14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

94. mál, iðnskólar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég hef nú í sjálfu sér litlu að svara þeim tveim ræðum, sem hér hafa verið fluttar síðan ég talaði áðan, því að þær voru ekki annað en endurtekning á því, sem ég var þegar búinn að svara.

Hæstv. viðskm.- og iðnmrh. endurtók hér þær furðulegu röksemdir, að íslenzka löggjöf ætti Alþingi að miða við húsnæði. Það ætti sem sagt að setja lög eftir því, hvort það væri fyrir hendi húsnæði eða ætti eftir að innrétta húsnæði og hvort það væri nú þegar á fjárlögum ákveðin fjárveiting til ákveðinnar kennslu í skólunum. Og hv. 7. landsk. tekur þetta upp líka, rétt eins og hann hafi aldrei um það heyrt getið, að hér hafi verið sett skólalöggjöf, sem var miðuð við allt aðrar aðstæður í skólamálum en þá voru fyrir hendi, og síðan voru skólamálin sjálf, skólabyggingarnar og kennslukraftarnir,færð til samræmis við þessa löggjöf, sem var þegar komin, og fjárveitingar til skólanna veittar eftir kröfum þessarar löggjafar. Þannig hlýtur þetta alltaf að verða, og þannig verður þetta alltaf að vera.

Svo sagði hv. 7. landsk. enn fremur, að það væri mikið deiluatriði, hvort verklega kennslan ætti að fara fram við iðnskólana eða ekki. Ja, sér er nú hvert deiluatriðið. Hverjir deila um það? Það væri þá helzt, að það væru iðnnemarnir og meistararnir, sem deildu um það. Og hverra hlut hefur þá hv. 7. landsk. tekið upp? Meistaranna, — vegna þess að í bréfinu, sem ég las hér upp áðan, og skal enn vitna til og enn lesa úr, með leyfi hæstv. forseta, segir Iðnnemasambandið sjálft svo:

„Í þessum brtt. koma fram þau tvö aðalsjónarmið iðnnemasamtakanna, sem eru í fyrsta lagi: öll kennsla iðnskólanna fari fram að degi til, og í öðru lagi: tekin verði upp verkleg kennsla í iðnskólunum.“

Þetta segir nú Iðnnemasambandið sjálft, og ég tek meira mark á því sem vilja og óskum iðnnemanna sjálfra heldur en því, sem Múrarafélagið í Reykjavík lætur í ljós í þessu máli. Ég vona, að menn virði mér það til vorkunnar, þó að ég marki meira orð iðnnemanna sjálfra um eigin óskir heldur en ummæli Múrarafélagsins. Loks vil ég geta þess, að mönnum ætti nú að vera tiltölulega auðvelt að sjá, hvers konar réttarbót till. meiri hl. iðnn. muni vera fyrir iðnnemana, þegar íhaldið getur mælt með þessum tillögum, eins og hæstv. viðskmrh. gerði hér áðan, — íhaldið, sem barizt hefur með hnúum og hnefum fyrir því réttlæti, að sumir meistarar a.m.k. greiddu iðnnemunum Í kr. á klst., á hverja vinnustund, þegar þeir vinna fyrir þá, í byrjunarlaun, en tækju 25—26 kr. fyrir hverja vinnustund hjá þeim, sem keyptu vinnuna, og hirtu mismuninn sjálfir, eins og hv. 7. landsk. þm. upplýsti á fundum í iðnn. Það er þetta réttlæti, sem íhaldið sér að er tryggt með till., sem meiri hl. iðnn. hefur núna flutt. Það er viðhald á þessu réttlæti. Þess vegna berst það fyrir till., þess vegna mælir það með þeim, þess vegna hafði hæstv. iðnmrh. í hótunum um að stöðva þetta frv. hér í þinginu, ef till. okkar á þskj. 415 næðu fram að ganga, hvaðan sem honum kemur vald til að hafa í slíkum hótunum hér á Alþingi. Og það er þetta réttlæti, sem hv. 7. landsk. hefur leigt sig til þess að fylgja og styðja núna. Þó að hann svo skilji ekki mælt mál og það gott íslenzkt mál, sem ég talaði í upphafi máls míns, þegar ég sagði, að skoðun hans hefði verið mismunað til, — að íhaldið hefði mismunað skoðun hans eins og peningum fátæks skálds á reikningum Morgunblaðsins, — þó að hann skilji það ekki, þá er það ekki mín sök. Það gæti ég trúað að stafaði af því, að hann var í kvöldskóla, þegar hann var í iðnskólanum, og hafði þess vegna enga aðstöðu til að læra íslenzkt mál nógu vel.