22.04.1955
Efri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

94. mál, iðnskólar

Frsm. minni hl. (Kristinn Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. iðnn. Ed. hefur í ýtarlegri framsöguræðu lýst þeirri meðferð, sem málið fékk hjá iðnn. Ed., og hef ég þar ekki neinu við að bæta.

Eins og kom fram í ræðu hv. frsm., þá lágu þar umsagnir ýmissa aðila um frv. í núverandi mynd þess, og má segja, að heildarniðurstaða þar væri sú, að þótt sumir þeirra gætu hugsað sér og óskuðu eftir ýmsum eða nokkrum breytingum á frv. frá því, sem það er núna á þskj. 460, þá var yfirleitt óskað eftir því, að málið næði fram að ganga á yfirstandandi þingi, jafnvel þó að engar breytingar yrðu á því gerðar.

Minni hl. iðnn. lagði þess vegna áherzlu á, að ekki yrðu það veigamiklar breytingar samþ. í iðnn. hv. deildar á frv., að telja mætti hættu á því, að svo erfitt yrði að ná samkomulagi um þær breytingar, að málinu yrði stefnt í nokkra tvísýnu með framgang þess á yfirstandandi þingi. Þess vegna lagði ég til, að frv. yrði samþ. óbreytt eða með mjög litlum breytingum, sem enga hættu mætti telja á að mundu torvelda framgang þess á núverandi þingi.

Þær brtt., sem meiri hl. iðnn. hefur borið hér fram, eru að einu leyti allveigamiklar. Segja má þó um 1. lið brtt. meiri hl. iðnn., eins og kemur fram á þskj. 609, að hann sé efnislega þegar til staðar í frv. eins og það er á þskj. 460, en að vísu nokkru óljósari. Það var líka skoðun minni hl., að svo væri, og það mun vera við þá skoðun um þetta atriði, sem hv. frsm. lét þess getið, að ég væri eða hefði verið sammála um aðalatriðið í þeim brtt., sem meiri hl. bar fram, eins og þær eru á þskj. 609.

Í 1. gr. frv., eins og það er á þskj. 460, er greinilegt, að fleiri hafa rétt til iðnnáms í iðnskólum en þeir einir, sem nema þar hjá iðnmeisturum eða iðnfyrirtækjum samkv. lögum um iðnfræðslu. Og ég tel um það orðalag, sem meiri hl. iðnn. vildi fá í staðinn og hefur gert till. um, að þar sé efnislega ekki um breytingu að ræða.

Hins vegar tel ég, að það orðalag sé betra eins og það er í frv. á þskj. 460 en brtt. sú, er meiri hl. iðnn. ber fram, þar sem ég tel, að það sé ekki æskilegt á þessu stigi málsins að orða þetta öllu greinilegar en þar er gert, þar sem ég tel, að auðveldara sé að ná samkomulagi og láta málið ná fram að ganga með því orðalagi, sem nú er þar, heldur en að taka þetta öllu skýrara fram.

Það er ósköp eðlilegt, að það sé viðkvæmt mál fyrir iðnaðarstéttina, iðnsveina og iðnmeistara, sérstaklega þó iðnsveinana, ef gerðar eru grundvallarbreytingar á þeirri löggjöf, sem þeir hafa numið undir, og þeirri löggjöf, sem þeir byggja sín réttindi á, sem þeir hafa í dag.

Það kom greinilega fram í umræðum í iðnn. hv. Ed. um þetta frv., að það eru uppí sjónarmið um, að það sé kominn tími til þess að breyta nokkuð og breyta allverulega fyrirkomulagi þess náms, sem iðnaðarnemendur öðlast sveinsréttindi eftir nú í dag. Ég er þeirrar skoðunar, að breytingar á þeirri löggjöf og breytingar á tilhögun námsins kunni að verða eðlilegar og nauðsynlegar, eftir því sem aðstæður breytast og framþróun atvinnuveganna og atvinnuhátta hjá okkur verður. En hér er um svo veigamiklar breytingar að ræða, að það er sýnilegt, að það verður að vinna að þeim af mikilli varúð og þær munu ekki komast í framkvæmd nema á nokkuð löngum tíma. Hér er um stórkostlega hagsmuni að ræða fyrir þá, sem réttinda njóta samkv. þessum lögum og numið hafa eftir þeim. Á hinn bóginn ber líka þess að gæta, að sú þekking, sem iðnsveinar fá með núverandi iðnlöggjöf, verði ekki minni. Það má að vísu færa rök fyrir því, að þessi löggjöf, elns og hún er í dag geti komið nokkuð hart niður á einstaka afburðamönnum og sérstökum hæfileikamönnum, sem allt leikur í höndum á og þurfa ekki jafnmikinn tíma til náms og meðalmaður. En þó að reynt sé, eins og rétt er, að haga þannig löggjöf og haga þannig námsfyrirmælum, að hægt sé að taka að einhverju leyti tillit til þessara manna, þá verður þó jafnframt að varast, að þær breytingar séu á þann veg, að hætta sé á því, að almenn þekking í iðn hjá iðnaðarmönnum minnki frá því, sem nú er. Þvert á móti er mikil ástæða til þess að reyna að auka hana frá því, sem hún er í dag. Þess vegna tel ég, að orðalag á 1. gr. frv., eins og það er á þskj. 460, sé heppilegt með það fyrir augum, að þar er möguleiki, að ég tel, til að vinna að þeim breytingum á iðnfræðslunni, sem breyttar aðstæður smátt og smátt gera eðlilegar og nauðsynlegar, en hins vegar tel ég, að það sé ekki rétt eða æskilegt að ganga lengra og gefa bein fyrirmæli um frekari breytingar þegar í stað. Þarna gefst þeim, sem þessum málum veita forstöðu, nægilegt svigrúm til að vinna að þeim breytingum, sem nauðsynlegar eru að þessu leyti í dag, þ.e.a.s. að liðka eitthvað til um iðnfræðsluna án þess að brjóta niður þann heildarramma, sem hún byggir á í dag.

Um aðrar breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á frv. af meiri hl. iðnn. á þskj. 609, vil ég segja, að þá viðbót, sem lagt er til að komi þar á eftir 1. gr., finnst mér engan veginn tímabært að bera fram nú í þessu formi, sem hún þar er. Ef leyft væri að nema hinar lögbundnu iðngreinar á þann veg, sem þar er lagt til, þannig að það sé alveg skýrt, að hægt sé að stytta námstímann mikið eða að maður megi óska eftir prófi án þess að hafa verið neinn tíma í lögbundnu námi, þá er þar farið fram á stærri breytingar en eðlilegt má telja, að iðnaðarstéttin geti sætt sig við svo skyndilega. Því er að vísu haldið fram, að þetta sé beint framhald af því, sem þegar er komið inn í frv., eins og það er á þskj. 460, í 1. gr. þess. En eins og ég gat um áðan, þá tel ég, að 1. gr. þess sé þannig orðuð, að það komi ekki til mála á grundvelli hennar að gera slíkar stórkostlegar skyndibreytingar á almennu iðnnámi samkv. iðnfræðslulögunum, en hins vegar sé 1. gr., svo sem ég hef þegar getið um, hinn gullni meðalvegur með það svigrúm, sem þeir hafa, sem þessum málum veita forstöðu, til þess að vinna að þeim breytingum, sem nauðsynlegar kunna að verða og breyttir tímar gera æskilegar.

Við vorum í hv. d. núna nýlega að ræða um verulega vernd fyrir víssa stétt í þessu þjóðfélagi, — stétt, sem hefur lagt mun minna á sig til þess að afla sér þekkingar og hæfni til þess að vinna sín störf en segja má almennt um iðnaðarmenn, sem numið hafa samkv. iðnfræðslulögunum. Það væri að mínu áliti nokkuð óeðlilegt, sömu dagana og hv. d. samþykkir vernd handa leigubifreiðarstjórum á vissum stöðum á landinu, ef hún samþykkti jafnframt slíkar stórkostlegar breytingar á þýðingarmiklum hagsmunamálum miklu fjölmennari og stærri stéttar en leigubifreiðarstjórar geta talizt.

Af öðrum breytingum, sem hv. meiri hl. iðnn. hefur gert við 1. gr. frv., eins og það er á þskj. 460, hef ég tilhneigingu til að samþykkja að öðru jöfnu a.m.k. eina, þ.e.a.s., ég tel, að það sé að ýmsu leyti eðlilegra, að iðnskólarnir heyri undir menntmrh., í stað þess að samkv. frv. er gert ráð fyrir, að þeir heyri undir iðnmrh. En aðrar breytingar, sem hv. meiri hl. iðnn. gerir tillögur um, tel ég ekki þess eðlis, að ég telji nauðsynlegt að vera þeim samþykkur, eða er þeim beinlínis andvígur. Ég tek til dæmis þá breytingu, er hv. meiri hl. iðnn. leggur til að gerð verði á 2. gr., að nemendum, sem uppfylla viss skilyrði, sé heimilt að stytta sitt bóklega nám. Ég tel eðlilegt, að þær breytingar verði settar í reglugerð iðnskólanna, en sé ekki beinlínis nauðsynlegt að hafa þær í löggjöf. Breytingarnar á skólastjórn iðnskólanna tel ég ekki vera til mikilla bóta og hallast heldur að þeirri tilhögun, sem frv. gerir ráð fyrir, eins og það er á þskj. 460.

Það er vitað, að í dag vinnur við ýmiss konar iðjustarfsemi mikill fjöldi manna. Og það er auðvitað bæði sjálfsagt og nauðsynlegt, að sú stétt fái hina beztu menntun til sinna starfa, sem hægt er að veita, og það er líka gert ráð fyrir því í frv., eins og það er á þskj. 460, að iðnskólarnir geti haldið námskeið til framhaldsnáms fyrir þá, sem eru í ýmiss konar iðnnámi og annarri iðnaðarstarfsemi. Er þar opnaður möguleiki fyrir því, að iðnaðarskólarnir, þeir sem aðstöðu hafa til þess og á þeim stöðum, þar sem sérstök þörf er á, geti veitt fræðslu, verklega og bóklega, fyrir þá, sem við iðju fást.

Að vísu má segja, að það sé e.t.v. rétt að veita fulltrúum þeirra, sem iðju stunda, einhverja íhlutun um skólastjórnina í iðnskólum almennt. En þar sem þetta námskeið, sem gert er ráð fyrir að iðnaðarskólarnir veiti iðjufólki, er enn þá á byrjunarstigi og þar sem ekki er alveg séð fyrir nú, hvaða aðstöðu almennt iðnskólarnir, og sérstaklega iðnskólinn hér í Reykjavík, koma til með að hafa til þess að veita iðjufólki slíkt nám, þar sem ekki er enn þá séð fyrir, hvað mikið rúm og hvað góð aðstaða þarf að vera til þess að fullnægja þeim þörfum iðnaðarnemenda, þá tel ég eðlilegt, að það verði fyrst fengin reynsla um, hvernig það gengur með þeim aðstæðum, sem nú eru fyrir hendi í dag, að sjá iðnnemendum fyrir þörfum sínum um bóklegt og verklegt nám samkv. því frv., sem hér er lagt fram á þskj. 460, og síðan þoka því áfram að veita iðjufólki þá beztu mögulegu aðstöðu til náms við iðnaðarskólana. Sýni það sig, að sú aðstaða, sem þar er fáanleg, sé ekki nægileg, þá verður auðvitað að gera sérstakar ráðstafanir til þess að skapa betri aðstöðu því fólki, sem við iðju vinnur, Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki sérstaklega æskilegt til þess að koma góðu framtíðarskipulagi á þessi mál að veita þessum tveim aðilum, iðnaðarmönnum og iðjufólki, strax yfirstjórn iðnaðarskólanna. Ég tel eðlilegra, að þeir komist á fastari grundvöll sjálfir fyrst og síðan verði sú aðstaða, sem þar kann að vera til staðar, eftir að búið er að fullnægja þörfum iðnaðarmannanna, notuð til hins ýtrasta til að fullnægja þeim þörfum, sem iðjufólkið hefur.

Nú háttar þannig til, eins og ég gat um upphaflega, að þeir aðilar, sem þessi mál þekkja bezt, telja allmikla nauðsyn til þess, að löggjöf verði sett um þessi mál á þessu þingi, og þess vegna hef ég lagt til, að málinu verði ekki stefnt í voða með því að samþykkja mjög veigamiklar breytingar á þessu stigi, enda var hv. frsm. sömu skoðunar um nauðsyn þess, að málið næði fram að ganga. Hann lýsti því yfir, að hann mundi ekki greiða atkv. á móti frv. óbreyttu, þ.e.a.s., að hann mundi ekki greiða atkv. á móti frv., þó að allar brtt. meiri hl. hv. iðnn. Ed. yrðu felldar. Virðist mér þar fallizt á þau sjónarmið í stórum dráttum, sem minni hl. iðnn. hafði við afgreiðslu málsins í n., að láta sitja í fyrirrúmi nauðsyn þess, að málið nái fram að ganga á þessu þingi.