22.04.1955
Efri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

94. mál, iðnskólar

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. því á þskj. 460, sem hér er til umræðu, var vísað til hv. iðnn. þessarar hv. d., er 1. umr. þess hafði verið lokið þ. 15. f.m., og var þá tekið til umræðu í n. þann sama dag. Með því að enginn nm. vildi á þeim fundi leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt, og bent var þá þegar á nokkur veigamikil atriði, er talið var nauðsynlegt að athuga nánar og gera tilraun til þess að fá samkomulag um til breytingar, ef unnt væri; ákvað n. að fela formanni nefndarinnar og hv. þm. Str. að ræða þessi atriði við hæstv. iðnmrh. og leita samkomulags við hann um breytingar á frv. því, sem hér um ræðir.

Þar sem hér var um að ræða stjórnarfrv., er hæstv. ráðherra hafði látið útbúa og lagt fyrir hv. Nd., en breytingar þær, er Nd. hafði gert á frv„ verið gerðar í samráði við hæstv. ráðh., enda hafði hann lýst því yfir við 1. umr. í þessari hv. d., að hann væri samþykkur frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 460, og óskað eftir því, að málinu yrði hraðað, svo að frv. mætti verða að lögum á þessu þingi, vil ég biðja hv. deildarmenn að athuga, að meðferð málsins í hv. Nd. hefur þar af leiðandi verið í fullu samræmi við vilja hæstv. ráðherra. Málið var síðan rætt við hæstv. ráðh., sem ítrekaði ósk sína um skjóta afgreiðslu þess. Kvað hann frv. vera útbúið af hinum færustu mönnum og þaulkunnugum óskum og þörfum iðnaðarmannanna og væri því sameiginleg ósk sín og forustumanna iðnaðarstéttarinnar, að frv. yrði samþ. án nokkurra verulegra breytinga; hann væri hins vegar tilbúinn til þess að athuga hverjar þær breytingar, sem fram kynnu að koma, en lagði ríka áherzlu á, að málið væri ekki látið daga uppi á þessu þingi.

Næst tók n. málið fyrir á fundi þremur dögum síðar, og var þar þá nm. öllum gerð kunn afstaða hæstv. ráðherra til málsins. Form. n. hafði þá jafnframt kynnt sér alla meðferð þessa máls, bæði á yfirstandandi þingi og á fyrri þingum, og gaf nefndinni yfirlit yfir gang þessa máls á þeim tímum. Báru þessi gögn með sér, að frv. hefði ekki verið sent til umsagnar, en að iðnn. Nd. hafði kvatt til viðtals á fund í n. fyrrverandi og núverandi skólastjóra iðnskólans í Rvík ásamt formanni iðnfræðsluráðs og forseta Landssambands iðnaðarmanna og rætt við þá um frv., en þessir aðilar allir munu að meira eða minna leyti hafa verið viðriðnir undirbúning frv. og því markað í höfuðatriðum þá stefnu, sem þar kemur fram.

Þótt frv. væri ekki sent neinum til umsagnar, á meðan það var til athugunar í Nd., eða aðrir aðilar en að framan getur væru ekki kallaðir til viðræðna við n., þá kom þó til hv. iðnn. Nd. umsögn um málið frá Iðnnemasambandi Íslands með bréfi, dags. 2. marz s.l., og hefur iðnn. þessarar hv. d. kynnt sér innihald þeirra gagna. Með því að gögn þessi hafa ekki verið birt með nál., hvorki því, er gefið var út af iðnn. Nd., né af iðnn. þessarar hv. d., þykir mér rétt að lesa það hér upp, með leyfi hæstv. forseta.

Iðnnemasamband Íslands sendir með bréfi hv. iðnn. neðri deildar Alþingis umsögn sína um þetta mál, að vísu óumbeðið. Hljóðar bréfið svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnnemasamband Íslands hefur á fundi sínum 2. marz athugað brtt. Eggerts Þorsteinssonar, Skúla Guðmundssonar og Bergs Sigurbjörnssonar, sem fram hafa komið við frv. til laga um iðnskóla. Stjórnin telur, að í þessum brtt. komi fram þau tvö aðalsjónarmið iðnnemasamtakanna, sem eru í fyrsta lagi: öll kennsla iðnskólanna fari fram að degi til, — og í öðru lagi: tekin verði upp verkleg kennsla í iðnskólunum. Þetta eru þær höfuðbreytingar, sem gera þarf á kennslufyrirkomulagi iðnskólanna í dag. Þess vegna lýsum við yfir fullum stuðningi við þessar brtt, og treystum því, að hið háa Alþ. samþ. þær.

Að öðru leyti vísast til þeirrar álitsgerðar, sem Iðnnemasamband Íslands hefur sent hv. iðnn. Nd. Alþ., dags. 18. febr. 1955, við fram komið frv.

Ingvaldur Rögnvaldsson, form.“

Hér er svo umsögn, dags. 18. febr., í alllöngu máli, sem ég sé ekki ástæðu til þess að lesa upp; það koma fram í bréfinu þau höfuðatriði, sem þessir aðilar leggja áherzlu á, og auk þess leggja þeir höfuðáherzlu á, að málið nái fram að ganga á þessu þingi, þó að ekki verði samþ. neinar þær breytingar, sem um ræðir í bréfinu.

Samkvæmt því, sem fram kemur í því erindi, sem ég þegar hef lesið upp, er lögð höfuðáherzla á af Iðnnemasambandinu, að öll kennsla iðnskólanna fari fram að degi til og að tekin verði upp verkleg kennsla í iðnskólunum, en það kemur alveg sérstaklega fram í sjálfri umsögninni frá sambandinu. Eru þetta höfuðbreytingarnar, sem sambandið telur að gera þurfi á iðnkennslunni í landinu frá því, sem nú er.

Hér er að vísu um að ræða álit eins aðila, sem við þessi lög á að búa og þær reglur, sem settar kunna að verða eftir þeim lögum. En .þótt svo sé, þá ber þó Alþ. að mæta þessum óskum með fullum velvilja og skilningi, eftir því sem aðrar ástæður leyfa, þar sem hér er um að ræða þann aðila, sem nýtur fræðslunnar og á að búa að henni allt sitt líf. Hitt er svo annað mál, að það kunna að vera ýmsar aðrar ástæður fyrir hendi, að ekki sé unnt að mæta þessum óskum fyrirvaralaust. En séu þær réttmætar og eðlilegar, ber að athuga vandlega, að hvaða leiðum fljótast og öruggast megi komast að því marki, sem óskað er að stefnt verði að.

Eins og sjá má af þskj. 415, bera 3 hv. alþm. fram till. um það í Nd., að iðaskólarnir skuli vera dagskólar og kennsla bæði bókleg og verkleg. Þessar till. eru felldar, sumpart vegna þess, að efni þeirra er að meira eða minna leyti í sjálfu frv., þótt því sé komið fyrir þar á annan hátt, og sumpart vegna þess, að ekki þótti tímabært að taka fræðslu upp að þessum leiðum nú þegar. En till. þessar ásamt óskum nemendasambandsins og einstökum ákvæðum frv. sýna glöggt; hvert stefnir í þessum málum, þó að vitað sé, að stökkið verði ekki tekið allt í einu.

Með tilvísun til þess, er ég hef hér greint frá, þótti n. rétt og skylt að senda frv. til umsagnar fleiri aðilum, og var samþ. á fundi í n. að senda það til umsagnar eftirfarandi aðilum:

1. Vinnuveitendasambandi Íslands.

2. Félagi íslenzkra iðnrekenda.

3. Fræðslumálastjóra.

4. Iðnsveinaráði Alþýðusambands Íslands. Taldi n., að með þessu fengju flestir þeir aðilar, sem mál þetta snertir og eigi höfðu haft aðstöðu til þess að ræða málið að öðrum leiðum eða segja um það álit sitt, tækifæri til þess að láta í ljós álit sitt á málinu. Var óskað eftir svari frá þeim hið allra fyrsta, svo að málið þyrfti ekki að daga uppi á þessu þingi vegna dráttar þeirra á svari. Þykir mér rétt að lesa hér upp bréf það, er n. sendi til þessara aðila, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hjálagt sendir iðnn. Ed. yður frv. til laga um iðnskóla, þskj. 460, til umsagnar og biður yður góðfúslega að senda umsögn til n. fyrir n.k. þriðjudagskvöld.

Einkum er óskað eftir því, hvort þér teljið, að stefna ætti að því að hafa aðeins einn iðnskóla í landinu, svo sem gert er í sambandi við fræðslu sjómanna, hvort rétt væri að taka upp verklega kennslu til skiptingar verklegum námstíma — og prófa þá jafnframt þekkingu sveina með verkefnum í skólanum og hvort ekki ætti að leyfa iðnaðarverkamönnum, sem árum saman hafa starfað að iðnaði án iðnnámssamnings, aðgang að iðnfræðslu í skólanum svo og þeim mönnum, er starfa að iðju í landinu og ekki eru iðnlærðir.

Með því að svo langt er liðið á þing að þessu sinni, er þess vænzt, að þér sendið umsögn svo snemma sem farið er fram á hér að framan.

F. h. iðnaðarnefndar,

Gísli Jónsson.

Páll Zóphóníasson.“

Ég vil segja öllum þessum aðilum það til hróss, að þeir höfðu allir sent umsagnir sínar innan þess tíma sem óskað var, svo að þeir hafa á engan hátt tafið afgreiðslu þessa máls í iðnn.

Með því að svör þessara aðila eru ekki birt sem fskj. með nál., þykir mér rétt að geta þeirra hér og gefa hv. d. nokkurt yfirlit yfir þá stefnu, sem aðilar vilja láta marka með þeirri löggjöf, sem hér um ræðir.

Skal ég þá fyrst taka umsögn iðnsveinaráðs Alþýðusambands Íslands. Það segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnsveinaráðið hefur ekki átt þess kost að hafa áhrif á afgreiðslu frumvarpsins í hv. neðri deild, þar sem iðnn. þeirrar deildar hefur ekki séð ástæðu til að senda það til umsagnar. Hins vegar virðist oss sem hæpið geti verið nú, úr því sem komið er og með tilliti til þess, hve liðið er á þingtímann, að gera tillögur um efnisbreytingar á nefndu frumvarpi, þar sem vér teljum, að yfirstandandi þingi megi ekki ljúka svo, að ekki verði sett lög um þetta efni.

Iðnsveinaráðið hefur athugað frumvarpið ýtarlega og borið það saman við brtt. einstakra þingmanna undir meðferð málsins í neðri deild. Hefðum vér kosið nokkur ákvæði þess nokkuð á annan veg en raunin hefur á orðið. En hins vegar álítum vér samþykkt frumvarpsins í núverandi formi tvímælalaust til mikilla bóta frá því ástandi, er ríkt hefur í þessu efni. Vill því iðnsveinaráðið eins og á stendur og með tilvísun til ofanritaðs fyrir sitt leyti mæla með samþykkt frumvarpsins eins og það liggur fyrir.“

Þá segir enn fremur hér í svari við spurningum þeim, sem við höfum lagt fyrir:

„Að vorum dómi getur einn iðaskóli ekki annað fullnægjandi kennslu handa 1300 nemendum, sem nú stunda iðnaðarnám í landinu, þó að við hins vegar álítum fækkun iðnskóla frá því, sem nú er, til bóta, þar sem auðveldara yrði á þann hátt að búa þá fullkomnum kennslutækjum og sjá þeim fyrir viðunandi kennslukröftum, en á þetta hvort tveggja skortir nú mjög víðs vegar í landinu.“

Þeir segja enn fremur:

„Tilrauna- og rannsóknarstofur teljum vér nauðsynlegar í iðnskólanum, þar sem nemendum yrði gefinn kostur á verklegum æfingum í iðngrein sinni til þess að fylla upp í þær eyður, sem verða í námi hjá einstökum meisturum vegna einhæfra verkefna.“

Hér er komið inn á það í þessari umsögn, að eins og verknáminu er nú hagað samkvæmt iðnaðarlöggjöfinni, sé það þó ekki fullkomnara en svo, að hér sé nauðsynlegt að setja upp tilrauna- og rannsóknastofur í verklegri kennslu í skólunum. — Segir enn fremur hér, að „oss þykir ástæða til þess að geta þess, að vér höfum skilið umrætt frumvarp svo, að gert sé ráð fyrir, að slík starfsemi sem rætt er undir þessum lið verði tekin upp við iðnskólann.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja tímann með því að lesa fleiri atriði upp úr þessari umsögn, þar sem ég hef látið nægja að minnast hér á höfuðatriðin.

Þá kemur hér næst umsögn frá Félagi íslenzkra iðnrekenda. Það segir hér í bréfi, sem er dagsett 22. marz 1955:

„Til skamms tíma hefur aðild að félaginu verið bundin við verksmiðjur einar með starfssvið utan hinna svonefndu löggiltu iðngreina. Nú hefur lögum félagsins verið breytt þannig, að hvers konar iðnaðarfyrirtæki geti átt þar aðild að, en verkstæði með fagmenn í þjónustu sinni eru enn svo fá innan vébanda félagsins, að félagsstjórnin telur naumast, að Félag íslenzkra iðnrekenda hafi aðstöðu til á þessu stigi að leggja orð í belg um fræðslutilhögun í handverksgreinum. En félagsstjórnin óskar sérstaklega að svara siðasta atriðinu, sem um er spurt, þ.e., hvort ekki ætti að leyfa „þeim mönnum, er starfa að iðju í landinu og ekki eru iðnlærðir“, aðgang að þessum tæknilega skóla, sem nefndur er iðnskóli í löggjöfinni.

Fyrirspurninni svarar félagsstjórnin hiklaust játandi með tilvísun til margendurtekinna yfirlýsinga um þetta má] á ársþingum iðnrekenda hin síðari ár.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa upp hér þær ályktanir, sem gerðár hafa verið í sambandi við þessi mál, þær hafa m.a. verið sendar hér hv. Alþ.

Félagsstjórnin tekur að lokum þetta fram: „Þó telur félagsstjórnin til mikilla bóta, ef tekið væri inn í 1. gr. frumvarpsins niðurlag 1. gr. sama frumvarps eins og það var á þskj. 593 1948,“ — en það frv. var borið fram af hv. menntmn. í hv. neðri deild, — „sbr. Alþingistíðindi 1948, bls. 1102, en niðurlag greinarinnar hljóðaði þá þannig:

Enn fremur skulu skólarnir eftir föngum veita þeim viðtöku, sem búa sig undir vinnu í verksmiðjum eða aðra iðju, sem ekki þarf sveinspróf til.“

Þetta er tekið upp í frumvarpið 1948, en hefur ekki. verið tekið upp í frumvarpið eins og það liggur fyrir nú eða eins og það kom frá hv. Nd.

Þá er hér umsögn frá Vinnuveitendasambandi Íslands, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Vér höfum athugað frv. og teljum, að Vinnuveitendasamband Íslands geti fallizt á fyrir sitt leyti, að frv. verði samþykkt sem lög í því formi, sem það er á fyrrgreindu þingskjali.

Varðandi hinar einstöku spurningar, sem settar eru fram í bréfi nefndarinnar, viljum vér taka fram, að samband vort telur heppilegt, að iðnskólar séu margir í landinu, en telur rétt, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, að framhaldsnám verði, að minnsta kosti fyrst um sinn, einungis við iðnskólann í Reykjavík. Um leið leggjum vér áherzlu á brýna nauðsyn slíks framhaldsnáms fyrir meistara í hinum ýmsu iðngreinum.

Þá teljum vér verklega námið fyrir iðnnema vera mjög til bóta, en reynslan verði að skera úr um það, hvort auðið sé að stytta námstíma þess vegna, og bendum enn fremur í því sambandi á heimild fyrir iðnfræðsluráð í 12. gr. laga um iðnfræðslu, nr. 40 frá 25. maí 1949, til að stytta námstímann.“

Þetta eru þá þær umsagnir, sem komið hafa frá þessum aðilum, en ég mun síðar víkja nokkuð að umsögn frá hv. fræðslumálastjóra.

Eins og umsagnir þær, sem ég hef lesið upp hér, bera með sér, komu ýmsar ábendingar fram; sem eðlilegt var að n. vildi ræða og gera síðan tilraun til að fá samkomulag um þær breytingar á frv., sem sýnilegt var að mundi horfa til bóta að gera nú þegar og vitað var að óhjákvæmilegt yrði að gera, ef frv. skyldi gert að lögum á þessu þingi, því að annars yrði óhjákvæmilegt að breyta löggjöfinni á næsta þingi. N. ræddi því málið enn á mörgum fundum, og var það auk þess rætt við þá aðila, sem iðnn. Nd. hafði boðað á sinn fund, svo og við ráðh., og þeim gefinn kostur á að kynna sér allar þær till. til breytinga, sem fram komu í n., áður en endanlega var frá þeim gengið þar. Fékk frv. því mjög nákvæma athugun í n. Hún gat þó ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Einn nm., hv. varamaður 10. landsk. (KGunn), vildi annað tveggja leggja til, að frv. yrði samþykkt óbreytt, eða að gerðar yrðu á því aðeins örlitlar breytingar, m.a. vegna þess, að hann leit svo á, að flest af þeim atriðum, sem meiri hl. vildi með breytingum koma inn í frv., væru þar þegar fyrir, — það var höfuðástæðan fyrir því, að hv. minni hl. vildi ekki vera með breytingunum, — að vísu í óljósara formi, en þó efnislega alveg eins, og að nánari fyrirmæli mætti því setja með reglugerð, enda yrðu þetta mest framkvæmdaratriði. Þetta eru höfuðrökin fyrir því, að hv. minni hl. vildi ekki gefa út sameiginlegt nál. og ekki stefna málinu í neina hættu. Hefur hann því gefið út sérstakt nál., þar sem hann gerir grein fyrir afstöðu sinni til málsins.

Skal ég þá gera hér nokkra grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. n. leggur til að gerðar verði á frv. samkv. þskj. 609.

Meiri hl. n. leggur til, að 1. gr. frv. verði orðuð um samkv. 1. brtt. á þskj. 609. Er ekki hér um verulega efnisbreytingu að ræða frá 1. gr. frv. á þskj. 460, eins og nú skal sýnt fram á, heldur miklu fremur skýrari ákvæði um sama efni, og er það að sjálfsögðu til bóta. Í frv., eins og það var borið fram upphaflega af hæstv. ráðh. á þskj. 156, er svo fyrir mælt í 1. gr., að iðnskólinn skuli veita fræðslu þeim nemendum, sem iðameistarar eða iðjufyrirtæki hafa tekið til náms samkvæmt lögum um iðnfræðslu. Allmargir munu hafa litið svo á, að þetta ákvæði takmarkaði bóklegu fræðsluna við þá nemendur eina, sem nema verklegt nám hjá iðnmeisturum og samkvæmt lögum um iðnfræðslu, og. að í skólann mætti ekki taka aðra nemendur. En þessi skilningur á greininni fær ekki staðizt, og ég vildi biðja hæstv. ráðh. m.a. að athuga þetta. Hitt er ljóst, að hér er ætlazt til þess, að skólinn veiti öllum þessum nemendum móttöku og þeir skuli hafa forgangsrétt að skólanum, ef hann skyldi ekki verða megnugur að veita öllum nemendum viðtöku, sem stunda vilja þar fræðslu um alls konar iðnaðarstarfsemi, hvort heldur viðkomandi stundar hið verklega nám samkvæmt iðnaðarlöggjöfinni eða á annan hátt. Síðari málsl. 1. gr. sýnir, svo að ekki verður á móti mælt, að þeir, sem hafa samið frv., ætlast beinlínis til þess, að þannig verði framkvæmd laganna, því að þar er ákveðið, að enn fremur geti skólinn haldið námskeið til framhaldsnáms og til undirbúnings iðnnámi og ýmiss konar iðnaðarstarfsemi. Verða þessi ákvæði frv. ekki skilin á neinn annan hátt en að allir þeir, sem nema verklegt nám í iðn eða hvers konar iðnaðarstarfsemi, skuli eiga rétt á bóklegri kennslu á námskeiðum skólans. Og ákvæði fyrri málsgr. útilokar þá á engan hátt frá því að gerast reglulegir nemendur í skólanum, ef nægilegt rúm eða aðrar aðstæður leyfa, enda væri það í engu samræmi við tilgang námskeiðanna, sem beinlínis sýnast hugsuð til þess að veita þeim aðilum, sem eru ekki skyldaðir samkvæmt iðnaðarlöggjöfinni að sækja nám í iðnskóla, möguleika til þess að öðlast bóklega fræðslu um alls konar iðnaðarstarfsemi að öðrum og auðveldari leiðum.

Hefur hv. Nd. einnig haft þennan skilning á ákvæðum 1. gr. frv. En hún vill gera þetta ákvæði enn skýrara og bætir því við í 1. málsl. 1. málsgr. orðunum: „og þeim, sem nema vilja iðn til sveinsprófs í vinnustöðvum, er skólarnir hafa ráð á.“ Þessi brtt. var samþ. í hv. Nd. Með þessu ákvæði, sem samþ. er í Nd. að bæta inn í 1. gr. frv., er gert tvennt. Annars vegar er skylda skólans til þess að veita nemendum viðtöku gerð víðtækari, því að nú skal hann einnig skyldur til að veita þeim mönnum fræðslu, sem nema vilja iðn í vinnustöðvum, er skólinn hefur ráð á. Hins vegar er hér beinlínis gert ráð fyrir því, að skólarnir komi síðar til að hafa ráð á slíkum vinnustofum og hefja kennslu í þeim, enda er þetta eðlileg afleiðing af öðrum ákvæðum frv. Um hitt er svo ekkert sagt, hvernig þessu námi skuli fyrir komið, hve lengi það skuli vera fyrir hverja iðngrein eða hvenær það skuli hefjast. Yrði um allt slíkt að setja reglugerð, enda algerlega á valdi skólastjórnar og þeirra aðila, sem leggja fram fé til skólans á hverjum tíma. Með þessum ákvæðum er aðgangur að hinni bóklegu og verklegu kennslu mjög mikið rýmkaður frá því, sem upphaflega var í frv., en á engan hátt þrengdur.

Samkv. 1. málsgr. 6. gr. frv. á þskj. 460 skulu iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskólanna vera dagskólar. Er sýnilegt, að löggjafinn hugsar sér það sem aðalreglu. Hins vegar er í 2. málsl. sömu gr. heimiluð undanþága frá þeirri reglu, ef nauðsynlegt þykir vegna aðstæðna.

Meiri hl. n. þótti eðillegt, að öll þessi ákvæði yrðu tekin upp í 1. gr. frv. Þegar því fyrri málsgr. 1. gr. í brtt. meiri hl. n. á þskj. 609 er borin saman við þau ákvæði, sem fyrir eru í frv., og með þeim skýringum, er ég hef hér lýst, er sýnilegt, að efnislega er ekkert nýtt í till., annað en það, að þar er ætlazt til þess, að skylda skólanna sé gerð enn víðtækari, þar sem ákveðið er beinlínis, að þeir veiti fræðslu þeim nemendum öllum, sem vilja undirbúa sig undir hvers konar iðnaðarstarfsemi og óska að nema þær námsgreinar, sem kenndar eru við skólana á hverjum tíma og nauðsynlegar eru störfum þeirra.

Ákvæði þessarar greinar um það, að kennsla skuli vera bæði bókleg og verkleg og hvernig henni skuli hagað, eru efnislega samhljóða sams konar ákvæðum í frv. og algerlega háðar í framkvæmd ákvörðun skólastjórnar og þeirra aðila, sem leggja fé til skólanna.

Í 2. málsgr. í 1. brtt. meiri hl. er til þess vísað, að verklegri kennslu í skólanum skuli hagað á sama hátt og 13. gr. ákveður að gera skuli á námskeiðunum. Er þetta bæði sjálfsagt og eðlilegt, eftir að búið er að breyta 1. gr. frv. á þann hátt, sem gert var í hv. Nd. Jafnframt þessu er svo nemendum heimilt að stunda verklega námið á annan hátt, en þó þannig, að það sé samrýmanlegt fræðslukerfi skólans. Hér ber því allt að sama brunni, að stjórnir skólanna ráða öllu um framkvæmdina, sem ákveðin yrði þá með reglugerð innan þeirra takmarka, sem lögin heimila, og breytist síðan eftir því, sem hentar bezt þjóðinni og stéttunum á hverjum tíma. Verður æði erfitt að setja fram rök gegn þessu fyrirkomulagi.

Þá leggur meiri hl. til í 2. brtt. á þskj. 609, að ný grein komi á eftir 1. gr. frv., er orðist svo sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vill maður, sem lokið hefur bóklegu námi við skólann, ganga undir hæfnispróf til sönnunar á verklegri þekkingu sinni í einhverri iðju eða iðngrein, án þess að hann hafi lært hana samkv. ráðningarsamningi, og getur hann þá snúið sér til skólastjóra iðnskólans í Reykjavík og óskað þess, að hæfni hans verði prófuð. Ber skólanum þá að láta hæfnisprófið fara fram eigi síðar en 6 mánuðum frá því, að beiðni um það er meðtekin. Prófið getur farið fram í skólanum eða á vinnustofum, er skólinn velur til þess, enda fari það fram undir eftirliti skólans og prófdómenda, er til þess séu skipaðir.

Standist viðkomandi aðill prófið, ber að afhenda honum sveinsbréf, er veiti sams konar réttindi og sveinsbréf þeirra, er lokið hafa hliðstæðu námi samkvæmt námssamningum.

Skólastjóri iðnskólans í Reykjavík semur reglur um verklega hæfnisprófun samkvæmt þessari grein, en ráðherra staðfestir þær.“

Er hér að vísu um nýmæli að ræða, en þó er hér ekki um neitt annað að ræða en beina afleiðingu af því ákvæði, sem þegar hefur verið samþykkt í neðri deild. Fyrri málsgr. segir einungis, að prófa skuli þá nemendur, sem lært hafa hið verklega nám án ráðningarsamnings. Það eru fyrst og fremst þeir, sem nema í skólanum samkv. ákvæðum 1. og 13. gr. frv., því að engin sanngirni mælir með því, að skólarnir séu látnir kenna þessum nemendum án þess jafnframt að hafa skyldur til þess að prófa hæfni þeirra eins og í öðrum skólum. Og þegar þetta er viðurkennt, verður ekki með nokkurri sanngirni staðið á móti því að prófa einnig hæfni manna, sem kunna að hafa aflað sér sömu eða meiri þekkingar á þessu sviði utan skólans. Er þetta í fullu samræmi við reglur allra skóla um bóklega fræðslu. Hér hefur skólastjórnin öll ráð í hendi sér um verkefni, eftirlit og annað það, er lýtur að hæfnisprófuninni, sbr. 3. málsgr. greinarinnar. 2. málsgr. kveður hins vegar svo á um, að þeir, sem staðizt hafa slík próf, skuli fá afhent sveinsbréf, er hafi sama gildi og þau, sem menn öðlast með námssamningum.

Eins og áður er fram tekið, eru öll þessi atriði bein afleiðing af þeirri stefnu, sem mörkuð er frá upphafi í frv. og gerð er skýrari með viðbótarákvæðum í Nd. og enn skýrari í brtt. meiri hl. nefndarinnar.

En áður en ég skil við þessi atriði, þykir mér rétt að ræða hér nokkuð, hvort ástæða sé til þess að breyta hér um frá því, sem verið hefur og iðnaðarmannastéttin sýnist vilja halda sem mest óbreyttu, þ.e., að öll verkleg kennsla í iðngreinum, hverju nafni sem nefnist, fari fram eftir iðnaðarsamningum samkvæmt ákvæðum iðnlaganna, og að engum öðrum sé veittur aðgangur að iðnskólanum til þess þar að nema bóklegt nám og framhaldsnám í verklegum fræðum. Jafnframt þessu fái svo engir aðrir rétt til þess að starfa sem iðnaðarmenn í landinu. Þetta er sú stefna, sem iðnaðarmannastéttin eða iðnmeistarastéttin stefnir að, en hún hefur bara ekki gert sér það ljóst, eins og ég hef margbent á hér, að með frv. er þessi stefna mörkuð og farið þess vegna inn á allt aðrar leiðir en áður, þótt það verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir, og hlýtur því að framkallá, eins og ég hef margtekið fram, að ákveðnari reglur verði settar um það síðar en fram koma í frv. eins og það er nú.

Í lok fjórða tugar þessarar aldar var ástandið í þessum málum hér á landi þannig, að segja mætti, að mörgum iðnaðarstéttum væri beinlínis lokað. Iðnmeistararnir voru algerlega einráðir yfir því, hve mörgum nýjum mönnum þeir hleyptu að námi, og settu um það svo þröngar reglur, að margur unglingur, sem hafði sterka löngun til að læra iðn og var auk þess vel til þess fallinn, hafði engan möguleika til að komast að sem iðnnemi. Þegar svo ófriðurinn skall yfir og eftirspurn jókst eftir iðnaðarmönnum, reyndust ekki nægilega margir lærðir iðnaðarmenn í landinu til þess að fullnægja eftirspurninni. Var þá safnað saman heilum hópum af högum mönnum til þess að inna af hendi iðnaðarstörf í samvinnu við iðnaðarmenn og iðnnema. Margir þessir menn reyndust frá upphafi ágætir í störfum sínum, aðrir miður, eftir því sem þeir höfðu hæfileika og kunnáttu, en flestir eða jafnvel allir urðu góðir iðnaðarmenn eftir langa æfingu við störfin og engu lakari en margir þeir nemendur, sem lært höfðu samkvæmt námssamningum, einkum er þeir á einn eða annan hátt höfðu aflað sér sambærilegrar bóklegrar þekkingar. Meginhluti þessara manna fékk þó aldrei atvinnuréttindi sem iðnaðarmenn, þó að iðnfræðsluráð mælti hins vegar með því, að einstakir þeirra yrðu þessara hlunninda aðnjótandi.

Með þessu hefur skapazt hér allmikið vandamál, bæði hvað snertir þá menn, sem þannig eru settir, og þá ekki síður hvað snertir hina, er að náttúruhæfileikum eru e.t.v. eingöngu til þess fallnir að ná langt á ákveðnu iðnsviði, en eru útilokaðir frá því að komast nokkurs staðar að til náms, og það er kannske höfuðatriðið. Þetta ástand er engan veginn æskilegt og engan veginn viturlegt að halda því við.

Það er ávallt til með öllum þjóðum ákveðinn fjöldi manna, sem gæddir eru sérstökum hæfileikum, sem þeir óska helzt að þroska, en glíma ekki við óskyld verkefni. Meðal íslenzku þjóðarinnar hafa ávallt fundizt oddhagir menn og búhagir menn, sem hafa ekki þurft jafnlangan tíma til þess að verða prýðilegir iðnaðarmenn og aðrir, sem valið hafa sér þá braut, hvort sem þeir hafa haft til þess meiri eða minni hæfileika en almennt gerist og kannske litla eða enga köllun. Er þjóðinni margfalt tjón að því að bægja slíkum mönnum frá því að auka þekkingu sína einmitt á þeim sviðum, sem hugur þeirra girnist helzt. Þetta er ein meginástæðan fyrir því, að rétt er og sjálfsagt, að iðnskólarnir séu opnir þessum mönnum, bæði til bóklegs og verklegs náms, ef þeim af einhverjum ástæðum eru lokaðar aðrar leiðir til þess að fullnægja fræðsluþorsta sínum. Á það ber og að líta, að samkvæmt iðnaðarlöggjöfinni getur hver sá, sem hefur lokið sveinsprófi, jafnframt orðið iðnmeistari, án þess þó að hafa nokkra hæfileika sem kennari í verklegum fræðum. Og það þarf engan veginn að fara saman, að maðurinn sé sæmilegur iðnaðarmaður og viðurkenndur kennari, enda gefast mörg dæmi, sem sýna, að nemendur frá slíkum meistara, sem að vísu er góður iðnaðarmaður, en lélegur kennari, en sjálfir hafa ekki neina sérhæfileika eða áhuga til að læra iðnina, eru engu betur settir að loknu námi samkvæmt samningi en aðrir, sem notið hafa tilsagnar ágætra kennara styttri tíma, hafa allan hugann við námið og eru auk þess sérstaklega til þess gerðir af guðs náð að vera iðnaðarmenn. Hér er því um hreint hagsmuna- og réttlætismál að ræða að leyfa þeim að ljúka námi og ná tilskilinni þekkingu á þeim tíma, sem hæfileikar þeirra og kringumstæður leyfa, og setja þar engar hömlur á.

Ég hef nú heyrt það sett fram sem rök í þessu máli, að ógerlegt sé að dæma verkhæfileika manna eftir því, hvernig þeir kynnu að leysa af hendi ákveðin verkefni við smíði á sveinsstykki, þar verði einnig að koma til hraði í afköstum og þekking á smiði á fleiri stykkjum en þeim, er nemi kunni að fá af handahófi til prófs. En því er til að svara, að þetta á ekki við verkleg próf frekar en bókleg. Enginn prófdómari getur sagt um hæfileika nemanda eða þekkingu á öðru en því, sem hann hefur verið prófaður í. Nemandinn kann að vera heppinn að koma upp í nýlesnum kafla eða óheppinn að koma upp í kafla, sem hann hefur enga eða litla rækt lagt við að kynna sér. Sama má segja um æfingu nemanda í að nota námsgreinarnar, sem hann hefur numið. Hvaða nýútskrifaður læknir hefur t.d. fullkomna æfingu í skurðaðgerð eða sjúkdómsgreiningu á borð við jafnlærðan skólabróður, sem að viðbættu námi hefur langa reynslu að baki sér? Og svo mætti lengi telja.

Hér eru því engin rök færð fram, sem taka má gild, um þessi sérstöku próf. Ef hins vegar nemandinn hefur staðizt prófið, eins og til er ætlazt, verður honum ekki neitað um réttindi, sem sams konar próf veita öðrum, þótt þeir kunni að hafa numið undir öðrum skilyrðum. Í því væri engin sanngirni. Hér er það þekkingin og hæfileikarnir, sem eiga að ráða úrslitum, en ekki námsaðferðirnar.

Þörfin til þess að koma yfir sig húsakosti í þessu landi er svo gífurleg, að það er vart annað meira vandamál fyrir þing og stjórn að glíma við sem stendur. Verð húsa og þar af leiðandi húsaleiga er slík, að allt of stór hluti tekna manna fer til þess að mæta þeim útgjöldum. Er öllum ljóst, að það er ekkert smáatriði fyrir þjóðarheildina, ef unnt væri á einn eða annan hátt að draga úr þeim kostnaði. En leiðin til þess hefur verið sú, að menn reyndu meir en áður að byggja sjálfir yfir sig á þeim tíma, er þeir voru annars ekki við skyldustörfin. Hefur mörgum húsum verið komið upp þannig og þau aftur leyst mörg vandamál viðkomandi aðila. Er þetta metið svo mikils af löggjafanum, að hann hefur viðurkennt, að vinnutekjur manna af þeirri atvinnugrein skuli undanþegnar skatti, og fullvíst er, að margar þessar íbúðir hafa kostað miklu minna fé en hinar, sem komið hefur verið upp af faglærðum iðnaðarmönnum eingöngu. Og ég veit, að hæstv. iðnmrh. hefur verið með að gera slíkar ráðstafanir og gert það af fullum skilningi. Reynslan hefur sýnt, að það á að halda áfram á þessari braut, en hvaða vit væri þá í því að torvelda þeim mönnum, sem áhuga hafa á því að afla sér meiri þekkingar á þessu sviði án þess að bindast margra ára samningi, að fá þessa þekkingu í þeirri einu stofnun, sem veitir fræðslu í iðnaði.

Þá þykir sumum það óviðeigandi og ósamrýmanlegt, að menn, sem stunda iðjustarfsemi í landinu, hafi nokkurt sameiginlegt með iðnaðarmönnum og sízt af öllu menntastofnun iðnaðarins. En hér er um mikinn og háskalegan misskilning að ræða. Og það er meira en sorglegt, að þessar tvær greinar á sama stofni iðnaðarmála skuli ekki geta komið sér saman um lausn vandamála, sem snerta báða aðila og þeir báðir hefðu mestan hag af að leysa í sameiningu. Iðja og iðnaður eru í raun og veru svo samtvinnuð, að langeðlilegast væri, að mál þeirra yrðu tengd miklu nánar saman en gert er. Alþ. á að leggjast á þá sveif að sameina þessa aðila, en sundra þeim ekki. Hver er t.d. munur á því að vinna hurðir og hurðarkarma eða glugga og gluggakarma, svo að eitthvað sé nefnt, í iðjuveri eða á verkstæði iðnmeistara? Og hver er munurinn á þeirri þekkingu, sem til þess þarf, ef báðir aðilar eiga að skila jafngóðu verki? Ég hygg, að það væri erfitt fyrir nokkurn mann að benda hér á mismuninn. Nú er það svo, að framleiðsla þessara hluta fer að miklu leyti fram í vélum, í iðjuverum. Og þannig er það með fjöldamarga aðra hluti, sem iðnaðarmenn gerðu áður einir, en gera nú jöfnum höndum við verksmiðjurnar og vilja ekki vera án þess að geta fengið þaðan, þegar þeim þykir það betur henta.

Þegar litið er á þróun verksmiðjuiðnaðarins í landinu, er sýnilegt, að hann á að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar verða til hans á hverjum tíma, bæði hvað snertir gæði framleiðslunnar, hraða í framleiðslu og verð framleiðslunnar. Verður því ekki mótmælt, að menn þeir, sem þar starfa, verða að afla sér þekkingar á sviði iðnaðar, bæði hvað snertir bóklega og verklega fræðslu. Væru það nokkur búhyggindi fyrir þjóðina, sem þegar hefur komið sér upp glæsilegum iðnskóla hér í Reykjavík, sem kostar í kringum 10 millj. kr. eða meira, þegar sú bygging er fullgerð, að útiloka þessa stétt frá þeim skóla og fara svo að byggja annan til þess að kenna þar þeim mönnum eða fara að koma upp tveimur verknámsdeildum við gagnfræðaskólana úti á landinu, einni fyrir iðnaðarmenn og annarri fyrir iðju, til þess að kenna þar að langmestu leyti sömu námsgreinarnar? Og hver sem niðurstaða þessara mála kann að verða í þetta skipti hér á Alþ., þá er það alveg víst, að lífið og reynslan munu sanna, að sú stefna er röng að sameina ekki undir almenna iðnfræðslustofnun alla þá aðila, sem nema vilja iðju og iðnað í landinu, þó að sú fræðsla fari fram víðar en á einum stað í landinu.

Þá þykir mér rétt að benda á, að eins og lögum um iðnfræðslu í landinu er nú háttað, er því fólki, sem í sveitum býr, ætlað að búa við aðra og verr menntaða iðnaðarmannastétt en það fólk, sem býr í margmenninu. Þó er engu minni snilli að búa til góð, hentug og ódýr hús og húsgögn í sveit en í kaupstað. Fjöldi af ungu fólki í sveitum landsins, sem gætt er snilligáfu til munns og handa, á þess nú engan kost að afla sér þeirrar þekkingar í iðnfræðslu, sem því og þjóðinni væri mikils virði í erfiðri lífsbaráttu dreifbýlisins, þar sem hverjum er hentast að búa sem mest að sínu, nema með því einu að binda sig áralöngum námssamningum, ef sú leið er þá ekki algerlega lokuð. En reynslan hefur sýnt, að einmitt slíkir samningar hafa sogað þetta fólk burt frá sveitunum og sveitirnar alveg glatað því, hafi það á annað borð bundizt slíkum samningum. Heimasveitin situr svo eftir með þeim mun færra fólk og minni möguleika til þess að bjarga sér og inna af hendi hin nauðsynlegustu iðnaðarstörf.

Hér er um verulegt vandamál að ræða, sem ráða verður bót á, og það verður bezt gert með því að gefa þessu fólki möguleika til þess að afla sér iðnaðarfræðslu á þann hátt, sem frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir og gert er enn skýrara og enn öruggara með till. meiri hl. n.

Mér hefur þótt rétt að ræða hér allýtarlega um mál þetta í sambandi við till. meiri hl. um breyt. á 1. gr. frv. og vænti þess, að hv. d. og alveg sérstaklega hæstv. ráðh. geti fallizt á, með tilvísun til þess, sem þar hefur komið fram, að samþ. þessar breytingar á frv. til bóta fyrir málið í heild.

Um hinar aðrar brtt. meiri hl. skal þetta tekið fram:

Eins og sést á þskj. 609, er a-liður 3. brtt. um að fella niður 3. tölul. 2. gr. frv., en þessi ákvæði mæla svo fyrir, að það skuli vera inntökuskilyrði í skólann, að nemandi eða inntökubeiðandi hafi náð tilskildum árangri við hæfnispróf, ef því verður komið á fyrir umsækjendur um iðnnám. Bæði er það, að slíkri stofnun sem hér um ræðir hefur ekki enn verið komið upp, og auk þess gæti það verið ýmsum erfiðleikum bundið fyrir nemanda að þreyta próf í þeirri hæfni, einkum fyrir þá, sem ætla sér að stunda nám í hinum fámennu skólum í sambandi við gagnfræðaskólana. Komi síðar í ljós, að nauðsynlegt þyki að setja slík skilyrði fyrir inntöku í skólann, má ávallt gera breytingar á lögunum, enda ekki ólíklegt, að ýmis önnur ákvæði þeirra þyrftu þá einnig að athugast.

Meiri hl. n. leggur því til, að þetta ákvæði verði fellt niður.

B-liður þessarar till. er umorðun á síðustu málsgr. 2. gr. frv. Er hér heimild til skólastjórnarinnar gerð enn víðtækari hvað snertir inntökuskilyrði í skólann, skilyrði til flutnings nemenda á milli bekkja svo og undanþágu frá að sitja í tímum í þeim námsgreinum, er nemandi kann að hafa lært jafnmikið í eða meira í öðrum skólum eða á annan hátt. Er allt þetta til þess að auðvelda nemendunum námið, en jafnframt hefur skólastjórnin fullt vald yfir því, að ákvæðin verði ekki misnotuð. Væri engan veginn réttlátt að láta t.d. nemanda með 4. bekkjar prófi frá menntaskóla eða með kennaraskólaprófi eða hverri annarri þekkingu, sem þessu jafngildir, sitja í tímum í iðnskóla í sömu námsgreinum og hann kynni að hafa numið og lokið prófi í í þeim skólum, sem gera enn meiri kröfur til burtfararprófs en iðnskólinn gerir. Á slíkur nemandi því ekki að þurfa að sækja aðra tíma í iðnskólanum en þá, sem kenna þær aðrar námsgreinar, sem krafizt er og hafa ekki verið honum áður kenndar. Með þessu móti er miklu auðveldara fyrir nemandann að ná tilsettu marki.

4. brtt. er um það, að 4. gr. frv. falli niður. Hefur allt efni hennar verið tekið upp í 1. brtt., og verði hún samþykkt, er hér aðeins um afleiðingu að ræða. Verði fyrsta brtt. meiri hl. n. hins vegar felld, þá verður þessi brtt. að sjálfsögðu tekin aftur.

5. brtt. er um, að menntmrh. fari framvegis með þessi mál í stað iðnmrh. Meiri hl. n. lítur svo á, að eðlilegast væri, að framkvæmd á fræðslulöggjöfinni allri almennt yrði færð yfir til menntmrn., en þótt svo yrði ekki gert, þá stendur hér alveg sérstaklega á, þar sem ákvæði frv. gera ráð fyrir því, að allmikið af þessari fræðslu, þ.e. í öllum þeim skólum, sem hafa færri en 60 nemendur, skuli fara fram í gagnfræðaskólunum. Gagnfræðaskólarnir eru undir stjórn menntmrn., og því er alveg sérstök ástæða til þess að gera þessar breytingar hér í þessu frv., auk þess sem það er að áliti meiri hl. n. eðlilegast ekki einungis að stöðvast á þessari braut, heldur að færa þetta til samræmis því, sem hér hefur verið minnzt á.

Þá er 6. brtt. Hún er þess efnis að hafa nokkurn annan hátt á skólanefndunum eða skólastjórnunum en gert er ráð fyrir í frv. á þskj. 460. Í frv. er gert ráð fyrir því, að nefndirnar séu kosnar þannig, að ákveðnir aðilar úr iðnaðarmannastétt skuli tilnefna mennina í skólastjórn og þeir skuli síðan skipaðir af viðkomandi ráðuneyti eftir tilnefningu þessara stétta. Um þetta atriði hefur ekkert samkomulag náðst hjá þeim aðilum, sem telja sig eiga hagsmuna þar að gæta, og þyrfti að fjölga miklu meira í skólanefndunum til þess að geta uppfyllt allar þær óskir.

Meiri hl. n. leggur því til, að það séu gerðar tvær efnisbreytingar hér í þessu máli. Önnur er sú, að þar sem er 5 manna skólastjórn, sem eingöngu ætti að vera við hina stærri skóla, sem meira en 60 nemendur eru í, skuli sveitarstjórnir eða bæjarstjórnir viðkomandi aðila eða sýslunefndir kjósa 4 menn, en gera það að skilyrði, að a.m.k. tveir af þeim mönnum séu úr iðnaðarmannastétt. Sá árangur gæti orðið af þeirri kosningu, að jafnvel væru allir þeir 4 menn úr iðnaðarmannastétt, ef viðkomandi sveitarfélagi sýndist það vera rétt. En það er girt fyrir það a.m.k., að hægt sé að ganga þar á rétt iðnaðarmanna, þar sem fyrirskipað er, að a.m.k. helmingurinn af þessari tölu skuli vera úr þeirra stétt, en form. skólanefadar skuli til sama tíma, þ.e. til 4 ára, eða eins lengi og kjörtímabilið stendur, skipaður af ráðherra.

Fyrri till., eins og hún er í frv., er byggð á því gamla fyrirkomulagi, sem var á rekstri þessara skóla. Þá voru iðnskólarnir reknir á kostnað iðnaðarmanna að ákaflega miklu leyti, voru að vísu styrktir af ríki og bæjarfélögum, en iðnaðarmannastéttin bar alla ábyrgð á skólunum, rekstri þeirra og öllum fjárreiðum. Nú hefur þessu verið breytt. Nú taka bæjarsjóðirnir eða sveitarsjóðirnir og ríkissjóður að sér ekki einungis allan kostnað við að koma skólunum upp, heldur allan kostnað við rekstur skólanna, að fráskildu því skólagjaldi, sem ákveðið er og ætlazt er til þess að ákveðið sé af skólastjórn og ráðherra á hverjum tíma, og þá er vitanlega algerlega óhæft, að þessir sömu aðilar skuli ekki ráða sjálfir eingöngu og engir aðrir, hverjir eru settir í skólastjórn. Þetta verða viðkomandi aðilar að gera sér ljóst. Hins vegar þótti alveg rétt, eins og ég gat um áðan, að tryggja það, að iðnaðarmannastéttin eigi alltaf aðild að skólastjórninni. Mætti t.d. hugsa sér með þeirri skipan, sem er í frv. nú á þskj. 460, að settir yrðu í skólastjórn pólitískir andstæðingar þeirrar bæjarstjórnar eða sveitarstjórnar, sem situr að völdum á hverjum tíma og á að leggja fram féð, eða þeirrar ríkisstjórnar, sem leggur fram féð, og að slíkir menn hefðu þá ekki sömu löngun til þess að reka skólann á hagkvæmasta hátt, eða eins hagkvæmt og ef þeir væru jafnábyrgir fyrir útgjöldum og þeir aðilar verða að vera á hverjum tíma, sem féð verða að láta. Það yrði þó a.m.k. fyrirbyggt með þeirri tillögu, sem meiri hl. n. gerir, en hins vegar ekkert gengið á rétt iðnaðarmanna.

Önnur efnisbrtt. hér er sú, að það er lagt til af meiri hl. n., að í hinum skólunum, þar sem eru færri en 60 nemendur, séu aðeins þrír í skólanefnd. Meiri hl. sér ekki ástæðu til að vera að hafa fimm manna skólastjórn t.d. yfir skóladeild gagnfræðaskóla, þar sem kannske væru 3 eða 4 eða 10 menn. Skulu tveir þeirra kosnir á sama hátt af sveitarfélögunum, og annar yrði að vera skilyrðislaust iðnaðarmaður, en ráðh. skipaði formann skólanefndarinnar, sem væri þá oddamaður. — Vænti ég, að hv. d. fallist á, að þessi skipan málanna sé heppilegri fyrir alla aðila en sú, sem gert er ráð fyrir í frv.

7. brtt. er við 9. gr., að aftan við 1. málsl. bætist: „svo og styrk til stundakennslu hlutfallslega fyrir þá nemendur, sem umfram eru þá tölu, sem ætluð er föstum kennurum“. Þetta er í samræmi við önnur ákvæði í fræðslulöggjöfinni og er raunverulega nauðsynlegt, til þess að kostnaður af stundakennurunum komi hlutfallslega á þá aðila, sem eiga að bera þennan kostnað, enda hefur verið haft fullkomið samráð við fræðslumálastjóra um orðun á þessari brtt.

Þá er b-liðurinn við þessa sömu grein, að ráðherra ákveði skólagjald að fengnum tillögum skólanefndar. Í frv., eins og það liggur nú fyrir á þskj. 460, er sagt, að iðnmeistarar og iðnfyrirtæki, sem láta nemendur ganga í skólann, greiði gjöld vegna þeirra að ákvörðun ráðherra eftir till. skólanefnda. Hér er um að ræða samningsatriði milli meistara iðnfyrirtækja og nemenda, hverjir greiða skuli gjöldin, enda skólanum óviðkomandi, hvort það er einn aðili eða annar, sem greiðir þau. Hins vegar er það engan veginn skólanum óviðkomandi, hvað gjöldin eru há, og þess vegna þótti meiri hl. rétt að leggja til að umorða greinina eins og ég hef þegar lýst.

8. brtt., við 11. gr., er aðeins afleiðing, að í staðinn fyrir „iðnaðarmenn“ komi: iðnaðarstarfsemi, verði aðrar brtt. n. samþ. Að öðrum kosti verður brtt. að sjálfsögðu tekin aftur.

Sama má segja um 9. brtt., við 14. gr. Það er aðeins til samræmingar, að í staðinn fyrir „iðnaðarmálaráðherra“ komi: ráðherra, sem getur að vísu staðið í frv., jafnvel þótt ekki sé fært yfir á annað ráðuneyti, en þarf ekki heldur breytinga með, ef sú till. yrði felld.

B-liðurinn er, að á eftir orðinu „kennsluskyldu“ í 3. málsgr. komi: „svo og menntun kennara í almennum greinum“. Það er ekkert gert ráð fyrir því í frv., hver menntun kennara skuli vera og hvaða próf þeir skuli hafa staðizt, sem þar eiga að verða settir eða skipaðir sem kennarar. Þetta er einnig gert í samráði við fræðslumálastjóra, að leggja til, að þessum orðum verði breytt þannig.

10. brtt. er mikil efnisbreyting, þ.e., að 15. gr. falli niður. Ég þarf ekki að ræða lengi það atriði hér. Þetta er gr., sem tekin hefur verið upp í flest lög um fræðslu í fræðslulöggjöfinni almennt, að kennari, sem hefur gegnt embætti í 10 ár og óskar að hverfa frá störfum í eitt ár, skuli halda fullum launum. Ég tel persónulega, að hér sé um ofrausn að ræða og það eigi ekki einungis að setja það ekki inn í þessa löggjöf, heldur eigi að afnema það úr allri annarri fræðslulöggjöf í landinu. Þessir menn hafa skemmri vinnutíma en nokkrir aðrir starfsmenn ríkisins, og það er ekkert skilyrði fyrir því, að þeir hafi unnið fyrir þessari aukaþóknun, þótt þeir hafi setið við starf í 10 ár. Ég vil í sambandi við það leyfa mér að benda á aðeins eitt dæmi. Mér er kunnugt um einn ágætan kennara í menntaskólanum, sem vanrækti að taka nemanda upp allan veturinn í enskri tungu. En þegar kemur að prófi, þá gefur hann honum 1 og fellir hann þar af leiðandi frá stúdentsprófi. Þessi sami nemandi hafði gegnum allan skólann haft 1. einkunn í málinu, og eftir að hann kemur síðar í annan skóla til þess að nema þungar vísindagreinar á því máli, sem þessi ágæti kennari fyrst hafði vanrækt að kenna honum og auk þess farið svo með hann eins og ég skýri hér frá, þá hafði hann numið á því máli þungar vísindagreinar og alltaf verið þar með 1. einkunn árum saman. Ég tel ekki, að slíkur kennari hafi unnið til þess að fá heils árs laun án starfa, þó að hann hafi hangið við kennslu þennan tíma og kannske árum saman beitt sínum hyggindum og sínu valdi á þann hátt, sem ég hef hér lýst. En þetta er ekkert sérstakt um þessa löggjöf og kemur þar af leiðandi ekki við þeim ágreiningi, sem annars hefur orðið um frv. það, sem hér um ræðir.

11. brtt. er við 16. gr., að á eftir orðunum „kennsla í skólunum“ í fyrri málsgr. komi: tölu fastra kennara, en sú brtt. er einnig gerð í samráði við fræðslumálastjóra.

Ég þykist þá hafa gert glögga grein fyrir, ekki einasta, hvers vegna hv. efrideildarþingnefndin hefur þurft alllangan tíma til þess að athuga þetta mál og þó gert það á miklu skemmri tíma en iðnn. hv. Nd. þurfti, heldur einnig gert grein fyrir öllum brtt. og sýnt fram á, að ef þær verða samþ., þá sé málinu í heild miklu betur komið en ef það nái fram að ganga án breytinga eins og það liggur fyrir á þskj. 460.

Ég vil að síðustu taka það fram, að einn hv. þm. í meiri hl. n., hv. þm. Hafnf. (IngF), hefur óbundnar hendur um að fylgja ekki öllum þeim brtt., sem fram koma þar, eða fylgja öðrum, sem fram kunna að koma, og sjálfur að bera fram breytingar. Hefur hann skrifað undir með fyrirvara, eins og sést á nál., og mun bann gera grein fyrir því. Einnig hafa aðrir nm. áskilið sér rétt til þess að fylgja brtt., sem kynnu að koma fram, eða sjálfir að bera fram brtt. við málið á síðara stigi. Ég veit ekki heldur nema hv. minni hl. muni fylgja einnig einhverju af þeim brtt., sem meiri hl. ber fram, það kemur fram að sjálfsögðu, þegar hann gerir grein fyrir sínu nál. Sjálfur vil ég persónulega lýsa hér yfir, að þótt ég áliti, að málið sé nú komið í miklu betra horf og eðlilegra með þeim brtt., sem bornar hafa verið fram, ef þær verða samþ., þá mun ég ekki greiða atkv. á móti frv., jafnvel þó að engar af brtt. yrðu samþ. hér í þessari hv. deild, því að mér er ljóst, eins og ég hef tekið fram hér, að stefnan í frv. er mörkuð og henni verður ekki breytt, nema því aðeins að frv. sé breytt frá því, sem það kom frá Nd. Þá er hér aðeins um það að ræða, hvort á að gera það skýrara og hvort það verður gert á þessu þingi eða síðar.