14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

94. mál, iðnskólar

Frsm. (Gunnar Thoroddsen).:

Herra forseti. Milli 2. og 3. umr. hefur iðnn. rætt frv. þetta að nýju og orðið ásátt um að flytja brtt. á tveim þskj., samtals fimm brtt. Þær eru á þskj. 408 og 445.

Ég hef þegar minnzt nokkuð á efni brtt. á þskj. 408. Ég skal rétt aðeins rifja það upp fáum orðum.

Fyrsta brtt. er að bæta inn í 1. gr. ákvæði, sem var í frv. mþn. um skólamál hér á árunum, þ.e.a.s.; að iðnskólar skuli veita fræðslu þeim nemendum, sem iðnmeistarar eða iðnfyrirtæki hafa tekið til náms samkv. lögum um iðnfræðslu, og þar við bætist: og þeim, sem nema vilja iðn til sveinsprófs í vinnustöðvum, er skólarnir hafa ráð á.

2. brtt. á sama þskj. er við 7. gr., en það er varðandi ákvæðið um það, að iðnskólar skuli í vissum tilfeilum vera sérstök deild innan gagnfræðaskóla. Í frv. er fortakslaust ákveðið, að ef nemendur eru færri en 60, skuli iðnskólinn vera sérstök deild innan gagnfræðaskóla, en þá sé ekki heimilt að stofna sjálfstæða iðnskóla. Eins og ég hef tekið fram áður, mundi þetta þýða, að hvergi væri, miðað við núverandi nemendatölu, heimilt að hafa sjálfstæða iðnskóla nema í Reykjavík og á Akureyri. Nefndinni þótti réttara að hafa þessi ákvæði í heimildarformi, þannig að þegar nemendur eru færri en 60, sé ráðh. heimilt að ákveða, að iðnskólinn skuli vera sérstök deild innan gagnfræðaskóla.

3. brtt. er um gildistökuna, þ.e., að í stað þess, að lögin öðlist þegar gildi, sé ákveðið, að þau öðlist gildi 1. okt. 1955: Það er miðað við skólaárið, og þykir að kunnugustu manna dómi heppilegra að miða þessar breytingar við upphaf skólaárs heldur en annað tímamark.

Þá eru brtt. nefndarinnar á þskj. 448. Seinni brtt. er aðeins leiðrétting, en ekki efnisbreyting. En fyrri till. er að nokkru nýmæli. Um það mál og í framhaldi af brtt., sem hafa legið hér fyrir, leitaði n. álits Landssambands iðnaðarmanna um það atriði, og lét stj. Landssambandsins ásamt núverandi og fyrrverandi skólastjóra iðnskólans í Reykjavík uppi ýtarlegt álit um málið. Í niðurlagi þess álits segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar mun sú skoðun vera farin að ryðja sér til rúms, að heppilegast sé fyrir alla aðila, að skólarnir séu dagskólar, .sem starfi tvo mánuði á ári fyrir hvern flokk nemenda, enda er þegar fengin af því góð reynsla í nokkrum skólum úti um land — og í Reykjavík við 1. og 2. bekk í 15 ár. Þó er þess að gæta, að kennarar í iðnteikningu og sérgreinum eru venjulega iðnaðarmenn, sem þurfa að stunda iðn sína allan daginn, og yrðu því skólarnir að láta kenna þær greinar að kvöldinu. Vér leggjum því til, að framan við 6. gr. komi ný málsgrein, svo hljóðandi:

„Iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla skulu vera dagskólar. Þó má nokkuð af kennslunni fara fram að kvöldinu, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar gera það nauðsynlegt.“

Iðnn. tekur upp orðrétta þessa till. Landssambands iðnaðarmanna og skólastjóranna, og er það fyrri brtt. á þskj. 445. Iðnn. var á einu máli um að flytja þessa till., en einn nm., hv. 8. landsk. þm., gat ekki sótt þann fund og stendur því ekki að þessari till. Ég vænti þess, að hv. d. afgreiði frv. með þeim breytingum, sem iðnn. leggur til.