08.03.1955
Efri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

165. mál, heilsuverndarlög

Haraldur Guðmundsson:

Mér þykir rétt, áður en þetta mál fer til nefndar, að bæta örlitlu við það, sem hæstv. heilbrmrh. sagði, og sérstaklega benda á það, að með þessum lögum er geysilega mikið fært út starfssvið heilsuverndarstöðvanna frá því, sem nú er. Á því er án efa hin mesta nauðsyn. Það er fullkomlega rétt, sem hér segir í grg. og hæstv. ráðherra tók fram, að ákvæðin um heilsugæzlu og heilsuvernd í almannatryggingal. hafa ekki komið til framkvæmda til þessa, því miður. Nokkur af þeim verkefnum, sem þar er gert ráð fyrir að tekin yrðu undir heilsuvernd, eru einmitt talin upp hér í 2. gr. frv. í viðbót við þá þrjá þætti, sem heilsuverndarstöðvarnar hafa annazt til þessa, en það er, eins og hæstv. ráðherra tók fram, berklavarnir, mæðravernd og ungbarnavernd, en starfssvið heilsuverndarstöðvarinnar er ætlazt til að taki yfir þá 12 liði, sem nú eru taldir upp í 2. gr. Ég geri því ráð fyrir, að það verði ekki hjá því komizt, að nokkur kostnaður fylgi framkvæmd þessara laga. Hins vegar er ég alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að úr því að ekki hefur komið til framkvæmda kaflinn um heilsugæzlu í almannatryggingal., þá sé fyllsta nauðsyn á því að setja lög og ýtarlegri reglur um starfsemi heilsuverndarstöðvanna í tilefni þessa, og get því mælt með því, að frv. verði samþykkt.