05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

94. mál, iðnskólar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég bjóst nú við, að það yrði eitthvað um þetta frv. sagt hér af hálfu hæstv. ríkisstj. eða flutningsmanna, þar sem það er aftur til þessarar d. komið frá Ed. og hefur tekið nokkrum breytingum í þeirri d., þó að þær séu ekki í sjálfu sér mjög stórvægilegar. Meginbreytingin þar mun vera sú, að iðnskólinn skuli nú heyra undir menntmrh., en ekki iðnmrh., eins og þessi d. hafði samþykkt.

Eins og menn muna, þá urðu nokkrar umræður um það hér í þessari hv. d., þegar málið var hér, hvort iðnskólar skyldu reknir sem dagskólar eða ekki. Greindi menn nokkuð á í því efni, og voru ýmsar till. uppi, en loks var það samþykkt, að iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla skyldu vera dagskólar, þó að nokkuð af kennslunni mætti fara fram að kvöldinu, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar gerðu það nauðsynlegt.

Við umræður um þetta mál í þessari hv. d. talaði hér einna síðastur hv. 5. landsk. þm. og lýsti því sem sinni skoðun, að hann skildi það svo, að þrátt fyrir þessi ákvæði frv. væri þó ætlunin og tilgangurinn með frv. sá, að iðnskólinn í Reykjavík skyldi verða dagskóli. Það var þó alveg tvímælalaust, að til þess er ekki ætlazt samkv. þessu orðalagi frv., enda er þessi breyting sett inn í frv. fyrst og fremst að tilhlutun skólastjórnar iðnskólans í Reykjavík, og er því ljóst, að ætlunin er, að iðnskólinn í Reykjavík verði rekinn með nokkuð svipuðu sniði hér eftir sem hingað til.

Nú voru bornar fram hér í þessari hv. d., bæði af mér og hv. 7. landsk. þm., óskir iðnnemanna sjálfra í þessu efni, þar sem þeir létu ótvirætt í ljós, að til þess að bæta iðnnámið og fullkomna það teldu þeir nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, að iðnskólar, helzt allir, en alveg sérstaklega iðnskólinn í Reykjavík, yrðu gerðir að dagskóla. Þessa máls og þessara óska iðnnemanna reyndi þessi bv. d. að skjóta sér undan að taka afstöðu til með þessu orðalagi á upphafi 6. gr.

Nú skal ég ekki að þessu sinni fjölyrða um þetta mál hér. Það var rætt allýtarlega, þegar frv. var hér til umr., og þess vegna óþarft að endurtaka það, sem þá var sagt. En ég vil leyfa mér að bera hér fram eina brtt. við þetta frv. Hún er að sjálfsögðu skrifleg og of seint fram komin, og vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þessari till. Tillagan er þannig, með leyfi hæstv. forseta, að upphaf 6. gr. orðist svo: „Iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla skulu vera dagskólar.“ Þetta er nákvæmlega eins og segir í frv. núna. En síðan komi: „Utan Reykjavíkur má þó nokkuð af kennslunni fara fram að kvöldinu, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar gera það nauðsynlegt.“ ,

Þessi till. felur það í sér, eins og hv. þm. sjá, að með henni er ákveðið, að iðnskólinn í Reykjavík skuli vera dagskóli, en öðrum iðnskólum og iðnnámsdeildum gagnfræðaskóla gefin heimild til að láta nokkuð af kennslunni fara fram að kvöldinu, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar gera það nauðsynlegt og óhjákvæmilegt.

Ég vænti þess fastlega, að þessi hv. d. geti fallizt á þessa málamiðlunartillögu, þar sem svo mikið er slegið af óskum iðnnema í þessu sambandi, að þess er aðeins farið á leit, að iðnskólinn í Reykjavík verði dagskóli, en allir aðrir iðnskólar og iðnnámsdeildir hafi heimild til að láta eitthvað af kennslunni fara fram að kvöldinu, ef öðru verður ekki við komið. — Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt.