03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

143. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, verður heilmikill lagabálkur, ef það öðlast samþykki þingsins, og væri auðvitað hægt að flytja alllanga ræðu til skýringar hinum einstöku greinum og efni frv. yfirleitt, en ég tel alveg óþarft að tefja tímann með slíku. Hæstv. menntmrh. skýrði málið nokkuð, þegar hann lagði það hér fyrir hv. d., og auk þess fylgja frv. mjög ýtarlegar athugasemdir, sem eru frá þeirri n., sem samdi frv., og finnst mér, að um almennar ástæður fyrir frv. og einstök atriði, sem n. sér ekki sérstaka ástæðu til að gera athugasemd við, nægi að vísa til þessa.

Eins og kunnugt er, var það svo áður fyrr, a.m.k. eftir að kom fram á síðari hluta 18. aldar, að þó að skólar væru ekki til í landinu, aðrir en þeir, sem nú er kallað menntaskólar, þá er þó talið, að alþýðumenntun hafi verið a.m.k. eins mikil og í flestum öðrum löndum, og er enginn vafl á því, að orsök þess er sú, að Íslendingar voru bókhneigð þjóð og margir sóttu mikinn fróðleik og menntun í bækur.

Tilgangur þessa frv. er auðsjáanlega sá, að allir landsmenn geti haft aðgang að verulegum bókakosti, þó að ástæður þeirra séu þannig, að þeir sjái sér ekki fært að kaupa mikið af bókum. Og þrátt fyrir alla skóla, sem nú eru komnir, þá mun það vera áreiðanlegt, að menn njóta ekki skólalærdómsins lengi. Hann vill gleymast, ef andinn er ekki smám saman auðgaður með bókalestri. Þess vegna er það, að menntmn., sem þessu frv. var vísað til, vill mæla með því með lítils háttar breytingu.

Undir meðferð málsins í menntmn. ræddi hún m.a. við fræðslumálastjóra og Guðmund Gíslason Hagalín prófessor, sem var formaður þeirrar n., sem undirbjó málið, og fékk hjá þeim ýmsar upplýsingar.

Það mun leiða nokkurn kostnað af samþykkt þessa frv., og því miður get ég ekki alveg sagt um það og sennilega enginn upp á krónu, hvað sá kostnaður verður mikill, en þegar þess er gætt, að styrkir, sem einstök bókasöfn hafa nú á fjárlögum, ættu að falla niður, þegar þetta frv. er samþykkt, þá mun mega gera ráð fyrir því, að árlegur kostnaður af samþykkt þessa frv. verði fyrst um sinn alls ekki yfir 1/2 millj. kr.

N. gerir 3 brtt. við frv., en þær eru ekki stórvægilegar, og tvær af þeim mega hreint og beint skoðast sem leiðréttingar.

1. brtt. n. á þskj. 419 er leiðrétting við 2. gr. frv. Þar stendur undir 4. tölul., þegar bókasafnshverfin eru talin upp: Akranes og þrír syðstu hreppar Borgarfjarðarsýslu. Nú eru fjórir hreppar í Borgarfjarðarsýslu sunnan Skarðsheiðar, sem munu hafa miklu meiri samgöngur við Akranes en Borgarnes, og þess vegna leggur n. til, að í staðinn fyrir „þrjá“ í þessum lið komi fjórir og svo tilsvarandi orðabreyting í næsta lið.

2. brtt. n. er einnig aðeins leiðrétting. Henni virtist tilvitnun í 11. gr., sem er þar innan sviga, vera röng. Þar er vitnað til 13. gr., en n. virtist, að þar ætti að vitna til 12. gr.

Síðustu brtt., við 27. gr., má frekast skoða sem efnislega till., þó að hún sé ekki heldur neitt stórvægileg.

Í 27. gr. frv. er svo ákveðið, að það opinbera láti hverju bæjar- og héraðsbókasafni í té eitt eintak af ýmiss konar opinberum ritum, eins og Alþingistíðindum, Stjórnartíðindum, skýrslum hagstofunnar, lagasafni, hæstaréttardómum, skólaskýrslum, Lögbirtingablaðinu, prentuðum nál. mþn. og öðrum opinberum skýrslum og ritum, sem ríkið og stofnanir þess gefa út. Síðar í gr. er svo sú skylda lögð á bókasöfnin að láta binda öll þessi rit.

Fyrr í frv. er minnzt á bókband og bókasöfnunum ætlað yfirleitt að láta binda bækur þær, sem þau fá, en þó ekki svo tvímælalaus og undantekningalaus skylda lögð á þau í því efni eins og er um hin opinberu rit í 27. gr.

N. sér ekki ástæðu til þess að leggja svo ríka skyldu á um að binda öll þessi rit, og leggur því til, að á eftir orðunum í 27. gr. „Skal bókasöfnum sent þetta þeim að kostnaðarlausu, en skylt er að láta binda öll slík rit“ verði bætt inn í: „eftir því sem við verður komið“. Sum af þessum ritum eru heft inn í allgóðar kápur, svo er t.d. um skýrslur hagstofunnar ýmsar, en á hinn bóginn nota þær mjög fáir, það er óhætt að fullyrða, og telur n., að það mundi vera alveg óhætt, a.m.k. ef fjárþröng væri, að geyma slík rit í heftunum. Ýmislegt fleira af þessu er þannig, að mjög er vafasamt, hvort leggjandi er í kostnað við að binda. Mér dettur í hug Lögbirtingablaðið í því sambandi. Lögbirtingablaðið er auðvitað góð heimild um ýmislegt. En ég veit ekki, hvort hefur verulega þýðingu, að það sé til bundið í hverju héraðsbókasafni, því að vitanlega tapar Lögbirtingablaðið gildi sínu eins og önnur blöð fyrir almenning jafnóðum.

Þessar breytingar einar leggur n. til að gerðar séu á frv. við þessa umr.

Þá vil ég gera fáeinar athugasemdir út af frv. enn, þó að n. beri þar ekki fram neinar brtt.

Í 18. gr. frv. segir svo: „Hætti félagssamtök þau, sem um getur í 15. gr.“ — þ.e.a.s. lestrarfélög og önnur félög, sem hafa bókasafn — „að reka sveitarbókasafn eða vanræki það, er hlutaðeigandi sveitarstjórn skylt að taka það í sínar vörzlur og reka það samkvæmt lögum þessum.“ N. telur ekki annað en sjálfsagt, ef þetta kemur fyrir, að t.d. lestrarfélag hættir að starfa, að þá sé sveitarstjórninni út af fyrir sig skylt að taka við bókasafninu, ef henni er afhent það. En hún vill ekki leggja þann skilning í þessa gr., og það vil ég taka skýrt fram, að þessu fylgi skylda lestrarfélags eða annars félagsskapar, sem hefur haft sveitarbókasafn, að afhenda það sveitarstjórn, þó að félagið leggist niður, og ég er ekki alveg sannfærður um, nema slíkt kunni jafnvel að koma í bága við sjálfa stjórnarskrána, því að vitanlega er sveitarbókasafn, sem rekið er og rekið hefur verið af lestrarfélagi eða öðrum slíkum félagssamtökum, eign þessa félags og þar með einstaklinganna, sem í félaginu eru, og félagið kann að vilja ráðstafa bókasafninu á annan hátt en þennan. Það getur meira að segja verið ákveðið svo í lögum slíks félags, hvað við bókasafnið skuli gera, ef félagið leggst niður. Verði ekki þessum skilningi n. neitt mótmælt, þá tel ég og n. ekki neina ástæðu til að bera fram brtt. út af þessu.

Á nokkrum stöðum er minnzt á bókafulltrúa og honum ætluð ýmis störf, án þess að nánar sé tiltekið, hvers konar embættismaður þetta sé, fyrr en í 29. gr. frv., og þar er sérstakur kafli um bókafulltrúa, sem þó er ekki nema ein gr.

N. er ekki fyllilega ljóst, hvernig starfi þessa bókafulltrúa á að vera háttað. Í frv.-greinunum, þar sem hann er nefndur fram að V. kafla, er ekki annað hægt að sjá en að hér sé talað um sérstakan embættismann, sem ber titilinn bókafulltrúi. En í gr., sem sérstaklega fjallar um hann, segir, að menntmrh. skuli skipa sérstakan bókafulltrúa í skrifstofu fræðslumálastjóra. Virðist n. það dálítið óákveðið, hvort heldur hér er um sérstakan embættismann að ræða eða aðeins fulltrúa fræðslumálastjóra, og vildi ég beina fyrirspurn um það til hæstv. menntmrh., hvernig beri að skilja þetta. Sé átt við, að þessi starfsmaður eigi að vera fulltrúi fræðslumálastjóra og þá væntanlega vinna ýmis störf önnur í fræðslumálaskrifstofunni, sem sennilega væri hægt að koma við, þá virðist vafamál, hvort í frvgr., þar sem bókafulltrúi er nefndur, ætti ekki að standa: fræðslumálastjóri eða fulltrúi í umboði hans. En ef á að líta á þetta þannig, að um sérstakan embættismann sé að ræða, þá er dálítið einkennilegt ákvæðið um það, að hann skuli starfa í skrifstofu fræðslumálastjóra. Er hér aðeins átt við húsnæði, eða hvernig á samband fræðslumálastjóra og bókafulltrúa að vera? Að fengnum svörum við þessu getur vel verið, að n. taki þetta til athugunar.

Í frv. er ekki ákveðið um það, hvenær l. eigi að taka gildi, en þó er gert ráð fyrir aðgerðum samkvæmt þeim fyrir júnílok 1955. Það er venja að setja í l., hvenær þau öðlist gildi, þó að þess þurfi ekki, því að það eru ákveðnar reglur um það, hvenær l. öðlast gildi eftir staðfestingu, en oftast mun það sett í l. sjálf. Auk þess kynnu að vera fleiri ástæður til þess að ákveða það í þessu frv. N. mun því taka það atriði til athugunar fyrir 3. umr., þó að hér liggi engin brtt. fyrir um þetta.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég vekja athygli á fskj. með nál. á þskj. 419, þar sem menntmrn. leiðréttir eitt atriði í greinargerð frumvarpsins.