03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

189. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm, meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forsetl. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu, er stjórnarfrv., sem borið var fram í hv. Nd. og hefur hlotið samþykki þar. Í því er ætlazt til, að vextir á öllum lánaflokkum samkv. l. nr. 36 16. febr. 1952, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, hækki úr 2% og upp í 31/2%. Í athugasemdunum við lagafrv. þetta er þess getið, að ástæðan til þessarar hækkunar sé sú, að vaxtakjör hér á landi hafi hækkað verulega á undanförnum árum, og að ríkisstj. leggi samtímis fyrir Alþingi frv. til laga um hækkun á vöxtum á lánum byggingarsjóðs sveitanna og ræktunarsjóðs.

Meiri hl. n., þeir fjórir, sem skrifa undir nál. á þskj. 704, leggur til, að frv. þetta verði samþykkt óbreytt og telur sanngjarnt, að þessi hækkun fari fram, miðað við vaxtakjör eins og þau eru hér á landi. Í raun og veru má segja, miðað við almenn útlánskjör banka, að sú upphæð, sem lánuð er, sé raunverulega ekki lánuð, heldur gefin með þessum vaxtakjörum, þegar litið er til lánstímans.

Ég hef því miður ekki haft tækifæri til þess að fara nákvæmlega yfir nál. hv. minni hl. fjhn., hv. 4. þm. Reykv., vegna þess að ég varð að fara frá hér í deildinni og því var ekki útbýtt fyrr en á þessum fundi, en það stakk mig í augun, að hann segir þar, ef ég má lesa upp, með leyfi forseta:

„Þessi afstaða ríkisstj. og stuðningsflokka hennar verður að teljast næsta furðuleg, þegar þess er gætt, að þeir hafa þegar komið sér saman um að tryggja byggingarsjóði sveitanna a.m.k. 12 millj. kr. aukið starfsfé á ári næstu tvö ár og lýst því yfir opinberlega. Lagt var til í Nd., að byggingarsjóði verkamanna yrði tryggð sama upphæð, en sú till. var, elns og áður er sagt, kolfelld af stjórnarliðinu. Er þetta enn eitt glöggt dæmi þess, hversu ráðandi þingmeirihluti mismunar stéttum þjóðfélagsins og hversu sljóskyggnir fulltrúar kaupstaðanna í stjórnarflokkunum eru á nauðsyn verkamanna og annarra kaupstaðabúa .“

Ég vil algerlega mótmæla þessum áburði á stuðningsflokka stjórnarinnar sem rakalausum og benda hv. þm. á það, að allur obbinn af því fé, sem ætlazt er til að varið verði til húsbygginga samkv. stjórnarfrv. á þskj. 522, gengur til kaupstaða og þorpa hér á landi. Þar að auki vil ég benda honum á, að það er sannarlega ekki gert eingöngu fyrir sveitirnar, þó að þeim sé tryggð viss upphæð, því að það er gert að miklu leyti til þess að koma í veg fyrir straum fólks úr sveitunum í kaupstaðina, sem við erum sennilega allir sammála um að sé þegar allt of stríður, svo að kaupstaðirnir geti varla tekið við því. Það er þó ekki síður hagsmunamál kaupstaðanna, að fólkinu sé gert lífvænlegt að lifa í sveitunum með því að fá sæmilegt húsnæði yfir höfuðíð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri. Ég leyfi mér fyrir hönd meiri hluta n. að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.