01.03.1955
Neðri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

94. mál, iðnskólar

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Þegar frv. þetta var til umr. í hv. iðnn. og teknar voru sérstaklega til umr. brtt. hv. 2. þm. Reykv. (EOl), þar sem m.a. er gert ráð fyrir allmikilli röskun á því frv., sem upphaflega var hér fyrir lagt, kom í ljós, að ekki var hægt að ná algeru samkomulagi í n. um hans till. En eftir nánari viðræður að loknum þeim fundi höfum við, ég, hv. þm. V-Húnv. (SkG) og hv. 8. landsk. þm. (BergS), komið okkur saman um að leggja til hér ákveðnar breytingar, m.a. með hliðsjón af brtt. hv. 2. þm. Reykv. og frv. því, sem 1948 lá fyrir hv. Alþ. um iðnskóla, að þar komi inn nýr kafli, sem verði IV. kafli frv. og fjalli um kennslu.

Vegna þess, hvað brtt. voru síðbúnar, þar sem verið var að leita samkomulags við aðra hv. nm., hefur ekki enn reynzt unnt að útbýta þeim prentuðum, og vildi ég því, með leyfi forseta, mega lesa þær upp eins og þeim mun verða útbýtt hér innan mjög skamms tíma, að því er mér er tjáð.

Brtt. okkar við þetta frv. eru svo sem hér segir:

„1. Á eftir III. kafla komi nýr kafli, 1V. kafli, Kennsla, með 4 gr., þannig:

a. (11. gr.) Iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla skulu vera dagskólar. Kennslan er bæði bókleg og verkleg.

b. (12. gr.) Reglulegt iðnskólanám skal vera í nánu sambandi við þær iðngreinar, er nemendur skólans leggja stund á. Skólanum ber að sjá nemendum fyrir bóklegri kennslu, og verklegri í þeim greinum, sem nauðsynlegar eru iðn þeirra og framtíðarstarfi og ekki verða nægilega kenndar hjá meistara eða iðnfyrirtæki að dómi iðnfræðsluráðs.

c. (13. gr.) Þessar námsgreinar skal kenna: Íslenzku, reikning og stærðfræði, teiknun, eðlisfræði, efnafræði, efnisfræði, áhaldafræði og bókfærslu, svo og sérfræði hverrar iðngreinar, allt eftir nánari ákvæðum í reglugerð. Heimilt er að kenna fleiri námsgreinar, ef aðstæður leyfa og ástæða þykir til.

Auk þess skulu þeir, sem nema iðn til sveinsprófs í skólanum sjálfum, vinna í vinnustofu hans samkvæmt námssamningi.

d. (14. gr.) Verkleg kennsla skólanna skal fara fram í vinnustofum þeirra eða öðrum vinnustöðvum, sem þeir hafa ráð á. Í vinnustofum skóla skal haga störfum sem líkast því, sem tíðkast í hliðsteeðum vinnustofum, og um kennsluna skal ákveða í reglugerð í samráði við iðnfræðsluráð.

2. Við 16. gr. (verður 20. gr.). Fyrri málsgr. orðist þannig:

Ráðh. setur reglugerð um framkvæmd laga þessara. Þar skal m.a. setja nánari ákvæði um kennslu í skólunum, námstíma, kennslustundafjölda, framkvæmd prófa, einkunnagjöf og prófskírteini.“

Eins og ég sagði í upphafi, er frv. þetta að meginefni tekið upp úr frv. því, sem lá fyrir hv. Alþ. 1948, en felldur var úr við flutning þessa frv. nú sérstakur kafli um kennslu. Þetta frv. var þá allrækilega undirbúið af þar til skipaðri milliþn., og segir hún í grg. fyrir frv. þá, með leyfi forseta:

„Frv. þetta er samið með nokkurri hliðsjón af frv. því til laga um iðnskóla, er lá fyrir Alþ. 1941, 1942 og 1943. Enn fremur var haft til samanburðar frv. um sama efni, sem nefnd iðnaðarmanna undirbjó og síðan var samþ. á iðnþingi í október 1945. Skólastjóri iðnskólans í Reykjavík kom einnig nokkrum sinnum á fund skólamálanefndarinnar, og var ráðgazt við hann um ýmis atriði frv. Er hann samþykkur frv. í núverandi mynd að öðru en því, að hann telur miðskólapróf bóknámsdeildár sízt lakari undirbúning en miðskólapróf verknámsdeildar.“

Af þessu má vera ljóst, að það var gert með fullkomnu samþykki þáverandi skólastjóra iðnskólans að hafa sérstakan kafla í frv. þá um kennslu, og við hann höfum við flm. þessarar brtt. áð mestu leyti stuðzt. Þó höfum við gert þar á eina veigamikla breytingu, sem er varðandi það ákvæði laganna, að iðnskólarnir skuli vera dagskólar, og er það eitt af veigamestu atriðum þeirra brtt., er við leggjum til og ég vænti að bráðlega liggi fyrir prentaðar.

Ég held, að það sé óþarft að fara mörgum orðum frekar en þegar hefur verið gert í þessum umr. um nauðsyn þess, að hin bóklega kennsla iðnskólanna fari fram að deginum til, þannig að nemendum skólanna — iðnnemunum sjálfum — reynist á hverjum tíma unnt að færa sér í nyt þá bóklegu kennslu, sem ætlazt er til að skólarnir geti boðið þeim upp á.

Það má augljóst vera, að að loknum 8–9 stunda vinnudegi við margs konar erfiðisvinnu er erfitt að setjast á skólabekk í 2–3 tíma og eiga að njóta þar til fullnustu þess náms, sem iðnskólinn býður upp á, og eiga svo að loknum þeim tíma að búa sig undir bóklega námið næsta dag og í millitíðinni að stunda sina erfiðisvinnu. Ég held, að það hljóti öllum hv. alþm. að vera ljóst, að árangurinn af slíku námi getur aldrei orðið sá, sem hann gæti orðið, ef skólinn væri stundaður að deginum, eins og gerð hefur verið þegar tilraun með í iðnskólanum hér í Reykjavík. Ég minnist þess frá veru minni í Iðnnemasambandinu og frá árdögum þess, að þá var strax hafizt handa af hálfu þess í baráttunni fyrir því að gera iðnskólann að dagskóla og gera nemunum þannig betur mögulegt að njóta námsins sem skyldi. Þá voru nokkuð eðlileg svör af hálfu skólanefndar iðnskólans hér í Reykjavík, að svo mikil aðsókn væri að skólanum, að erfitt væri að koma slíku fyrirkomulagi við, vegna þess í fyrsta lagi, hvað aðsóknin væri mikil, og í öðru lagi, hvað húsnæðið væri gamalt og úrelt, og þó sérstaklega, hvað þröngt þar væri. Nú er hins vegar kunnugt, að skólanefnd iðnskólans hefur gert tilraun með að gera breytingar í þessu efni, og hafa 2 bekkir af 4 bekkjum iðnskólans verið stundaðir sem dagskólar í 12 –15 ár, og er almannarómur, að það sé mun betra fyrirkomulag að fenginni reynslu en hið fyrra. Ég álít því, að það sé hverjum og einum hv. alþm. ljóst, að hér er mikið nauðsynja- og mannréttindamál á ferðinni, að iðnnemunum verði gefinn kostur á að njóta þess náms í sem ríkustum mæli, sem skólarnir hafa að bjóða, en það verður ekki gert nema með því að gera kleift, að bóklega námið sé stundað eingöngu að deginum til og samfellt þann tíma, sem það er stundað, og verklega námið einnig samfellt. Þessum gagast2eðu hlutum á ekki að hræra svo saman sem gert hefur verið á undanförnum árum. Færð hafa verið um erfiðleika á breytingu á þessu nokkur rök, sem hins vegar eru ekki fyrir hendi nú lengur vegna hins nýja og glæsta iðnskólahúss hér í Reykjavík t.d. Úti á landi mun vera betra að koma þessu við, sér í lagi með tilliti til þeirra breytinga, sem þetta frv. felur að öðru leyti í sér, þar sem ætlazt er til, að iðnskólarnir séu stundaðir sem deildir í gagnfræðaskólunum, en það nám fer að sjálfsögðu fram að deginum til eingöngu.

Um aðrar breytingar, eins og ég sagði í upphafi, höfum við þessir þrír flm. stuðzt aðallega við álit skólamálanefndarinnar, sem lá fyrir í frv. um iðnskóla 1948 og ég tel ekki sérstaka þörf á að fara mörgum orðum um. Það var vel og rækilega undirbúið af þeirri nefnd, og virðist ekki af þskj. frá þeim tíma, að mikill ágreiningur hafi verið um þennan kafla.

Ég vænti þess fastlega, að hv. þdm. verði við óskum okkar þremenninganna, sem að flutningi þessara brtt. stöndum, og að þessi nýju ákvæði verði tekin inn í frv., þannig að það mætti enn færast nær því marki, sem hefur verið um langan aldur baráttumál allra iðnaðarmanna í landinu, að iðnskólarnir yrðu opinberlega studdir af ríki og — eins og frv. gerir ráð fyrir — að hálfu leyti af viðkomandi sveitar- og bæjarfélögum og að iðnnemunum, sem eru að sjálfsögðu grundvöllurinn að fullmenntaðri iðnaðarstétt í landinu, verði svo búið sem okkur megi vera sómi að.

Það var bent á það rækilega af frsm. n. hér við 1. umr. þessa máls, hve mikið væri í húfi fyrir íslenzku þjóðina alla að eiga sem bezt menntaða iðnaðarmenn, og við þykjumst með flutningi þessara brtt. hafa stigið enn eitt spor í þá átt að tryggja, að svo megi verða. Vænti ég þess eindregið, að hv. þdm. verði við óskum okkar og sýni brtt. fullan skilning.

Ég hafði með tilliti til þess, ef ekki vinnst tími til að útbýta þessum brtt. okkar, áður en þessari umr. lýkur, ætlað að fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann frestaði atkvgr. um málíð, þangað til þessar brtt. okkar lægju fyrir, þannig að þdm. mætti gefast kostur á að fara yfir þær og kanna hug sinn til þeirra, þar sem þess er varla kostur, þá að þær séu lesnar upp í ræðuformi, eins og hér hefur þegar verið gert. Það er sem sagt ósk mín til hæstv. forseta, að atkvgr. verði frestað, þó að umr. verði lokið.