26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

190. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og er 190. mál þingsins, er stjfrv. og fer fram á það að hækka vexti í byggingarsjóði sveitanna úr 2% upp í 31/2%.

Fjhn. hefur athugað þetta mál og ekki getað orðið um það sammála, þar sem hún hefur klofnað í tvo hluta. Meiri hluti n., sem skilar áliti á þskj. 627, leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Það, sem gerir að verkum, að við viljum samþ. þessa hækkun á vöxtum byggingarsjóðs, byggist á því, að við leggjum meira upp úr því, að sjóðurinn hafi fjármagn til þess að lána, heldur en hinu, þó að vextirnir séu nokkuð hækkaðir, enda þótt það sé aldrei æskilegt mál. Eins og gerð er grein fyrir bæði í grg. frv. og að nokkru leyti í nál. okkar meiri hl. um breytingu á ræktunarsjóðslögunum, þá kostar mjög mikla fúlgu að standa undir vaxtamismun, ef vöxtunum er ekki neitt breytt.

Ég skal ítreka það, sem minnzt er á í nál. okkar á þskj. 627, að það er ekki til þess ætlazt, að þessi vaxtahækkun komi á nein þau lán, sem búið er að veita, og ekki heldur á þau byggingarlán, sem búið er að veita fyrri hlutann af, þegar lögin taka gildi, þar sem telja verður, að búið sé að gera samning um þau lán á grundvelli hinna eldri laga.

Varðandi þær brtt., sem fram hafa veríð fluttar víð þetta frv., skal ég ekki fyrir hönd meiri hluta n. tala neitt um þær að svo stöddu, fyrr en þeir hv. flm., sem þær flytja, hafa fyrir þeim talað.