03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

143. mál, almenningsbókasöfn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég sé, að hv. menntmn. hefur skilað hér allýtarlegu nál. á þskj. 419 um þann mikla lagabálk, sem hér er nú til umr., og leggur til í höfuðatriðum, að frv. sé samþ. með sáralitlum breytingum. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda hér aðeins á einstök atriði og spyrjast fyrir um það, hvort hv. n. og hæstv. ráðh. hafa athugað þau atriði, sem ég mun minnast hér á og hafa þær afleiðingar, sem ég mun benda á.

Í 3. gr. frv. eru teknir upp þeir staðir, þar sem héraðsbókasöfn eiga að vera. Einn af þeim er Reykhólar. Hér er þó ekki fylgt þeirri reglu, sem gert er ráð fyrir í 7. gr., að það séu aðeins staðir, sem teljast kaupstaðir eða kauptún. Á Reykhólum er ekkert kauptún og engin líkindi til þess, að það verði þar fyrst um sinn. Enn fremur má segja það sama um Búðardal. Er því vafasamt, hvort þessir tveir staðir hefðu ekki átt að flokkast undir II. kafla, þ.e. undir ákvæði um sveitarbókasöfn og lestrarfélög, með tilliti til þess fjölda, sem er í viðkomandi hreppum. Hvað Reykhóla snertir, þá er sýnilegt, að af þessu bókasafni geta ekki aðrir haft not, fremur en af öðrum sveitabókasöfnum, en þeir fáu menn, sem á Reykhólum búa, sem er ekki yfir 100 manns, og þykir mér óeðlilegt, að af þeim hreppi sé tekið 15 kr. framlag á hvern íbúa, eins og ætlazt er til með 7. gr. Sama mætti og segja um Búðardal. Vildi ég aðeins með þessu benda á, að mér finnst vera hér ósamræmi, því að það kemur sýnilega fram í 7. gr., að ætlazt er til, að sett verði upp héraðsbókasöfn einungis þar, sem um kauptún er að ræða. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að t.d. í Suðurfjarðahreppi er kauptún, sem í er nærri 400 manns. Þar er ekki sett upp neitt héraðsbókasafn, og hafa þó bæði Suðurfjarðahreppur og Dalahreppur miklu betri aðgang að bókasafni á Bíldudal en Reykhólahreppur gæti haft að bókasafni á Reykhólum.

Þá vildi ég einnig spyrja, hvort það hefði verið athugað gaumgæfilega, hvort rétt sé að ákveða 15 kr. á íbúa, án þess að vita um vilja þeirra manna, sem eiga að greiða þetta gjald, þar sem hér er um að ræða allverulegan nýjan skatt á sveitarsjóðina, sem kvarta þó mjög undan því, að Alþingi sé jafnan að leggja á sveitarfélögin nýja skatta án þess samtímis að gera þeim kleift að fá nýja tekjustofna. Þarf ég ekki að ræða það mál ýtarlega, því að hv. þm. er mjög kunnugt um þau atriði. Ég hef sem umboðsmaður þessara aðila, sem hér um ræðir, ekki haft neitt tækifæri til þess að ræða um það við þá, sem nú eru settir í þá aðstöðu að verða að innheimta 15 kr. á hvern íbúa, gamlan og ungan, og þykist því ekki hafa umboð til þess að segja um á þessari stundu, hvort ég vil vera með að samþ. þennan nýja skatt, nema því aðeins að það séu gerðar einhverjar ráðstafanir til þess, að þeir geti fengið tekjustofn á móti. Þetta er vitanlega ekki stór fjárupphæð, en það nemur þó upp undir 15 þús. kr. nýjum útgjaldalið á stað eins og Patreksfirði. Þetta vildi ég einnig benda á, og ég vildi þá um leið biðja n. að athuga og einkum og sérlega hæstv. ráðherra, hvort það sé gerlegt að lækka þessa upphæð á þessu stigi eða hvort það sé haldið fast við það, að hún sé sett inn í lögin eins og hún nú er í 7. gr.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að benda á, að í Flateyjarhreppi er nú eitthvert elzta og merkasta bókasafn landsins. Þar mun vera einhver bezti bókakostur af öllum þeim lestrarfélögum, sem eru a.m.k. í sveitahéruðum. Þetta safn hefur haft styrk úr ríkissjóði undanfarin ár, ákveðna upphæð, sem er eitthvað um 1250 kr. Eftir ummælum hv. frsm. geri ég ráð fyrir, að þetta falli niður. Þó er það ekki beinlínis tekið fram í frv., og er að sjálfsögðu heimild fyrir hv. Alþingi að ákveða að halda áfram öllum þeim styrkjum á fjárl. eins og gert er nú, jafnvel þó að þessi lög gangi í gildi.

Ég var að bera saman, hvernig þetta mundi koma út hjá þessum hreppi, ef lögin yrðu samþ. Sýnist mér, að með þeirri fólkstölu, sem er í hreppnum nú, mundi styrkurinn frá ríkissjóði verða nokkurn veginn sá sami, ef þeir væru látnir greiða 5 kr. á mann, með þeirri tölu íbúa, sem þar er. Hins vegar er hin nýja kvöð sett á, að þeir greiði á móti jafnháan styrk og látinn er frá Alþingi, sem aldrei hefur verið fyrr, og ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga, vegna þess að upphæðin er ekki svo há, þar sem aðeins er um 5 kr. að ræða á hvern íbúa, þótt ástandið þar sé slíkt, að íbúarnir séu Alþingi ekki neitt þakklátir fyrir nýjar álögur. Hér flytur fólk burt í hrönnum úr hreppnum. Þar sem áður var um 500 manns, er nú aðeins um 200, og ef það heldur áfram, m.a. vegna tregðu hv. Alþingis um að stöðva þann flutning, þá er sýnilegt, að einnig framlagið til þessarar stofnunar þar, sem er eitt af elztu og merkustu bókasöfnum í landinu, muni alveg hverfa eða svo að segja hverfa. Munu þá þeir, sem eftir kunna að verða, varla megna að starfrækja það hús, sem þeir nú hafa byggt fyrir safnið og er mjög myndarlegt og vel frá gengið að öllu leyti. Þetta vildi ég aðeins biðja hv. n. að athuga.

Ég skal svo ekki að öðru leyti ræða þetta mál. Ég mun fylgja málinu til 3. umr., jafnvei þó að ekki verði gerðar neinar breytingar á því, en hins vegar geyma mér rétt til þess að bera fram brtt. um þessi atriði, ef ekki skyldu koma um það brtt. frá n. Ég sé, að á fjárl. á yfirstandandi ári eru 346300 kr. veittar til hinna einstöku bókasafna í landinu. Það hefði verið fróðlegt að sjálfsögðu fyrir hv. þd. að fá nánari upplýsingar um það, hversu mikið fé þetta frv., ef að lögum verður, kemur til að kosta ríkissjóð fram yfir þær 346 þús. kr., sem nú eru á fjárl., og þá einnig, hvort hugsað er að láta þá upphæð falla niður.

Skal ég svo að öðru leyti ekki ræða málið meira á þessu stigi.