14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

94. mál, iðnskólar

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki blandað mér í þessar umræður og ætlaði mér ekki að gera, fyrr en ég heyrði hinn furðulega málflutning hv. 8. landsk. þm., svo að ég gat ekki orða bundizt að segja hér nokkur orð. Áður en ég vík að því, sem hann hefur flutt hér á sinn merkilega hátt, langar mig til að segja nokkur orð um málið almennt.

Iðnskólarnir eru nú þeir einu skólar, sem reknir eru án þess, að ríkið komi þar að sem beinn aðill. Stéttarskólar aðrir, eins og búnaðarskólar, sjómannaskóli, vélstjóraskóli og fleiri slíkir, eru reknir af ríkinu, en iðnskólarnir hafa hingað til allir, sem reknir eru í landinu, verið kostaðir og reknir af iðnaðarmannasamtökunum á viðkomandi stöðum. Þetta er óviðunandi ástand af mörgum ástæðum, sem ég skal nú ekki fara út í að rekja. Úr þessu hefur verið reynt að bæta með flutningi frumvarpa um, að ríkið tæki að sér rekstur iðnskólanna eins og hinna annarra hliðstæðra skóla, allt frá árinu 1941, að ég hygg, þegar fyrst var borið fram frv. um iðnskóla. Þetta frv. hefur svo verið borið fram á síðari þingum, en aldrei náðst á því afgreiðsla. Mér finnst og hefur alltaf fundizt, bæði sem fim. fyrri frumvarpa um þetta mál og sem nokkuð nákominn rekstri a.m.k. eins iðnskóla, að þetta væri ósanngjarnt, að. iðnaðarmennirnir sjálfir yrðu að sjá um þetta einir, að vísu með nokkrum stuðningi, fjárstyrk frá ríkissjóði, sem aldrei hefur þó verið fastákveðinn, heldur háður því, sem Alþingi samþykkti hverju sinni. Ég teldi það þess vegna vera mjög mikinn ávinning, ef samþykkt yrði frv. um iðnskóla, sem bæri í sér í fyrsta lagi rekstrarfyrirkomulag þeirra, hvernig þeir skyldu kostaðir og reknir, og í öðru lagi, hvað. þar skyldi kennt og hvernig það skyldi kennt. Þetta eru þau tvö atriði, sem þurfa að vera í frv.; og þetta eru þau tvö aðalatriði, sem tekin eru upp í þetta frv., sem hér liggur fyrir, og er þar með náð meginhluta þess, sem a.m.k. ég hafði hugsað mér, ef þetta frv. fær að fara fram í svipaðri mynd og það hefur verið lagt hér fram með breytingum meiri hl. iðnn.

Það væri kannske ekki úr vegi, sérstaklega ekki vegna hv. 8. landsk. þm., að skýra honum frá því, hvernig iðnkennsla fer fram yfirleitt, því að ég held, að hann geri sér ekki nákvæma grein fyrir því. Hún getur farið fram aðallega með tvennu móti, eins og hér hefur komið skýrt fram, m.a. hjá hv. 7. landsk. þm. Hún getur farið þannig fram, að hún sé meistarakennsla, þar sem verklega námið sé kennt af meisturunum, en það bóklega kennt í skólum. Hún getur einnig farið fram á hinn háttinn, að öll kennslan, bæði verkleg og bókleg, sé kennd í skólum.

Ég er þeirrar skoðunar og hef alltaf verið, að það sé mikill kostur, að verklega kennslan geti farið fram hjá meistara, þannig að iðnneminn sé í nánu sambandi við hið starfandi líf, ef ég svo má segja, á meðan námið fer fram. Ég hef verið þar viðstaddur, sem fróðir menn hafa rætt um þessa hluti, hvorki að vísu fulltrúar Iðnnemasambands Íslands né Landssambands iðnaðarmanna, heldur þar sem saman hafa verið komnir fræðimenn margra landa til þess að ræða um það, á hvern hátt iðnkennslu yrði bezt fyrir komið. Þar voru dregin fram rök með og móti meistarakennslu og með og móti skólakennslu, og niðurstaðan af þeirra bollaleggingum varð sú, að þar, sem hægt væri að koma því við, og þar, sem vinna hjá meisturunum væri ekki of einhæf, væri meistarakennslan svo langsamlega miklu betri en skólakennslan, að það bæri að halla sér að henni. Þetta er ekki nein augnabliksniðurstaða, heldur er það þaulhugsuð niðurstaða viðurkenndra fræðimanna á þessu sviði: Þá hefur verið farinn enn nokkur millivegur í þessu, t.d. eins og hjá Norðmönnum, þar sem stofnaðir hafa verið forskólar og menn hafa verið teknir á skóla til verklegs náms í 1 ár eða 11/2 ár, áður en þeir fara til meistarakennslunnar. Þetta hefur gefizt vel, það sem það hefur náð, en ekki hefur verið hægt að framkvæma þetta í nándar nærri öllum iðngreinum. En í þeim iðngreinum, þar sem hægt hefur verið að gera það, hefur þessi forskólakennsla gefizt vel. Þar hefur nemendum verið kennt að fara með áhöld iðnarinnar og vélar, sem yfirleitt eru notaðar, og það verður að sumu leyti betur gert í skóla en hjá meisturunum sjálfum. Svo hafa þeir verið látnir fara til meistara, á sama hátt og gerist hér hjá okkur, en fengið styttan vinnutíma sem skólanum svaraði og stundum lengur en sem skólanáminu svaraði vegna þess undirbúnings, sem þeir höfðu fengið. þar.

Mér finnst, að í þessum brtt., sem hér hafa komið fram við frv., gæti þess ekki nóg, að menn geri það upp við sig, hvort þeir ætli að stefna að því að fella niður alveg meistarakennsluna og taka upp hreina skólakennslu eða hvort þeir ætli að halda sig við meistarakennsluna og taka skólaveru iðnnemans aðallega sem bóklegt nám, en það hefði ég haldið að væri það æskilegasta, þar sem því verður við komið. Í sumum till., og raunar einnig í frv. sjálfu í upphafi, var gert ráð fyrir, að ekki yrði stofnaður sérstakur iðnskóli, nema þar sem nemendur væru 60 eða fleiri. Þetta finnst mér of há tala. Ég get t.d. bent á, að í frv., sem við fluttum 1941 og síðar, var nemendatalan, sem miðað var við um stofnun skóla, sett 10 nemendur annað hvort ár, þ.e.a.s., það mátti stofna iðnskóla þegar nemendafjöldinn var 20, ef 10 nemendur kæmu inn annað hvort ár, og gert var ráð fyrir fjögurra ára skóla. Þetta kann nú að vera of lág tala, en eins finnst mér, að það geti nokkuð orkað tvímælis, hvort talan 60 sé ekki of há. Með þeirri breytingu, sem nú er flutt af iðnn., þar sem þetta er lagt á vald ráðherra að nokkru leyti, finnst mér, að sé nokkuð sett undir þennan leka, þannig að ég fyrir mitt leyti get vel við unað, þar sem treysta verður því, að ráðherra taki þá tillit til allra aðstæðna. En mér þætti það lítið, ef ekki væri hægt að hugsa sér að stofna á Íslandi nema tvo iðnskóla, annan á Akureyri og hinn í Reykjavík, nema því aðeins að menn stefndu þá að því að gera skólana að verklegum skólum líka. Ef hins vegar haldið er áfram með eða hugsað sér að leggja meistarakennsluna til grundvallar, þá verður að skapa möguleika til að hafa skólahald fyrir bóklegu fræðsluna á þeim stöðum, þar sem meistarar taka nemendur til verklegrar kennslu. Þess vegna má ekki gera skilyrðin til iðnskólahaldsins, þ.e. bóklega námsins, þannig úr garði, að þau hindri það, að skólahald geti farið fram að einhverju leyti og helzt að öllu leyti á þeim stöðum, þar sem verklega kennslan fer fram hjá meistara. En — og nú kem ég að því, sem hv. 8. landsk. var að segja hér áðan — ef till. á þskj. 415 yrðu samþ. óbreyttar eins og þær eru, þá mundu þær þýða það, að ekki yrði hægt að halda uppi iðnskólum nema í hæsta lagi á tveimur stöðum á landinu. Það fullyrði ég af þeirri reynslu, sem ég hef um þetta. Það er ekki hægt að halda uppi dagskóla í öllum þeim 15 iðnskólum, sem nú eru hér til, vegna þess einfaldlega, að það mundu ekki fást kennarar, fyrir utan það, að það er ekki til húsnæði til þess að kenna í á nærri öllum stöðunum, nema með því móti að nota að einhverju leyti á eftirmiðdegi eða að kvöldi, eftir að lokið er kennslu t.d. í gagnfræðaskóla eða barnaskóla, þeirra húsrúm. En aðalatriðið er hitt, að í þessum mörgu námsgreinum, sem þar eru hafðar um hönd, eru kennslumöguleikarnir svo fáir, að það fást ekki menn til að hlaupa úr vinnu sinni í skólana, nema þá að kvöldi til eða á þeim tíma, sem þeir hafa aflögu. Þeir skera ekki í sundur sinn vinnutíma þannig fyrir einn eða tvo tíma í iðnskóla, að þetta sé hægt. Þess vegna er ekki hægt, a.m.k. ekki eins og stendur, að hlaupa í að gera alla skólana skilyrðislaust að dagskóla. Það verður að vera möguleiki til þess, að hitt geti verið líka, þar sem þess gerist þörf.

Hitt er eins og önnur fjarstæða, að það sé ekkert unnið við brtt. eins og hún er sett fram á þskj. 445 frá iðnn. nú. Þar stendur nefnilega svona, með leyfi hæstv: forseta: „Iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla skulu vera dagskólar.“ Þetta er það almenna. „Þó má nokkuð af kennslunni fara fram að kvöldinu, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar gera það nauðsynlegt.“ Þetta er undanþága, sem verður að vera til, ef skólahald á ekki að leggjast niður víðs vegar úti um land, eins og nú er; það leyfi ég mér að fullyrða eftir mjög nánum kynnum, sem ég hef af þessum hlutum, a.m.k. í Hafnarfirði og enda nokkru viðar, svo að ég sé ekki; hvernig þetta væri hægt að gera, nema því aðeins að þessi heimild sé fyrir hendi. Ef heimildin væri ekki fyrir hendi, þá mundi það þýða, að þessi kennsla legðist niður á mörgum stöðum víðs vegar um landið, og það teldi ég illa farið, vegna þess að ég er ekki viss um, að iðnnemi, sem nú getur lært iðn sína — við skulum segja norður á Siglufirði eða Seyðisfirði eða í Hafnarfirði eða Akranesi eða einhvers staðar annars staðar á þennan hátt, eins og nú hefur verið lýst, mundi vera sérstaklega fíkinn í að fara til Reykjavíkur eða Akureyrar, taka sig upp frá sínu heimili og koma sér í iðnnám á þessum tveim stöðum, eða ef til verklegs skóla yrði stofnað, að hann gengi þá í skóla þar.

Ég held þess vegna, að það sé rétt stefnt að gera nemendum þessara staða kleift að öðlast þessa iðnfræðslu eða menntun sína á staðnum og við þau skilyrði, sem mögulegt er að bjóða. Hins vegar efast ég ekki um það og tel það raunverulega skyldu, að öll sú kennsla, sem mögulega getur farið fram að degi til, verði látin fara fram á þeim tíma, en undanþágan verði aðeins látin gilda um þær námsgreinar, sem ekki fást kenndar öðruvísi. Því er í brtt. á þskj. 445 slegið föstu sem aðalreglu, að skólarnir skuli vera dagskólar, og það tel ég vel, en þar er líka heimiluð sú undanþága, sem ég tel nauðsynlega, til þess að menn á afskekktum stöðum geti öðlazt þá bóklegu fræðslu, sem þeir geta ekki fengið öðruvísi en á kvöldin. Og ég tel alveg víst, eftir því sem ég þekki til, að menn vilji heldur taka á sig þau óþægindi, sem því fylgja, að taka eina eða tvær námsgreinar að kvöldi til, heldur en að taka sig upp úr sínu byggðarlagi og flytja sig til allt annars staðar með þeim óþægindum, sem því þá fylgja.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. Ég er samþykkur till. á þskj. 445 og mun greiða henni atkv. Ég er einnig samþykkur brtt. n., sem flutt er á þskj. 408 og heimilar ráðh. að ákveða, að iðnskólar verði stofnaðir á stöðum, þó að nemendatalan geti ekki í upphafi náð fullum 60, og tel þetta allt saman stefna í rétta átt.

Þó að ég hefði gjarnan viljað fá breytt fyrr því ástandi, sem er í þessum málum, þá finnst mér, að menn megi ekki horfa um of á það, að ekki fáist breytt öllu í einu og öllu á þann veg, sem við helzt hefðum kosið. Það verður að taka tillit til fleiri aðila en Reykjavíkur í þessu. Það verður líka að taka tillit til landsbyggðarinnar.

Ég tel, að ef brtt. á þskj. 445 verður. samþ., þá sé þar með ákveðið, að iðnskólinn í Reykjavík verði dagskóli. Það getur hann verið með sína fimm, sex eða sjö hundruð nemendur eða hvað þeir nú eru margir. Þar er svo stór hópur sem grundvöllur fyrir skólahaldi, að það er vel hægt að , koma þar fyrir a.m.k. langsamlega mestu og ég vil segja öllu af kennslunni með dagkennslu, og það segja lögin líka að skuli gert. En ég vil ekki þrátt fyrir það láta sauma svo að hinum, sem geta ekki náð til þessa eina ágæta iðnskóla, sem er til á landinu, að þeim verði annaðhvort fyrirmunað að fá sína bóklegu fræðslu eða þeir verði að gera svo vel að taka sig upp og bætast við í þennan eina skóla.