29.04.1955
Neðri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

191. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. landbrh., að nægileg rök fyrir þessu frv. hafi verið flutt í nál. okkar í meiri hl. fjhn. og framsöguræðu hv. þm. V-Húnv. (SkG). En vegna þeirra ásakana, sem hér hafa komið fram frá þeim, sem eru í minni hl. fjhn., þá þykir mér ástæða til að bæta hér við örfáum orðum.

Starfsemi ræktunarsjóðs og hans verkefni er mikið mál, — svo mikið mál, að ég efast um, að allir hv. þm. hafi gert sér grein fyrir, hvað þar er um að ræða. Eftirsókn eftir lánum úr þessum sjóði hefur farið stórkostlega hraðvaxandi, og stafar það eðlilega af því, að það er meiri og meiri áhugi frá hálfu bændastéttarinnar fyrir því að tryggja varnir sínar gegn aðkomandi vandræðum með því að koma því til leiðar, að þeir geti stundað heyskap eingöngu á vélafæru, ræktuðu landi.

Síðastliðið ár voru veittar úr þessum sjóði milli 20 og 30 millj. kr., og á áramótum lágu óafgreidd lán upp á nokkrar milljónir. Hér er þess vegna um það stóra mál að ræða að útvega fé til þess, að þessi sjóður geti fullnægt þeirri þörf, sem um er að ræða. Og það verð ég að segja, að mér þykir það mjög ánægjulegt, ef fulltrúar stjórnarandstöðunnar hér á hv. Alþ. verða jafnöruggir í liðsinni við að útvega fé til þessa sjóðs eins og þeir nú láta, þegar um er að ræða vextina. Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að ég tel það miklu meira virði, að það sé hægt að fullnægja lánsþörfinni, heldur en það, að vextirnir séu hækkaðir eins og hér er gert ráð fyrir, um 11/2%, og er ég lít hér á till frá hv. 11. landsk. (LJós) um milljónarhækkun frá ríkissjóði í ræktunarsjóð til þess að mæta vaxtahallanum, þá efast ég ekkert um, að sú till. er flutt af fullum velvilja; ég þekki þann hv. þm. það. En þó að þessi till. væri samþykkt og kæmi í staðinn fyrir vaxtahækkunina, þá skapar það ekki að neinu leyti aukið fjármagn í sjóðinn, og ég tel, að það sé þess vegna miklu meira virði að tryggja aukið fjármagn í sjóðinn heldur en hitt, þó að vextirnir séu þetta hækkaðir.

Í þessu sambandi þykir mér ástæða til nú, þegar þessi frv. eru hér afgreidd, að minna á það, sem í mínum augum er miklu meira virði, en það er, að fyrr á þessu yfirstandandi Alþ. voru samþ. tvö frv. og lögð fram af hæstv. landbrh. um að framlengja tímann, sem ríkissjóður leggi til tryggingarsjóðs, nýbýlasjóðs og ræktunarsjóðs, úr 10 árum upp í 20 ár. Þessi ákvörðun var mjög þýðingarmikil fyrir þessa sjóði og fyrir landbúnaðinn í heild og miklu áhrifameiri en það, þó að það skilyrði fylgi nú, að vextirnir séu þetta hækkaðir. En vegna þess að á þessu ári eru horfurnar þannig, að það þarf að gera alveg sérstakar ráðstafanir, þó að þetta frv. verði samþykkt, til að útvega fjármagn, einkanlega í ræktunarsjóðinn, til þess að hann geti fullnægt sínu hlutverki, þá vil ég nú taka það fram, að ég samþykki þetta frv. alveg hiklaust og er ekkert hræddur við neinar ásakanir frá neinum mönnum um það, að ég sem bændafulltrúi sé að svíkja mína umbjóðendur, því að það óttast ég ekki neitt. Ég samþykki það hiklaust, en ég samþykki það í trausti þess, að hv. Alþ. allt og hæstv. ríkisstj. sjái um það, að á þessu ári og framvegis verði ræktunarsjóðnum útvegað það fjármagn, sem hann þarf til þess að geta annað því hlutverki, sem fyrir honum liggur. — Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða meira um þetta mál.