05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

191. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Við getum sagt, að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, séu fjórar breytingar á því fyrirkomulagi, sem aðallega gilti áður.

Fyrsta breytingin er sú, að breytingin, sem við gerðum í vetur á lögunum um ræktunarsjóðinn og voru lög nr. 101 frá 10. des. 1954, hefur verið tekin upp í þetta frv. Þetta hefur verið gert í Nd., og við erum samþykkir þessu hér í Ed. Ég hef oft áður látið það álit mitt í ljós, að ég teldi mjög óheppilegt, að sama þingið samþykkti með tveimur lögum breyt. á sömu eldri lögum. Hér verður það ekki, lögin verða aðeins ein; þau fyrri eru hér með felld úr gildi. Önnur breytingin er sú, að í frv. í vetur var gert ráð fyrir því, að lán og styrkur úr ræktunarsjóði mættu vera allt að 60% af kostnaðarverði viðkomandi jarðarbótar. Síðan hefur það skeð, að hækkaður hefur verið styrkurinn á skurðgröfuskurðina sérstaklega og þeir þar með ekki getað komið til greina til lántöku við Búnaðarbankann. Þessu er þarna breytt og leyft, að þegar skurðgrafnir skurðir eiga í hlut, megi lánin vera allt að 85% af kostnaðarverðinu, sem þýðir, að þá yrði lánið raunverulega 20%.

Þriðja breyt. er sú, að útlánsvextir úr sjóðnum eru hækkaðir úr 21/2% í 4%, og er það gert af tveimur ástæðum, þeirri annarri, að vaxtafótur í landinu er gerbreyttur frá því, sem hann var, þegar þessir 21/2% vextir voru ákveðnir, og hins vegar, að ræktunarsjóðurinn hefur orðið að taka lán til að fullnægja lánsþörfinni nokkurn veginn, og það eru lán með miklu hærri vöxtum. Til þess þess vegna að reyna að stuðla að því, að vaxtamismunurinn verði ekki eins mikill, eru vextir hækkaðir.

Þrátt fyrir það eru þau lán, sem ræktunarsjóðurinn hefur orðið að taka og lánað síðan aftur út með 21/2%, það há, að ekki eru neinar líkur til þess nú þegar og enn þá síður þegar lengra líður, að hann geti greitt vaxtamismuninn af eigin fé. Þess vegna er það framlag, sem ríkissjóði er ætlað að leggja bankanum, sem var 1/2 millj. á ári, hækkað upp í 1.6 millj. Með því er nokkurn veginn sýnt, að bankinn fyrst um sinn og eitthvað næstu árin getur staðið undir vaxtamismuninum.

Þetta eru þær breytingar, sem í þessu frv. felast, og n. er öll sammála um að leggja til, að það verði samþykkt.