18.03.1955
Efri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

165. mál, heilsuverndarlög

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Heilbr: og félmn. hefur orðið sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt. Það er samið af Sigurði Sigurðssyni heilsugæzlustjóra og landlækni, að ég ætla í sameiningu, og borið fram af hæstv. ríkisstj.

Í tvennum lögum eru nú ákvæði um heilsuverndarstörf. Annars vegar í lögum um heilsuverndarstöðvar frá 1. des. 1944 og enn fremur í lögum um almannatryggingar frá 1946, en þau ákvæði hafa ekki nema að litlu leyti komið til framkvæmda enn þá, þannig að lögin frá 1944 eru að mestu í gildi. Samkvæmt ákvæðum beggja þessara laga er það skylda bæjarfélaganna að reisa heilsuverndarstöðvar og reka þær, samkvæmt ákveðnum reglum, sem þar um eru settar í lögunum. Þessi lög eru búin að standa í meir en 10 ár, en samt skortir mjög mikið á, að þessum ákvæðum hafi verið framfylgt. Það eru 6 af bæjarfélögunum, sem hafa komið sér upp heilsuverndarstöðvum, og hjá sumum þeirra eru þær rétt aðeins í byrjun, vísir, ef svo mætti segja. Hin 7 hafa ekki hafzt neitt að í þessum efnum. Hvað þessu veldur, er gerð nokkur grein fyrir í athugasemdum, sem fylgja frv., en um það segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þannig eru enn aðeins 6 af 13 kaupstöðum í landinu, sem reka slíkar stöðvar. Stafar þetta af því, að hin lögboðna forusta bæjarfélaganna í þessu efni hefur brugðizt, og eigi síður af hinu, að þrátt fyrir ábendingar til Alþ. um nauðsyn aukinna fjárveitinga í þessu skyni hefur fram til þessa eigi fengizt nægilegt fjármagn frá ríkinu til styrktar nýjum stöðvum, er tekið hefðu til starfa, en það hefur leitt til þess, að fyrirsvarsmenn heilbrigðismála ríkisins hafa hliðrað sér hjá því að hvetja bæjarfélög til aukinnar heilsuverndarstarfsemi.“

Þetta er umsögn þeirra, er frv. sömdu, og væntanlega þá heilbrigðisstjórnarinnar um leið um ástæðurnar til þess, að ekki hefur verið hafizt handa um að byggja og reka heilsuverndarstöðvar eins og lögin gera ráð fyrir.

Meginefni þessa frv. er því það, að í stað þess að halda áfram í lögum ákvæðum um skyldu bæjarfélaga til að reisa og reka heilsuverndarstöðvar sé þessi kvöð felld niður, en aðeins sett í lögin ákvæði um, með hverjum hætti slíkar stöðvar skuli reknar, hver skuli vera verkefni þeirra og hvers styrks þær skuli njóta annars staðar frá en frá því bæjarfélagi, sem rekur þær.

Segja má, að þetta sé að sumu leyti spor aftur á bak frá því, sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum, en heilbrigðisstjórnin mun líta svo á, að hér sé um illa nauðsyn að ræða, þar sem ekki þýði að hafa ákvæði í lögum, sem ekki fáist komið í framkvæmd.

Eftir þessu frv. er gert ráð fyrir því, að starfssvið heilsuverndarstöðvanna aukist mjög frá því, sem nú er í framkvæmd, en þær heilsuverndarstöðvar, sem hingað til hafa starfað, hafa aðeins sinnt þremur meginverkefnum, þ.e. annazt um berklavarnir, þ.e.a.s. skoðun, rannsóknir og annað slíkt, mæðravernd og ungbarnavernd. En samkvæmt 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að verkefnin verði þau, sem þar eru talin upp í 12 liðum. Að sjálfsögðu er þar ekki ætlazt til, að öllum heilsuverndarstöðvum sé skylt að taka að sér að rækja öll þessi verkefni, en án efa er það ætlunin, að meiri háttar stöðvarnar á hinum stærri stöðum sinni þessu, þó að hinar smærri taki ekki nema nokkuð af verkefnunum.

Þessi ákvæði, sem tekin eru hér upp í 2. gr., eru efnislega að mestu leyti í samræmi við þau ákvæði, sem segja til um hlutverk heilsuverndarstöðva í almannatryggingalögunum, þ.e.a.s., þeim er ætlað nokkurn veginn sama verkefni eftir þessu frv. og þeim var ætlað eftir almannatryggingal. 1946. Nánar skal svo ákveða í reglugerð um stjórn og umsjón heilsuverndarstöðva undir yfirstjórn hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna, ef um fleiri er að ræða. Í almannatryggingal. var hins vegar gert ráð fyrir því, að sérstakri nefnd, heilsugæzlunefnd, yrði falin umsjón þessara stofnana ásamt sjúkrahúsi og öðru slíku, en þetta er fellt niður, þar sem hér er gert ráð fyrir, að sérstök lög gildi um heilsuverndarstöðvarnar.

Um kostnaðinn við að byggja heilsuverndarstöðvarnar fer á sama hátt og með kostnað við að reisa sjúkrahús. Það er hlutaðeigandi bæjarfélag, sem reisir stöðina, en fær styrk til byggingarinnar úr ríkissjóði á sama hátt og ef um sjúkrahús væri að ræða. Um rekstrarkostnaðinn segir svo í frv., að hlutaðeigandi bæjarfélag skuli annast reksturinn, en ríkissjóður greiði þriðjung kostnaðar. Enn fremur segir svo í 4. gr., að ef þess er æskt af hlutaðeigandi sveitarstjórn, að sjúkrasamlag eða sjúkrasamlög á starfssvæði stöðvarinnar taki þátt í greiðslu kostnaðar hennar, þá er gert ráð fyrir, að um það verði samið milli hlutaðeigandi sjúkrasamlaga og hlutaðeigandi sveitarstjórna. En náist ekki samkomulag milli þeirra, þá er ráðh. heimilt að úrskurða, hversu mikinn hluta sjúkrasamlagið eða sjúkratryggingarnar skuli greiða af rekstrarkostnaðinum, þó þannig, að sá hluti má aldrei fara fram úr 1/3, eða aldrei verða hærri en framlag ríkissjóðs sjálfs.

Hingað til hafa, þar sem heilsuverndarstöðvar eru starfandi, sjúkrasamlögin yfirleitt greitt jafnmikið til stöðvarinnar og ríkissjóður greiðir, eða um 1/3. Hins vegar er þess að gæta, að gert er ráð fyrir, eins og ég áðan sagði, að verksvið stöðvanna verði stórum mun viðtækara samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður, heldur en hefur verið til þessa. Af þeim verkefnum, sem heilsuverndarstöðvunum er ætlað samkvæmt frv., eru mæðravernd, ungbarnavernd og berklavarnir þeir þættir, sem nú þegar hafa verið ræktir af heilsuverndarstöðvum og sjúkrasamlögin hafa tekið að 1/3 þátt í greiðslu kostnaðar við. Um hin önnur verkefni er það að segja, að fæst af þeim snerta á nokkurn hátt beinlínis starfsemi sjúkrasamlaganna, og væri því óeðlilegt að ætla þeim að bera kostnað af þeim. Í því sambandi skal ég t.d. nefna skólaeftirlit, sem nú er greitt af hlutaðeigandi aðilum samkvæmt fræðslulögum, og hefur jafnan verið svo. Einnig er hið sama um kynsjúkdóma, að þeir hafa hvílt á ríkissjóði, hinu opinbera, kynsjúkdómar og kynsjúkdómavarnir. Sama er um tannvernd. Sjúkrasamlögin hafa ekki tekið þátt í henni enn þá. Það, sem gert hefur verið af slíku, hefur verið í barnaskólunum í sambandi við starfsemi þeirra. Hins vegar hefur verið gert ráð fyrir því og á nokkrum stöðum tekið upp, að börn, sem útskrifast úr skólum að loknum lögboðnum skólatíma og hafa vottorð um heilar tennur, geta keypt sér tryggingu áfram gegn tannskemmdum. Íþróttaeftirlit hafa sjúkrasamlögin ekkert haft með að gera hingað til, og varla er eðlilegt að fella það undir þau. Almennar sjúkdómavarnir, eins og farsóttir, hafa ekki heldur heyrt undir sjúkrasamlög, heldur bornar uppi af ríkissjóði sérstaklega. Þrifnaðarráðstafanir hefur aldrei, held ég, verið hugsað til að sjúkrasamlögin tækju að sér og áfengisvarnir ekki að öðru leyti en því að styrkja og hjálpa þeim sjúklingum, sem áfengið hefur eyðilagt heilsuna fyrir. Mér þykir rétt að benda á þetta nú þegar, taka fram við þessa umr., að það er alveg augljóst, að mikið af því starfi, sem heilsuverndarstöðvunum er ætlað samkv. þessu frv.; liggur utan þess starfssviðs, sem sjúkrasamlögunum er ætlað eftir l. um sjúkratryggingar. Því skilst mér, að ekki kæmi til þess, að ráðh. gæti notað þá heimild, sem um er að ræða til þess að ákveða þriðjungsgreiðslu af sjúkrasamlagsins hálfu, nema á þeim stöðum, þar sem ekki er sinnt öðrum verkefnum en þeim, sem falla saman við það hlutverk, sem sjúkratryggingunum er ætlað að inna af hendi.

Ég hef rætt um þetta líka við smiði þessa frv., og þeir eru mér sammála um þetta.

Segja má, að það sé kannske nokkurt bráðlæti að leggja þetta frv. fram nú til afgreiðslu, þar sem almannatryggingalögin eru nú í endurskoðun og gert er ráð fyrir, að niðurstaðan eða till. frá þeirri n., sem endurskoðunina annast, verði lagðar fyrir Alþ. ekki síðar en næsta haust. Það mætti segja, að það væri nokkurt bráðlæti að taka þennan þátt út úr og hér inn í sérstök lög. Ástæðan til þess, að heilbrigðisstjórnin leggur kapp á það að fá þetta mál afgr. nú, mun vera sú, að heilsuverndarstöðin hér í Reykjavík, sem er mjög mikil og fullkomin bygging með talsverðu starfsliði og umfangsmikla starfsemi, skortir í raun og veru grundvöll fyrir sína starfsemi. Því er nauðsynlegt að fá ákvæði, sem hægt sé að byggja á í sambandi við rekstur hennar og fyrirkomulag allt, sem enn er ekki að fullu ráðið. Ég álít því, að það sé rétt, er sammála n. um það að afgr. þetta frv. nú, þó að almannatryggingalögin séu í endurskoðun, því að allt mun í óvissu um, hvað verður um heilsugæzlukafla þeirra laga eða þann þátt heilsugæzlukaflans, sem fjallar um heilsuvernd. Ef honum verður haldið áfram, er auðveit að sjálfsögðu að fella inn í þau lög ákvæði þessara laga, að svo miklu leyti sem þau eiga við. En verði horfið frá því ráði, sem upprunalega var ætlunin með almannatryggingalögunum, þá geta þessi lög staðið áfram sem sjálfstæð lög. En bráð nauðsyn kallar að, — um það er heilbrigðisstjórn og þeir aðilar, sem bezt þekkja til, sammála, — að lög og reglur komi um þetta, þannig að hægt sé að koma skipulagi á starfsemi heilsuverndarstöðvarinnar hér og þeirra annarra stöðva, sem kannske kynnu að rísa upp nú alveg á næstunni. Það er því till. n., sem einnig ég er sammála, að stjfrv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir.