12.11.1954
Efri deild: 16. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

70. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég get látið nægja að fara örfáum orðum um þetta frv., því að rökin fyrir því eru í raun og veru nákvæmlega þau sömu og ég lýsti áðan um fyrra málið á dagskránni.

Samkv. lögunum um ræktunarsjóð leggur ríkissjóður árlega fram 1/2 millj. kr. til sjóðsins, og þetta var bundið við 10 ár eins og framlagið til byggingarsjóðsins. Hér er aðeins lagt til, að þetta framlag verði framlengt um önnur 10 ár.

Nú gefur að skilja, að þetta litla framlag, 1/2 milljón, hefur engin áhrif á getu ræktunarsjóðs til útlána, heldur er þetta lítils háttar stuðningur til þess að greiða vaxtamismun af því fé, sem ræktunarsjóðurinn lánar út, og aðeins þó lítilfjörlegur stuðningur. Samkv. lögunum lánar ræktunarsjóður út gegn 21/2% vöxtum á ári, og við vitum allir, hverjir venjulegir vextir eru nú af lánum í bönkum og annars staðar. En þar sem sjóðurinn hefur lánað út nú síðustu árin milli 10 og 20 millj., þá sjá allir, hve lítilfjörlegt í raun og veru þetta framlag er til þess að greiða þann vaxtamismun, sem þarna er um að ræða gegn lögboðnum vöxtum, eins og það er ákveðið á hinu háa Alþingi, og þess vegna þarf í raun og veru ekki að hafa annan rökstuðning fyrir því, að sjálfsagt sé nú að framlengja þetta fasta árgjald til ræktunarsjóðsins.

En ég vildi í sambandi við þetta aðeins geta þess, að kvaðir á sjóðinn um lánveitingar hafa farið miklu meir vaxandi en jafnvel bjartsýnustu menn um vaxandi framkvæmdir í sveitum hafa getað búizt við. Eins og verið hefur síðustu árin, þá hefur ræktunarsjóðurinn lánað á milli 10 og 20 millj. árlega. Hann lánar, eins og hv. alþm. vita, til útihúsabygginga, til ræktunar svo og til ýmissa annarra framkvæmda nokkuð, en þó sérstaklega til margvíslegra ræktunarframkvæmda, bæði hvað snertir sjálfa ræktunina og sömuleiðis skurðgröfuframkvæmdir og aðra framræslu. Nú í ár virðast framkvæmdir í sveitum, sem eiga rétt til lána úr sjóðnum, vera miklu meiri en nokkru sinni áður, þannig að það er hér um bil víst, að þær umsóknir, sem ræktunarsjóðurinn nú stendur gagnvart að leysa á þessu hausti fram að áramótum, eru einhvers staðar á milli 20 og 30 millj., sennilega ekki minna en 10 millj. hærri en nokkurn tíma hefur verið áður og mjög miklu hærri en Búnaðarbankinn sjálfur bjóst við í haust. Hann hefur því gert nýja áætlun nú, eftir því sem fram hefur komið í því, sem ég hef tekið fram.

Það liggur því auðvitað í hlutarins eðli, að þó að framlengd sé þessi litla fjárveiting, þá hefur það engin áhrif á útlánamöguleika ræktunarsjóðsins, heldur eingöngu til að létta lítils háttar undir með bankanum að greiða þann vaxtamismun, sem fram kemur. Og veit ég því, að það mun ekki vera meiningarmunur um að gera þessa breytingu á lögunum. Hitt verður svo sjálfsagt viðfangsefni þessa þings síðar, í öðru formi, að gera einhverjar ráðstafanir til þess að auka möguleika ræktunarsjóðsins til þess að geta lánað meira fé en nú virðist vera mögulegt. Þetta mál er til meðferðar í ríkisstj. nú, og ég get ekki farið að ganga nánar inn á það að þessu sinni, en þetta verður áreiðanlega eitt af þeim verkefnum, sem þetta Alþingi hlýtur að standa gagnvart og hlýtur að leysa að einhverju leyti, áður en því verður slitið.

Í hv. Nd. var gerð nokkur breyting á þessu frv., og sú breyting var gerð samkv. beiðni eða ábendingu frá mþn., sem starfað hefur í búnaðarþingi frá því í fyrra og hefur farið yfir jarðræktarlögin og er að ganga frá breytingum á þeirri löggjöf. Þessi breyting er í því fólgin, að vissar umbætur, sem jarðræktarstyrkur hefur verið greiddur á, hafa verið í lægri flokki hvað snertir lánsmöguleika heldur en þær framkvæmdir, þar sem enginn styrkur hefur verið veittur. T.d. má geta þess, að samkv. lögunum mun heimilt að veita út á fjós og fjárhús og aðrar slíkar framkvæmdir allt að 2/3 hlutum af kostnaðarverði eða matsverði byggingarinnar, en t.d. út á hlöður, sem fá lítilfjörlegan styrk samkv. jarðræktarlögunum, sem dregur ósköp lítið eins og nú er orðið, má aðeins lána 30% af matsverði þeirra, og eins er um nokkrar aðrar framkvæmdir. Þetta þykir óeðlilegt, og mþn. búnaðarþingsins hefur lagt til, að þessu yrði breytt, þannig að þessar framkvæmdir mættu njóta allt að 60% af kostnaðarverði eða matsverði framkvæmdarinnar, en þó yrði frá því dreginn sá styrkur, sem veittur hefði verið út á byggingarnar.

Hv. Nd. hefur fallizt á þessa breytingu, og þess vegna er hún nú í þessu frv., sem hér liggur fyrir hv. Ed. Ég veit, að sumir telja, og þar á meðal starfsmenn Búnaðarfélagsins, að það kunni að vera dálítið erfitt að koma þessu fyrir á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, svo að ekki orki tvímælis, að rétt sé að farið gagnvart lögunum. Landbn. þessarar hv. d. mun þá athuga það atriði sérstaklega í sambandi við athugun hennar á frv.

Annað sé ég ekki ástæðu til að taka fram varðandi frv., eins og það hér liggur fyrir, en vil leyfa mér að óska eftir, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari og til hv. landbn.