25.02.1955
Neðri deild: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

94. mál, iðnskólar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er, eins og hv. þm. vita, stjfrv. Með þessu frv. hafa verið stigin þegar allstór spor fram á við viðvíkjandi iðnfræðslunni og skipulagningu iðnskólanna. Ég vildi nú aðeins við þessa 3. umr. freista þess, hvort hægt væri að fá samkomulag um að stíga þarna nokkur stærri skref, og hef þess vegna útbúið nokkrar brtt., sem liggja fyrir á þskj. 382 og 389.

Brtt. mínar eru í fyrsta lagi við 1. gr., að í stað heimilda til að halda námskeið til framhaldsnáms og undirbúnings iðnnámi skuli það vera skylda. Í öðru lagi, og það er önnur höfuðbreytingin við 3. gr., að ríkisstj. skuli hafa forgöngu um stofnun iðnskóla, að það skuli ekki lengur vera þeir aðilar, sem nú eru tilgreindir í 3. gr.: bæjarstjórnir, sýslunefndir og iðnaðarmannafélög, heldur skuli ríkið skoða það sem sitt verkefni að hafa þessa forgöngu og þá skuli ríkið fyrst og fremst gangast fyrir, að komið sé upp tveim fullkomnum iðnskólum a.m.k., í Reykjavík og á Akureyri. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að við nánari ranasókn á þessum málum kunni að þykja hentugt að hafa ef til vill víðar iðnskóla og líka ef til vill víðar að skipuleggja nokkurs konar gagnfræðaskóladeildir í sérstökum: iðngreinum, en að það sé þó alltaf öruggt, að það séu til tveir fullkomnir iðnskólar, sem hafi nýtízku útbúnað til þess að geta útskrifað menn í iðninni, og með brtt. minni við 6. gr., sem er 5. brtt. mín á þskj. 382, legg ég enn fremur til, að þessir iðnskólar séu dagskólar og að kennsla í þeim sé bæði verkleg og fræðileg. Það hefur verið svo undanfarin ár og alllengi, að kennslan, sem iðnnemar hafa átt að fá, hefur í fyrsta lagi verið af ákaflega skornum skammti oft og tíðum í þeim verkstæðum eða verksmiðjum sjálfum, þar sem þessi kennsla hefur átt að fara fram, oft mjög af handahófi, og hins vegar héfur sú bóklega kennsla, sem þeir hafa átt að fá, venjulega verið á kvöldin, þó að það nú upp á síðkastið hafi breytzt nokkuð hér í Reykjavík hvað tvo árgangana snertir. Lengst af hefur það verið þannig, að þeir hafa orðið að læra á kvöldin eftir langan vinnutíma, þreyttir og illa upplagðir, og slíkt er náttúrlega alveg óhæfa. Ekki sízt þegar verið er að berjast fyrir að koma á 8 tíma vinnudegi fyrir fullorðna menn, þá er það hart, að kornungir iðnnemar skuli fyrir utan sinn vinnudag oft og tíðum hafa orðið að vinna þar að auki að kvöldinu líka og ef til vill aldrei haft neinn tíma til að lesa undir þann kvöldskóla, sem þeir hafa átt að ganga í. Á þessu verður að verða breyting, það hefur miðað í þá áttina, og það væri gott, ef við gætum stigið þau spor dálítið stærri.

Við skulum gera okkur það ljóst, einmitt þegar við erum að tala um okkar iðnað og hvað hann sé að verða vaxandi hvað gildi snertir sem atvinnugrein fyrir Ísland, að eitt það þýðingarmesta, sem við höfum og getum haft á að skipa í iðnaði, eru vel hæfir iðnaðarmenn, vel almennt menntaðir og vel að sér í sinni grein, og á það verðum við að leggja alveg sérstaka áherzlu. Nú er það hins vegar svo, að iðngreinar nútímans gera meiri og meiri kröfur til sérhæfni, og ef á að verða við því að kenna mönnum og fullnægja þessum kröfum um sérhæfni, þá þarf það að innlimast í kennsluna. Kennslan þarf að vera sumpart í sambandi við verksmiðjurnar sjálfar, sumpart þannig, að það séu vel útbúnar vinnustöðvar, rétt eins og verksmiðjur eða verkstæði væru, í þeim skólum, sem þetta eiga að kenna. Að þessu þarf að stefna, það mun öllum ljóst, sem um þetta fjalla, og það væri gott, að við gætum stigið það spor hraðar en gert er ráð fyrir í núverandi iðnskólafrumvarpi. Þess vegna er það, að ég hef fylgzt með því, að hjá þeim mönnum, sem þetta mæðir nú alveg sérstaklega á, hjá iðnskólanemunum sjálfum, er vaxandi áhugi fyrir, að það verði einbeitt sér að því að gera tvo iðnskóla fullkomlega úr garði, og er þá gert ráð fyrir vegna aðstæðnanna í iðnaðinum, að þeir yrðu helzt að vera í Reykjavík og á Akureyri, þó að það geti komið til greina að hafa þá fleiri.

Þetta er atriði, sem ég vildi a.m.k. vekja máls á hér í hv. þd. við þessa umræðu. Þó að ég búist að vísu ekki við, þar sem þetta er nú stjórnarfrv., að mínar brtt. nái fram að ganga að svo stöddu, þá er það þó í þessa áttina, sem. við þurfum að reyna að koma okkur saman um að stefna.

Ég hef undanfarin ár getað fylgzt með því, að iðnnemarnir hafa haft mikinn áhuga á þessum málum, og mínar brtt. byggjast fyrst og fremst á minni reynslu af þeirra vilja í þessum efnum. Það vill hins vegar ákaflega oft fara svo, að þegar iðnnemarnir eru útskrifaðir og sveinarnir eru komnir í staðinn, þá dragi úr áhuganum fyrir þessu, mönnum gleymist það, þannig að mér finnst það þess vegna rétt, að rödd iðnnemanna sjálfra fái að komast að í þessu máli. Iðnnemasamband Íslands hefur skrifað iðnn. þessarar hv. d., og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það bréf upp, af því að þar er gerð nokkru nánari grein fyrir þeirra hugmyndum um þetta, sem að mjög miklu leyti a.m.k. eru í samræmi við mínar. Þetta bréf var skrifað 18. þ.m. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnnemasamband Íslands vill hér með koma á framfæri við iðnn. neðri deildar Alþingis áliti sínu á frv. til l. um iðnskóla, sem lagt hefur verið fyrir yfirstandandi Alþingi.

Það er álit Iðnnemasambands Íslands, að ástandið í iðnfræðslunni í dag sé þannig, að úr því verði eigi bætt nema með róttækum aðgerðum.

Af frv. er það ljóst, að aðeins er um að ræða stofnun eins eða tveggja fullkominna iðnskóla á landinu, í Reykjavík og á Akureyri, þar sem hvergi annars staðar eru fleiri en 60 iðnnemar, en á Akureyri ná þeir vart þeirri tölu.

Á þeim stöðum, sem tala iðnnema er undir 60, segir í frv. að skólarnir skuli annaðhvort vera deild innan gagnfræðaskóla ellegar skuli þeir vera með sama sniði og verið hefur. Af þessu verður eigi annað séð en lítilla breytinga sé að vænta á flestum iðnskólum landsins.

Höfuðbreytingin, sem gera þyrfti að okkar áliti á þessu frv., er sú, að þegar verði stofnaðir tveir fullkomnir iðnskólar, í Reykjavík og á Akureyri, og hafi ríkisstjórnin forgöngu um stofnun þeirra, og beri ríkissjóður að fullu kostnað skólanna. Í sambandi við skólana yrðu að sjálfsögðu heimavistir, sbr. sjómannaskólann og bændaskólana.

Með því að iðnskólarnir væru aðeins tveir, mundi því misræmi, sem nú á sér stað í menntun iðnaðarmanna landsins, með öllu útrýmt. Víða á landinu, þar sem iðnskólar eru starfandi, eru aðstæður til kennslu það slæmar, að ekki er hægt að framfylgja þar neinum ríkjandi ákvæðum varðandi iðnfræðsluna. Með vaxandi kröfum til kunnáttu iðnaðarmannsins er það augljóst, að taka verður upp betri kennsluhætti en nú eiga sér stað. Við teljum því, að stofnun iðnskóla innan fámennra bæjar- og sveitarfélaga sé ekki rétta leiðin til úrbóta í þessum efnum. Það er óhugsandi, að slíkir skólar geti veitt nemendum sínum fullkomna iðnfræðslu nema með kostnaði, sem fara mundi langt fram úr þeim kostnaði, væru iðnskólarnir aðeins tveir.

Við viljum sérstaklega benda á það, að í frv. þessu er ekki gert ráð fyrir neinni úrbót á því ósamræmi, er nú ríkir í fræðilegri kennslu iðnskólanna, sbr. 7. gr., 3. tölulið, en þar segir svo: „Iðnfræðslu þá, sem nú er á ýmsum stöðum og ekki getur komizt undir ákvæði 1. og 2. tölul., má hafa með sama sniði og verið hefur.“

Eina tæknikennslan í iðnskólunum hefur verið fagteiknun, og hafa því iðnskólarnir hingað til komizt af án kennara með sérþekkingu í hinum einstöku iðngreinum. — Í frv. eins og það liggur fyrir segir, að miðskólapróf skuli vera inntökuskilyrði til inngöngu í iðnskóla. Það liggur því í augum uppi, að kennslan í iðnskólunum verður að mestu leyti sérnám í hinum einstöku iðngreinum, og því virðist auðsætt, að á hverjum stað verða að vera kennarar með tæknilega menntun, hver í sinni iðngrein. Í þessu sambandi viljum við benda á það, að á Akranesi voru t.d. árið 1954 25 iðnnemar, og skiptust þeir niður á 10 iðngreinar. Á þessu sést, að hafa þyrfti 10 sérmenntaða kennara í öllum þeim iðngreinum, sem við á. Annað dæmi: Ísafjörður með 21 iðnnema árið 1954, og skiptast þeir niður. á 9 iðngreinar, og þannig mætti lengi telja. Sést á þessu, að geysilegur kostnaður yrði því fylgjandi, ef starfrækja ætti fullkomna iðnskóla á öllum þeim stöðum, þar sem iðnnám er stundað. Það er því skoðun okkar, að eina viðunandi lausnin á þessu máli sé sú að hafa ekki fleiri en tvo iðnskóla á landinu, en þeim mun fullkomnari. Við viljum benda á það, að með því að starfrækja aðeins tvo iðnskóla á landinu sé meiri trygging fyrir því, að skólarnir geti fylgzt með öllum þeim framförum, sem í iðnaðinum verða, og hagað kennslu í samræmi við það. Að sjálfsögðu verða skólar þessir dagskólar, og gildir það einnig um fyrirhugað framhaldsnám, sbr. kafla IV. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, að nám í kvöldskólum eftir vinnudag er gersamlega úrelt fyrirkomulag.

Að endingu: Við teljum nauðsynlegt, að Iðnnemasambandi Íslands verði tryggð hlutdeild í skólanefnd skólanna.“

Eins og hv. þdm. heyra á þessu, eru iðnnemarnir mjög ákveðnir í sínum skoðunum í þessu efni, og í höfuðatriðum eru brtt. mínar í samræmi við þeirra vilja. Hins vegar, ef verða mætti, að hægt væri að fá fram nokkra breytingu á þessum málum nú, þá hef ég, af því að ég þykist vita, að meiri hl. hv. d. muni á því að hafa ekki of miklar breytingar þarna í einu, með brtt. minni á þskj. 389 gengið út frá að geta skapað nokkurs konar millibilstímabil, meðan verið væri að koma upp svona fullkomnum iðnskólum með heimavistum, þannig að hægt væri að löggilda gömlu iðnskólana og leyfa rekstur iðnskóla sem sérstakra deilda, en miða það þó við, að þarna sé um dagskóla að ræða, og enn fremur, að kennslan sé þar fræðileg.

Ef þess vegna meiri hl. d. vildi fallast á þá höfuðreglu, sem ég hef reynt að setja fram með brtt. á þskj. 382, en vildi þó tryggja, að hægt væri að hagnýta allt, sem nú er fyrir hendi, á meðan verið væri að breyta, þá mundi það vera hægt með því að samþ. mínar brtt. á þskj. 389. Ég vil enn fremur taka það fram, ekki sízt ef hv. iðnn. mundi vilja taka þetta mál máske til ýtarlegrar rannsóknar, að þá væri mér ákaflega kærkomið, ef hægt væri að fá í n. samkomulag um eitthvað, sem horfði í þessa átt, að draga mínar brtt. til baka, því að það, sem fyrir mér vakir, er fyrst og fremst að reyna að fá því áorkað, að það skref, sem stigið er með þessu frv., verði nokkru stærra en nú er gert ráð fyrir, þó að það miði allt fram á við.

Í 5. brtt. á þskj. 382 legg ég enn fremur til, að skólanefndin sé skipuð með nokkuð öðrum hætti en nú er gert ráð fyrir, og er það eðlileg afleiðing af því, að þessir skólar verða ríkisskólar, en ekki einkaskólar iðnaðarmannafélaganna, sýslusjóða eða bæjarfélaga, eins og nú er gert ráð fyrir, og þess vegna legg ég þar til nokkurn annan hátt á skipun stjórnarnefndarinnar fyrir slíka skóla, sem sé, að af fimm mönnum séu þar tilnefndir fulltrúar, einn frá hverjum, frá stjórn Landssambands iðnaðarmanna, frá Iðnsveinaráði Alþýðusambandsins, frá iðnfræðsluráðinu og frá Iðnnemasambandi Íslands, og fimmta manninn, formann nefndarinnar, tilnefni iðnmrh. sjálfur. Enn fremur er gert ráð fyrir því, og það er líka eðlileg afleiðing af þessari till. um, að það sé ríkið, sem stendur fyrir þessu, að ríkið greiði stofnkostnaðinn og sjái um þessa skóla eins og aðra ríkisskóla.

Ég álít, að það væri ákaflega heppilegt, ef hægt væri að komast að nokkru samkomulagi um breytingar í þá átt, sem ég veit að er vilji iðnnemanna og ég að nokkru leyti hef reynt hér að greiða fyrir. En a.m.k. er það heppilegt, að við gerum okkur ljóst, þrátt fyrir þær framfarir, sem felast í því stjórnarfrv., sem hérna liggur fyrir, að ef við ekki stígum stærri spor í því núna, þá þurfum við þó að undirbúa okkur undir að reyna að stíga þau spor á næstunni.