01.03.1955
Neðri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

94. mál, iðnskólar

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekkert óeðlilegt, þótt enn sé beðið um frest í þessu máli. Þetta frv. var flutt snemma á þessu þingi, þótt það sé enn í fyrri deild við 3. umr.hv. þm., sem ræddi hér áðan allvíðtækar brtt. við frv., sem hefur ekki verið útbýtt enn, talaði um, að það hefði ekki verið mögulegt að útbýta þeim vegna þess, hvað þær hefðu verið síðbúnar. En það er dálítið einkennilegt að vera með þetta á síðustu stundu og hafa haft allan veturinn fyrir sér til þess að skapa þessar till. Að vísu sagði þessi hv. þm., að brtt. væru soðnar upp úr brtt. hv. 2. þm. Reykv., en jafnvel þó að hefði þurft að bíða eftir þeim og fá þar forspjall til þess að sníða eftir, þá eru margir dagar síðan þær komu fram.

Ég hlustaði náttúrlega á þennan lestur, en ég er ekki svo næmur, að ég muni vel allt, sem þar kom fram. Ég gerði mér þó ljóst, að hér er um allvíðtækar og mikilvægar brtt. að ræða, sem raska frv. í nokkrum veigamiklum atriðum. Það er einnig ljóst, að ef þessar brtt. verða samþ., þá hafa þær allmikinn kostnað í för með sér. Hér er að ræða um það að gera iðnskólana að dagskólum. M.ö.o.: nemendurnir eiga að vera í skólunum á daginn í stað þess á kvöldin, eins og tíðkazt hefur undanfarið, og nemendurnir geta þess vegna ekki unnið á daginn. Það leiðir til þess, að skólarnir verða að sjá fyrir verklegu verkefni handa nemendunum, og þetta hlýtur að hafa geysilegan kostnað í för með sér. Ég ætla ekki, þar sem till. hefur ekki verið útbýtt enn þá, að ræða þær að þessu sinni. En það er vitanlega ekki um annað að ræða en að taka málið í dag út af dagskrá, bera þessar allvíðtæku brtt. undir iðnaðarmenn og fá þeirra vitnisburð um till.

Frv. ríkisstj., eins og það liggur fyrir, var borið undir iðnaðarmenn og fékk samþykki þeirra. Þeir lýstu stuðningi sínum við frv., eins og það er, og vildu fá það þannig fram. Þegar nú koma fram víðtækar brtt., sem gerbreyta frv., þá verður enn að spyrja iðnaðarmenn um það, hvernig þeim lízt á till., hvort þeir telji þær æskilegar eða til bóta, og það verður einnig að spyrja að því, hvort hæstv. fjmrh. er tilbúinn að taka við frv. í þeirri mynd, sem það mundi verða, eftir að þessar allvíðtæku till. eru samþ. En það er illa farið, ef þessar till. mundu verka eins og fleygur til þess að stöðva þetta mál eða sprengja, og ég vil vænta þess, að það sé ekki það, sem vakir fyrir hv. flm., heldur að bæta frv.

Ég vil biðja hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá nú, og það verður að gefa sér tíma til þess að athuga till. og spyrja iðnaðarmennina, hvort þeir séu þeim fylgjandi eftir að hafa lýst eindregnum stuðningi við frv. í því formi, sem það er frá hönd ríkisstj.