08.11.1954
Neðri deild: 14. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

70. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað það frv., sem hér liggur fyrir, og leggur til, að það verði samþykkt.

Ég sé ekki ástæðu til að gera að umtalsefni nauðsyn þeirra breytinga, sem frv. felur í sér. Landbrh. gerði það svo rækilega við 1. umr. þessa máls, að ég hef þar engu við að bæta. En meðan n. hafði þetta frv. til athugunar, þá bárust henni tilmæli frá nefnd, sem hefur verið að starfa á vegum búnaðarþings og vinnur að endurskoðun jarðræktarlaganna, um, að landbn. tæki til athugunar og flutnings breytingar á 4. gr. ræktunarsjóðslaganna. N. taldi sjálfsagt að verða við þessu, að athuga þetta sérstaklega, þar sem hér voru fluttar af stjórnarinnar hálfu breytingar á ræktunarsjóðslögunum, og var því eðlilegast, að þetta fylgdist að, ef ástæða þætti til að gera slíkar breytingar.

Við nánari athugun kom það í ljós, að samkv. núgildandi lögum má ekki veita til framkvæmda, sem njóta framlags samkv. jarðræktarlögunum, hærri lán úr ræktunarsjóði en sem svarar allt að 30% kostnaðarverðs, en út á aðrar framkvæmdir má veita allt að 60% kostnaðarverðs. Nú er, eins og kunnugt er, jarðræktarframlag mjög mismunandi hátt eftir því, um hvaða framkvæmdir er að ræða. Ég geri ráð fyrir, að þetta ákvæði, sem er í gildandi lögum, hafi ekki verið mjög fjarri sanni, þegar lögin voru sett, en síðan hafa orðið nokkrar breytingar, þannig að framlag í þessu skyni hefur verið hækkað allverulega á sumum liðum, aðrir liðir hafa staðið í stað eða jafnvel lækkað. Það er þess vegna orðið beinlínis mjög tilfinnanlegt misrétti, sem þetta getur valdið einstökum lántakendum, sem hafa hlotið lítils háttar jarðræktarstyrk. Þeir gjalda þess með því, að þeir fá aðeins 30% kostnaðarverðs framkvæmdanna, þegar aðrir fá 60%. Og í sumum tilfellum hefur það sýnt sig, að það er beinlínis tjón fyrir þá að hafa tekið á móti jarðræktarstyrknum. Nefndin telur því, að hér sé breytingar þörf, og leggur til, að 4. málsgr. verði orðuð þannig, að upphæð lánanna megi vera allt að 60% kostnaðarverðs, en njóti framkvæmd framlags samkv. jarðræktarlögunum, þá lækki lánsupphæðin sem svarar framlaginu. Þá kemur það fram, hver styrkurinn hefur verið, og hann dregst frá. Þetta telur n. að sé í alla staði eðlilegra en eins og nú er fyrir mælt í lögum og leggur til, að þessi brtt. verði samþykkt. — N. leggur til, að frv., þannig breyttu, verði vísað til 3. umr.