tekin eftir framtölum manna frá löggiltum endurskoðanda.

Iðnaðarfyrirtæki hefur í tekjur 159 þús. Þar af greiðir það í skatta 31 þús., útsvar 120 þús., samtals 151 þús., og eftir af þessum 159 þús. eru 8 þús. kr.

Að síðustu er iðnfyrirtæki, sem hefur 43 þús. kr. tekjur. Skattar eru 6469 kr., útsvar 36700 kr., samtals 43169 og greitt umfram tekjur 169 kr.

Þetta sýnir mjög greinilega, hvernig ástandið er í skattamálunum eins og nú er. Ef menn tala við löggilta endurskoðendur, sem ganga frá framtölum manna, munu þeir heyra nákvæmlega sömu söguna.

Hv. þm. sagði, að félögin hefðu rétt til afskrifta og hlutafélög fengju að leggja í varasjóð. Þetta er rétt. En ég fullyrði þá jafnframt, að þetta eru í fjöldamörgum tilfellum einu tekjurnar, sem félögin halda eftir, og ef hv. þm. gæti kynnt sér framtöl margra fyrirtækja, þá mundi hann sjá, að þessum fyrirtækjum er hér um bil ógerningur að safna nokkrum varasjóðum nema þessum 20%, sem þeim er leyft að halda eftir.

Veltuútsvörin eru mjög mismunandi hvarvetna á landinu. Ég gæti trúað, að þau væru einna lægst hér í Reykjavík og hæst í Hafnarfirði. Eftir því, sem ég hef heyrt, mun veltuútsvar þar í einstökum greinum geta farið upp í 5%, og það getur hver sagt sér sjálfur, að þegar fyrirtæki eiga að fara að greiða 1%–5% í veltuútsvar, verður ekki mikið eftir af hagnaði, enda kemur það oft fyrir, að veltuútsvarið ríður baggamuninn, svo að menn verða að taka af eignum sínum til þess að geta staðið undir greiðslu á sköttunum.

Það gefur líka nokkra hugmynd um, hversu þungur baggi þetta er í viðbót við hinn venjulega útsvarsstiga, að í Reykjavík munu hafa verið lögð á veltuútsvör, er nema 17 millj. kr. síðastl. ár. Er ljóst, að slíkt er gífurlega þung byrði á atvinnurekstrinum í bænum. Það er ekki hægt að halda áfram að leggja á veltuútsvar í bæjarfélögunum, eins og gert hefur verið hingað til, enda er það fyrir bæjarfélögin sama og að slátra hænunni, sem verpir gulleggjunum, vegna þess að fyrirtækin og reksturinn stenzt ekki slíkar álögur til lengdar. Þess vegna er engin leið út úr þessu önnur en sú, að veltuútsvarið verði frádráttarhæft, að það megi draga það frá tekjunum. Það á að gera bæjarfélögunum fært að standa undir þeim frádrætti. Að sjálfsögðu yrði að setja einhverjar skorður með álagningu veltuútsvars, til þess að það yrði ekki fært út í öfgar, ef það væri gert frádráttarhæft.

Eins og ég sagði áðan, munu margir verða vonsviknir yfir því, að endurskoðun á félagakafla laganna hefur ekki náð fram að ganga á þessu þingi. Hins vegar er ljóst, að það eru ekki aðeins skattalögin, sem verður að endurskoða, heldur líka útsvarslögin. Ég vil vænta þess, að þó að nú í annað skipti verði samþ. sú bráðabirgðalausn, sem samþ. var á siðasta þingi, verði nú gerð gangskör að því, að báðum þessum lagabálkum verði breytt og breytingarnar undirbúnar fyrir næsta þing. Treysti ég vel hæstv. fjmrh. til þess að ýta svo á eftir, að þetta megi ná fram að ganga.