08.03.1955
Efri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

165. mál, heilsuverndarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. til heilsuverndarlaga, sem ég hef leyft mér að flytja hér, er flutt í samráði við landlækni og dr. Sigurð Sigurðsson berklayfirlækni. Þeir hafa bent á það réttilega, að eins og lögin eru núna, þá eru þau ekki framkvæmd, vegna þess að forusta bæjarfélaganna hefur brugðizt með öllu. Það hefur einnig þótt nauðsynlegt að láta heilsuverndarlögin ná yfir fleiri þætti heilsuverndar en þau lög, sem nú gilda.

Þær breytingar, sem hér er farið fram á með þessu frv. á núgildandi lögum um heilsuverndarstöðvar, l. nr. 64 1944, eru ekki nema smávægilegar. Helzta breytingin, sem felst í 1. gr., er sú, að samkv. frv. er ekki lögð sú skylda á kaupstaðina að reka slíkar stöðvar. Samkv. núgildandi lögum getur ráðherra að vísu veitt kaupstöðum undanþágu.

Núgildandi lög leggja megináherzlu á berklavarnir, en segja um aðra heilsuverndarstarfsemi, að ákveða skuli um hana í reglugerð. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir, að staðfestingu ráðherra þurfi á slíkri reglugerð, nema ágreiningur verði á milli bæjarstjórnar og sjúkrasamlags, en samkv. frv. er gert ráð fyrir, að staðfestingu ráðherra þurfi alltaf. Upptalning er í frv. á 12 greinum heilsuverndar, en sú upptalning er aðeins ábending um það, sem til greina gæti komið að ákveða í reglugerðunum.

Í núgildandi lögum segir beinlínis í 3. gr., hvernig stjórn heilsuverndarstöðvar skuli skipuð, og fyrirvari jafnframt í gr. um, að fela megi sjúkrasamlagi eða viðurkenndu líknarfélagi rekstur stöðvar, og að stöð skuli háð eftirliti héraðslæknis, nema hún sé undir stjórn sérstaks læknis, er ráðherra hefur viðurkennt. Í frv. segir um þetta efni einfaldlega, að í reglugerð skuli ákveða, hvernig haga skuli stjórn og umsjón heilsuverndarstöðvar undir yfirstjórn hlutaðeigandi sveitarstjórnar.

Gert er ráð fyrir sömu skiptingu á kostnaði við starfsemi stöðvanna, 1/3 af ríki, 1/3 af sjúkrasamlagi og 1/3 af sveitarfélagi, en þó látið að því liggja, að sjúkrasamlögum verði sleppt við þátttöku, ef sérstök ástæða þyki til. Hins vegar geti ráðherra úrskurðað um þátttöku sjúkrasamlags, allt að 1/3, ef sveitarfélag geri kröfu um það. Er þessi fyrirvari samkv. því, er segir í grg., vegna fyrirhugaðra möguleika á mjög útvíkkaðri starfsemi á heilsuverndarstöðvum, sem gæti orðið sjúkrasamlögunum ofviða.

Óbreytt er eldra ákvæði 77. gr. almannatryggingalaganna um þátttöku ríkisins í byggingarkostnaði heilsuverndarstöðva, sama og um sjúkrahús, 1/3 í kaupstöðum og 2/3 utan þeirra.

Eins og sjá má af þessu, er ekki um neinn aukakostnað fyrir ríkissjóð að ræða, þótt þetta frv. verði samþykkt. Þetta frv. er fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir það, að í landinu séu lög, sem ekki er hægt að framfylgja. Af 13 kaupstöðum hafa aðeins sex talið sér fært að fylgja bókstaf laganna og koma af stað heilsuverndarstöðvum í anda þeirra. Þetta frv. kemur í veg fyrir það, að kaupstaðirnir þurfi að brjóta lögin, vegna þess að það gerir ekki ráð fyrir neinni skyldu á hendur kaupstöðunum að koma þessum stöðvum upp.

Ég vænti þess, að hv. d. sjái sér fært að afgreiða þetta frv., sem er til samræmís og lagfæringar á heilsuverndarlögunum, en ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.