18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

189. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. flutti hér áðan framsögu fyrir þremur málum, sem eru á dagskránni í dag. Gerði hann þetta, eins og hann sagði, vegna þess að þessi mál væru öll sama eðlis, sem þau og eru, þ.e.a.s., þau eru öll um að hækka vexti af lánum, í fyrsta lagi til byggingar verkamannabústaða, í öðru lagi til landnáms og nýbýla í sveitum og í þriðja lagi til ræktunar og bygginga í sveitum almennt.

Ég mun eins og hæstv. landbrh. ræða í örfáum orðum um þessi þrjú mál, en bæta jafnframt nokkrum athugasemdum við um fjórða málið í þessu sambandi, sem hæstv. ríkisstj. hefur borið fram í réttri númeraröð á undan þessum þrem málum, sem hér eru til meðferðar.

Hæstv. landbrh. sagði, að þessi mál væru fram borin vegna þess, að þau væru liður í samkomulagi innan ríkisstj. um húsabyggingar þjóðarinnar.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég hafði haldið, að hæstv. ríkisstj. hefði á undanförnum mánuðum, sem hún hefur látið þingið sitja aðgerðalítið í bið eftir húsnæðismálafrv., verið að vinna að því að finna einhverja lausn til að gera byggingarmál þjóðarinnar ódýrari og hagkvæmari en verið hefur, — að hún væri að finna einhver ráð, einhverja lausn til að gera fólki í þessu landi hagkvæmara og auðveldara að byggja yfir sig en verið hefur að undanförnu. En ef þessi mál eru liður í húsnæðismálum ríkisstj., þá hefur hæstv. ríkisstj. verið að vinna alveg þveröfugt. Þá hefur hún verið að vinna að því að gera mönnum erfiðara fyrir að byggja yfir sig, en ekki auðveldara, því að það hljóta allir að skilja, að hækkaðir vextir á lánum til bygginga gera mönnum erfiðara fyrir um byggingar, en ekki auðveldara. Þess vegna furðaði mig á því, þegar ég sá þessi frv. koma hér fram á þinginu á eftir húsnæðismálafrv. ríkisstj., og þó alveg sérstaklega, þegar hæstv. landbrh. tók það fram, að þessi mál væru liður í samkomulagi ríkisstj. um húsbyggingarmálin almennt.

Nú býst ég við því, að ég þurfi ekki að taka það fram, til þess að hæstv. landbrh. skilji, að á undanförnum árum hefur sú dýrtíð, sem skapazt hefur í þessu landi, gert mönnum í sveitum landsins alveg sérstaklega erfitt fyrir um allar framkvæmdir. Það vita allir, og þ. á m. hæstv. landbrh., hversu það er erfitt fyrir fátæka menn í sveitum landsins að koma á fót búi þar, bæði að því er snertir byggingar, jarðakaup og bústofn.

Ég hef hingað til haldið, að Framsfl. a.m.k. vildi vinna nokkuð til að auðvelda mönnum þetta. Ég hef haldið, að hann teldi það nokkurt tjón fyrir þjóðarheildina, ef menn þyrftu í síauknum mæli að hverfa úr sveitunum vegna þess, hve dýrtíð og verðbólga hefur gert öll skilyrði fyrir menn til að hefja landbúnað erfið viðfangs. En ég verð að segja það alveg umbúðalaust, að eftir að ég sé þessi þrjú frv., sem hér liggja fyrir, þá getur ekki hjá því farið, að ég efist mjög um það, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, að Framsfl. telji það nokkru skipta héðan í frá, þó að sveitirnar leggist í auðn í síauknum mæli. Á annan veg verður það tæpast skilið, að sá flokkur skuli gerast aðili að þessum frv. um hækkun vaxta á lánum til nýbýla og ræktunar og bygginga í sveitum. Og ef enn er litið til þess, að þessi sami flokkur, Framsfl., hefur í núverandi ríkisstj. og á þessu þingi gerzt aðili að og flutt ásamt ráðherrum Sjálfstfl. frumvörp um lækkun á ýmsum öðrum liðum, — liðum, sem snerta þá ríkustu í þjóðfélaginu, — þá held ég, að línur hljóti að fara að skýrast í því efni, hverra hag Framsfl. ber raunverulega fyrir brjósti. Og þá ætla ég að vitna til þess máls, sem ég tók hér með mér sem fjórða mál, þ.e.a.s. mál, sem var hér á dagskrá á síðasta fundi þessarar d., um lækkun á sköttum gróðafélaga í landinu. Framsfl. lítur sýnilega svo á, að það sé honum ríkari skylda og það sé brýnni nauðsyn fyrir þjóðfélagið að gefa gróðafélögum landsins eftir af sköttum 20% heldur en að reyna að halda í horfi vaxtagreiðslum af lánum til landbúnaðarins. Öðruvísi verður það ekki skilið, að hann skuli vera aðili að öllum þessum fjórum frv., sem ég hef hér fyrir framan mig.

Hæstv. landbrh. sagði í ræðu sinni hér áðan, að vaxtamismunur á lánum þeirra sjóða, sem lána til framkvæmda í landbúnaðinum, væri orðinn svo mikill, þ.e.a.s. mismunurinn á þeim vöxtum, sem þessir sjóðir taka, og svo lánunum, sem þeir lána til framkvæmda í landbúnaðinum, að sjóðirnir mundu fljótlega eyðast, ef ekkert væri að gert.

Nú skulum við snöggvast líta á, hverjar þessar fúlgur eru.

Í grg. með frv. til laga um aðstoð við verkamannabústaði er ekkert um þetta rætt, enda mun þar ekki um neinn vaxtamismun að ræða, því að þessum sjóði hefur verið lagt til hverfandi lítið, ef þá nokkurt fé að undanförnu.

Í grg. frv. til laga um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum segir, að vaxtatekjur þess sjóðs, sem þar er um að ræða, séu á ári 960 þús., þ.e.a.s. tekjurnar af þeim lánum, sem hann lánar til landbúnaðarframkvæmda, en vaxtagjöld hans, þ.e.a.s. vextirnir, sem hann greiðir af þeim peningum, sem hann fær til útlána, séu 847 þús. Umframtekjur þessa sjóðs af vöxtum eru þá 113 þús. kr. á ári, svo að það er sýnilegt af þessu, að a.m.k. í augnablikinu er ekki um nein vaxtatöp og sízt af öllu neinar fúlgur að ræða í því sambandi hjá þessum sjóði, svo að þetta frv. hefði því ekki þurft að bera fram núna.

Í grg. frv. til laga um Ræktunarsjóð Íslands segir, að vaxtatekjur hans séu nú 1850 þús. á ári, en vaxtagjöld 2 millj. og 100 þús.; vaxtatapið því 250 þús. á ári. Þarna er að vísu um mjög lítilfjörlega upphæð að ræða, mjög smávægilega á okkar mælikvarða í þjóðfélaginu í dag. En það er alveg rétt, að þó að þessi upphæð sé engin fúlga, eins og hæstv. landbrh. sagði, heldur mjög lítil, þá þarf þessi sjóður, Ræktunarsjóður Íslands, að sjálfsögðu að fá hana bætta. Það er skiljanlegt og eðlilegt, að hann geti ekki tekið þetta tap á sig. — Svo segir enn í grg., að tap á útlánum þessa sjóðs, miðað við það, að hann láni út með 21/2 % vöxtum, en taki fé með 61/2% vöxtum, sé 40 þús. kr. á ári af hverri millj. Nú vita allir, að þarna er ekki um að ræða margar milljónir á ári, sem velt er. Þær eru sárafáar. Tapið, 40 þús. kr. á hverja milljón, getur því aldrei orðið nein fúlga.

Ég leyfi mér að halda því fram, að hæstv. núverandi ríkisstj. hafi hiklaust og feimnislaust borgað án allra heimilda í fjárlögum stærri fúlgur úr ríkissjóði til þarfminni hluta en þó að hún hefði borgað þessar smáupphæðir til þessara nauðsynlegu hluta úr ríkissjóði án þess að biðja um heimild fyrir. Og ég efast ekki um, að ef hún hefði beðið um heimild til að borga þennan vaxtamismun, þá hefði hún mjög fúslega fengið þá heimild frá Alþingi. En ef hæstv. ríkisstj. vill ekki fara út á þá braut að borga þessar litlu upphæðir úr ríkissjóði, eins og nú standa sakir, þá skal ég á það fallast. En um leið vil ég benda hæstv. ríkisstj. á aðra leið, og alveg sérstaklega hæstv. fjmrh., af því að hann er hér viðstaddur, en ekki hæstv. landbrh., sem ég hefði þó mjög óskað eftir að væri viðstaddur þessa umr. og skil ekki, hvers vegna hann getur ekki setið í sætinu sínu hér, — þá vil ég benda hæstv. fjmrh. á leið til þess að ná þessu lítilfjörlega vaxtatapi byggingarsjóða sveitanna og verkamannabústaða með öðrum ráðum en að gera því fólki, sem fær þessi lán, erfiðara fyrir en nauðsyn er að hagnýta sér þau og hyggja upp það, sem þarf og þjóðinni allri í nútíð og framtið er nauðsynlegt að byggt sé upp. Þetta ráð er að taka þennan vaxtamismun af gróðafélögunum með því að framlengja ekki lögin um 20% eftirgjöf af skatti gróðafélaganna, með því sem sagt að draga þetta frv., sem er 188. mál, á þskj. 574, til baka og nota þá peninga, sem þessi 20% skatteftirgjöf mundi gefa ríkissjóði, til þess að borga vaxtamismun byggingarsjóðs verkamanna, nýbýlasjóðs og ræktunarsjóðs. Það mundi vera mun þarfara og betra verk af hendi hæstv. ríkisstj. en að hækka vexti af þeim lánum, sem þetta fátæka fólk á kost á að fá til að byggja yfir sig og komandi kynslóðir í þessu landi.

Hvað er það, sem veldur því, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki fara þessa leið, án þess að henni sé á það bent? Hvers vegna er hún að gefa gróðafélögunum þennan skatt eftir? Hvaða nauðsyn er á því að lækka skatt gróðafélaganna um 20%? Hæstv. fjmrh. sagði hér við umr. um það mál á síðasta fundi hér í þessari deild, að tekjur ríkissjóðs af skatti, sem þessi gróðafélög borguðu, væru orðnar hverfandi litlar í hlutfalli við þann skatt, sem einstaklingarnir borga, og þess vegna munaði ríkissjóð sáralítið um það, þó að gefið væri eftir af honum. En hvernig stendur á því, að tekjur ríkissjóðs af skatti gróðafélaganna eru litlar, miðað við tekjur hans af skatti einstaklinga? Er það af því, að gróðafélögin í landinu hafi minni tekjur og minni gróða en einstaklingarnir? Nei, það er ekki af því, og það vita allir, að sú er ekki orsökin. Hins vegar stafar þetta af því, að gróðafélögin í landinu hafa möguleika til að skattsvíkja, sem einstaklingarnir hafa ekki, og af því að gróðafélögin nota þennan möguleika. Þetta veit hæstv. ríkisstj., og þetta veit hið háa Alþingi Íslendinga. En hvernig bregðast þeir við þessari staðreynd? Jú, á þann hátt að refsa ekki gróðafélögunum fyrir skattsvik, heldur verðlauna þau fyrir að skattsvíkja svo, að tekjur ríkissjóðs séu orðnar hverfandi litlar. Í stað þess sem sagt að refsa gróðafélögunum fyrir skattsvikin eru þau verðlaunuð. Vegna þess að tekjur ríkissjóðs af skatti þeirra eru orðnar mjög litlar, þar sem þau skattsvíkja sennilega um 50–75% af tekjum sínum, þá skulu þau nú ekki einu sinni borga þennan skatt, sem þau af frjálsum og fúsum vilja ætla að borga, því að annað gefa þau ekki upp. Þau gefa ekki upp aðrar tekjur en þær, sem þau vilja af frjálsum og fúsum vilja greiða skatt af. Þá kemur hæstv. ríkisstj. og segir: Nei, herrar mínir, þetta er ofrausn, þið hefðuð átt að skattsvíkja meira, og vegna þess að þið ekki skattsvíkið meira en þið gerið núna, þá skulum við gefa ykkur eftir 20% af þeim skatti, sem þið vilduð sjálfir borga. — Ég hygg, að þetta sé einsdæmi í veraldarsögunni, a.m.k. meðal siðmenntaðra þjóða. Og nú vil ég benda hæstv. ríkisstj. á, að til þess að forða sér við algera háðung í þessum efnum, til að forðast það að verða að athlægi um allt land, þá ætti hún nú að draga þetta frv. til baka, bera fram nýtt frv. og segja: Skatteftirgjöf gróðafélaganna verður ekki endurnýjuð, þeir verða að borga sinn skatt, sem þeir af frjálsum og fúsum vilja vilja borga, en við notum hluta af þeim tekjum, sem ríkissjóður á þann hátt fær, til þess að borga vaxtatöp ræktunarsjóðs, nýbýlasjóðs og þess sjóðs, sem veitir lán til verkamannabústaða. — Ég er alveg viss um, að ríkisstjórnin mundi hljóta miklu meiri blessun fyrir þetta hjá þjóðinni almennt heldur en þá blessun, sem hún fær frá gróðafélögunum fyrir þau 20%, sem hún ætlar að gefa þeim.