26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ummæli hv. 1. landsk. (GÞG) um þetta mál í heild lýsa því, að hann er ekki kunnugur afkomu félaganna eða rekstrarins í landinu. Ef hann væri það, mundi hann vafalaust ekki tala eins og hann gerði. Ég hef þá skoðun, að hv. þm. haldi því jafnan fram, sem hann telur sannast og réttast. Hann gat þess í sambandi við þau dæmi, sem ég nefndi um skattlagningu, að hér hlyti að vera um að ræða vafasöm framtöl. Ég tók fram, að í þessum tölum voru ríkisskattar og útsvör samanlagt. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að framtöl þurfa ekki að vera vafasöm til þess, að allar tekjur félaganna fari í ríkisskatta og útsvör. En eins og ég tók fram áðan, er það venjulega veltuskatturinn, sem ríður baggamuninn, og tekur venjulega það, sem eftir er, þegar ríkisskattar hafa verið á lagðir samkvæmt skattstiga og þegar útsvör hafa verið ákveðin samkvæmt útsvarsstiganum, sem um þau gildir.

Hv. þm. vildi halda því fram, að ég hefði haft í frammi ásakanir í garð Reykjavíkur, og sýndi þetta m. a., hversu Reykjavík væri illa stjórnað. Ég skal ekki fara út í kappræður um það, en ég vil aðeins segja, að Reykjavík sem bæjarfélag stendur hér jafnt að vígi og önnur bæjarfélög í landinu. Bæjarfélögin eru öll í vandræðum með tekjustofna til þess að standa undir gjöldum sínum. Og það ætti að vera hverjum þm. kunnugt, hversu gífurleg gjöld Alþ. hefur lagt á bæjar- og sveitarfélögin í sambandi við alls konar félagsleg útgjöld. Þetta er kannske skýringin á því, hvernig komið er hag bæjarfélaganna, hversu erfiðlega þeim reynist að ná tekjum á móti gjöldum og hvers vegna þau þurfa að fara inn á jafnósæmilega leið og þá að leggja á veltuútsvör alveg án tillits til tekna borgaranna.

Hv. þm. vill nú að líkindum halda því fram, að bæjarfélagi, sem hans flokksmenn stjórna og heitir Hafnarfjörður, sé betur stjórnað en Reykjavík. Ef fara ætti eftir því, á hvorum staðnum veltuskatturinn er hærri, mundi Hafnarfjörður standa heldur höllum fæti í samanburðinum, því að ég hygg, að veltuskatturinn í Reykjavík fari ekki mikið yfir 1%, en veltuskatturinn í Hafnarfirði mun komast upp í 5% í nokkrum atvinnugreinum.

Hv. þm. undraðist það mjög, að eignir félaga nái ekki fjárhæð, sem samsvarar eins árs tekjum þeirra. Og hann spyr: Hvað er orðið af öllum tekjunum? Hvers vegna eru þessi félög ekki ríkari á pappírnum en raun gefur vitni? Svarið er mjög einfalt. Það er vegna þess, að tekjurnar fara að mestu leyti í útsvör og skatta. Um það ber öllum saman, að það er ákaflega erfitt fyrir hlutafélög, þrátt fyrir þau miklu fríðindi, sem hv. þm. telur að þau hafi, að safna sjóðum. Og ég hef orðið var við það, að útlendingar undrast þetta, þegar um þetta er rætt og þeim eru gefin upp dæmi, að firmu, sem hafa starfað í mörg ár og hafa verið vel rekin, eiga svo að segja enga varasjóði.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál. Það gengur vafalaust sína braut á þessu þingi. En ég vil þakka hæstv. fjmrh., þó að hann sé ekki í d., fyrir þá yfirlýsingu, að þetta mál skuli verða lagt fyrir næsta þing og að þá verði gengið frá félagakaflanum.