05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

94. mál, iðnskólar

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um iðnskóla er komið frá Ed. eftir örlitlar breytingar, sem þar voru gerðar á frv., en engar eru veigamiklar. Frv. er því í aðalatriðum eins og það fór héðan eftir þá endurskoðun, sem frv. fékk í þessari hv. deild.

Hv. síðasti ræðumaður minntist hér aðeins á eina breytingu, sem var samþ. í Ed., en er að vísu ekki veigamikil, að iðnskólar skuli heyra undir menntmrn., en ekki iðnmrn., og það kemur til af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að það virðist vera stefnt að því að hafa allt skólakerfið undir menntmrn., og ég hygg, að það sé skynsamleg ráðstöfun. Í öðru lagi vegna þess, að iðnskólum er ætlað að vera deildir innan gagnfræðaskólanna, og þegar svo er komið, þá væri sama skólanum ætlað að heyra undir tvö rn. Það út af fyrir sig hlyti að fara illa og ekki eiga vel saman. Þessi breyting er sem sagt til komin af þessum ástæðum og hefur ekkert að segja í sambandi við lög um iðnskóla. Ég tel því, að frv. hafi í Ed. ekki á neinn hátt verið spillt og ekki breytt þar að neinu verulegu leyti frá því, sem þessi hv. d. vildi hafa það, þegar það var afgr. héðan.

Eins og hv. þm. muna, var frv. breytt nokkuð hér í d. frá því, sem það var, þegar það var fyrst lagt fram, og var komið til móts við vilja þeirra hv. þm., sem vildu stuðla að því, að iðnskólarnir væru gerðir að dagskólum. Það má því segja, að stefna frv. sé sú að gera iðnskólana að dagskólum. Og í 6. gr. segir beinlínis:

„Iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla skulu vera dagskólar. Þó má nokkuð af kennslunni fara fram að kvöldin, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar gera það nauðsynlegt.“

Með öðrum orðum: dagskólakennslan er orðin aðalatriðið, en kvöldkennslan er í heimildarformi, þar sem því verður ekki við komið að láta kennsluna fara fram að deginum til.

Hver vill nú afnema þessa heimild? Hver vill ekki hafa heimild til þess að láta kennsluna fara fram að kvöldinu, ef allar ástæður og aðstæður gera ómögulegt að láta kennsluna fara fram að öllu leyti að deginum? Og það er dálítið einkennileg sú till., sem hv. 8. landsk. flutti hér áðan. Hann vill hafa þessa heimild fyrir alla skóla utan Reykjavíkur, en hann vill ekki, að heimildin nái til iðnskólans í Reykjavík, enda þótt það sé vitað, að ekki er mögulegt að breyta þar um frekar en annars staðar alveg fyrirvaralaust, — eða hver heldur, að það væri mögulegt að breyta þannig um alveg fyrirvaralaust, að öll kennsla gæti farið fram að deginum til í iðnskólanum í Reykjavík næsta vetur? Þó að kennarar og skólastjóri og skólanefnd vildu allt gera, sem í þeirra valdi stæði í þessu efni, þá er áreiðanlegt, að það þyrfti lengri aðdraganda til að gera svo stóra breytingu. Það þarf að koma upp vinnustöðvum og verkstæðum í skólanum og þeim ekki litlum, ef öll kennsla ætti að fara þar fram að deginum til. Þetta er augljós staðreynd og þess vegna undarlegt, að hv. 8. landsk. þm. skuli ekki vilja lofa iðnskólanum í Reykjavík að hafa þessa sjálfsögðu og nauðsynlegu heimild eins og öðrum iðnskólum á landinu. Hvers vegna lætur ekki hv. þm. sér nægja, að það er stefna frv. — stefna laganna — að gera iðnskólana að dagskólum svo fljótt sem verða má, en að það er heimilt að láta kennsluna fara fram að kvöldinu, þar sem ekki eru möguleikar á því, að kennslan fari aðeins fram að deginum ?

Ég veit, að þessi hv. d. hefur ekki skipt um skoðun í þær þrjár vikur, sem liðnar eru síðan frv. fór héðan, og vænti þess vegna, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Ed.