18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

190. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. lagði hér fram á Alþingi fyrir nokkrum dögum þrjú frv., sem öll fjalla um svipað atriði, vaxtahækkanir í sambandi við þrjá sjóði, tvo, sem snerta sveitir landsins, og einn, sem snertir kaupstaði og kauptún.

Maður skyldi nú ætla, að þegar hæstv. ríkisstj. kæmi fram með frv., sem fyrst og fremst snerta byggingarmál þeirra manna í sveit og við sjó, sem á ýmsan hátt eiga hvað erfiðasta aðstöðu, þá hefðu það verið frv., sem hnigið hefðu í þá átt að bæta nokkuð aðstöðu manna, sem vissulega er ærið erfið, þau hefðu hnigið í þá átt að auka fjármagn þeirra sjóða, sem hér um ræðir, og auðvelda fleiri mönnum að njóta þeirra mjög svo sæmilegu kjara, sem þar hefur verið um að ræða.

En þessu er nú því miður ekki að heilsa, heldur hníga öll þessi frv, í hina áttina, að draga úr þeim fríðindum, sem menn hafa notið, þeir menn, sem hafa verið að berjast við það að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða að rækta landið og byggja upp sveitirnar.

Maður hefur þó heyrt það ærið oft, a.m.k. hjá fylgismönnum annars stjórnarflokksins, Framsfl., að ekki sé vanþörf á því að reyna að stöðva eitthvað fólksflóttann úr sveitunum, reyna að hamla upp á móti því, að sveitirnar færu í auðn, en það frv., sem hér liggur fyrir, og annað hliðstætt, sem einnig er hér á dagskránni, virðist ekki vera flutt í því skyni að stuðla að þessu, heldur hlýtur það að verka þveröfugt, það hlýtur að gera mönnum erfiðara fyrir en áður við þær nauðsynlegu framkvæmdir, sem vitanlega liggja fyrir víðs vegar í sveitum landsins.

Ég hafði hugsað mér að beina hér einni fyrirspurn til hæstv. landb.- og félmrh., en ég sé hann ekki hér í d., og þykir mér það heldur miður, að hann hefur ekki tíma til að vera við þessar umr. Míg langaði til að beina til hans þeirra fyrirspurn, hvað það mundi kosta hið opinbera árlega að tryggja þeim þremur sjóðum, sem um ræðir í þessum þremur frv., tekjur, er nema sömu upphæð og væntanlegar tekjur af hækkun vaxtanna, sem lögð er til í þessum frv. Þáð er út af fyrir sig fróðlegt að fá að vita það, hversu háar upphæðir hér er um að ræða.

Í sambandi við frv. um breyt. á l. um verkamannabústaði og aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, sem hér var á dagskrá áðan, fór hv. 8. landsk. (BergS) nokkuð inn á þetta mál og sýndi fram á það, að þær upphæðir, sem hér er um að ræða, eru ekki svo gífurlega háar, að þær ættu að vaxa alþm. í augum. Það væri víssulega fróðlegt að fá að vita nokkuð nákvæmlega, um hve háar tölur er hér að ræða og hvort ekki mundi þá verða talið fært að fara einhverja aðra leið en þá, sem lögð er til í þessum frv., hvort annaðhvort ríkissjóður getur ekki tekið á sig þennan vaxtamun eða þessa upphæð, sem hér er um að ræða, ellegar hægt er að fara enn aðrar leiðir, og benti þá m.a. hv. 2. þm. Reykv. á eina leið varðandi Búnaðarbankann.

Það, sem er að sjálfsögðu aðalatriði þessa máls, er sú stefna, sem hér er mörkuð, en stefna hæstv. ríkisstj. virðist vera sú að hækka vextina almennt og að því er sagt er nokkuð til samræmis við þær vaxtahækkanir, sem almennt hafa orðið. En hér er um allmikið mál að ræða, þar sem virðist vera um að ræða, hvort nú eigi að þurrka út eða eyðileggja ýmislegt það bezta í íslenzkri löggjöf, svo sem ákvæði í sambandi við vexti þeirra sjóða, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. ræktunarsjóðsins og byggingar- og landnámssjóðs, að því er sveitirnar varðar, og verkamannabústaðasjóðsins, að því er varðar kaupstaðina.

Það er oft um það talað, að það þurfi að snúa við straumnum, sem legið hefur frá sveitunum til kaupstaðanna, það verði að byggja sveitirnar upp. Hv. framsóknarmenn hafa mjög um þetta rætt bæði hér á Alþ. og í blöðum sínum og viljað, að því er virðist, leggja á þetta áherzlu, a.m.k. í orði kveðnu. Menn verða þess vegna dálítið hissa, ef þeir hafa tekið öll þau orð mjög hátíðlega, þegar þeir fá á einum og sama degi þrjú frv. eins og þessi, þar sem tvö þeirra snerta svo mjög hagsmuni sveitanna.

Sjálfstæðismenn hafa einnig talið sig bera sveitirnar allmjög fyrir brjósti, og oft hefur manni heyrzt, að allmikið kapphlaup væri milli þessara tveggja hv. flokka um það, hvorir séu meiri forsvarsmenn sveitanna. Þeir hafa sett hér á laggirnar n. til þess að halda við jafnvægi í byggð landsins, og sú n. hefur nú að vísu ekki gert stóra hluti enn þá. Þetta eru þó allt a.m.k. sýndartillögur, það er verið að reyna að sýnast, að því er varðar málefni sveitanna, en svo kemur veruleikinn í gervi frv. eins og þeirra, sem hér liggja fyrir, og þá er nokkuð annað upp á teningnum.

Ég mun nú ekki á þessu stigi málsins ræða öllu frekar um þetta frv., sem hér liggur fyrir, en mér þætti mjög vænt um það, ef einhver hæstv. ráðh., — ég sé nú ekki, að hæstv. landbrh. sé kominn í d., en hér er hæstv. fjmrh., og mér þætti mjög vænt um það, ef einhver gæti svarað þeirri fyrirspurn minni, hversu mikið fé hér er um að ræða, hvað það mundi kosta t.d. ríkissjóð að tryggja þeim þremur sjóðum, sem hér um ræðir, tekjur, er næmu þeirri upphæð, sem þeir mundu væntanlega fá vegna vaxtahækkana þeirra, sem hér eru lagðar til.