03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

143. mál, almenningsbókasöfn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka hér til máls aftur, en út af einstökum atriðum, sem komu hér fram, þykir mér rétt að segja hér nokkur orð.

Hæstv. dómsmrh. gat þess, að það væri engin ástæða til þess að fresta samþykkt þessa máls vegna þess gjalds, sem ákveðið er í frv. og ég ræddi um. Út af þessu vil ég segja, að það var ekki till. mín út af !fyrir sig. að málinu yrði frestað og sent til umsagnar þess vegna. Ég benti aðeins á, að á þessu stigi málsins væri ég ekki fær um að taka afstöðu til þess, fyrr en ég hefði rætt við viðkomandi aðila.

En í sambandi við þetta vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., af því að ég sé ekki, að það sé tekið ákveðið fram í frv.: Hvaða viðurlög liggja við því hjá hreppsnefnd eða hreppsnefndum að greiða ekki það gjald, sem innt er hér af hendi? Ég sé ekki annað en að það geti verið þau einu viðurlög, að þeir aðilar fái ekki styrkinn. Ég sé ekki, að það sé neitt ákvæði um það í frv. hér, á hversu hátt ríkissjóður ætlar sér að innkalla þessi gjöld, eða hvaða viðurlög eru við því, ef þetta er ekki framkvæmt eins og l. ákveða. Sé það rétt skilið hjá mér, að það verði einu viðurlögin, að þeir fái ekki styrkinn úr ríkissjóði, þá er það á þeirra valdi sjálfra síðar meir, hvort þeir vilja nota þennan rétt, sem þeim er gefinn með 3. og 7. gr. laganna.

Mér finnst einnig, að það ætti vel að geta komið til greina, að í staðinn fyrir að fyrirskipa um þetta hér sé gefin heimild til þess að stofna héraðsbókasöfn, eins og hér er talað um, en það sé ekki fyrirskipun; þá ráða mennirnir því sjálfir.

Mér finnst einnig, að í Il. kafla ætti að vera heimild til þess, að tveir hreppar mættu sameinast um eitt bókasafn. Ég skal koma með dæmi.

(Gripið fram í.) Jú, það er rétt, enda er það alveg nauðsynlegt, vegna þess að það getur risið svo mikill kostnaður í sambandi við svona stofnanir, að ekki sé hægt fyrir fátæka hreppa að standa undir því.

En sé það réttur skilningur minn, að engin viðurlög séu önnur en þau, sem ég hef þegar minnzt á, að það sé hætta á því, að þeir geti ekki fengið styrkinn, þá geta þeir náttúrlega sjálfir ráðið því, hvort þeir kjósa heldur að setja upp bókasafn, eins og ákveðið er í l., eða þá að missa framlagið úr ríkissjóði.

Hvað snertir þá athugasemd, sem hv. frsm. gerði um Reykhóla, þá vil ég leyfa mér að henda honum á, að í 7. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Úr bæjarsjóði kaupstaðar eða hreppssjóði kauptúns, þar sem safnið er staðsett, skal greiða safninu eigi minni fjárhæð en sem svarar 15 kr. á íbúa kaupstaðarins eða kauptúnsins.“

Nú er það vitanlegt, að Reykhólar eru ekki kaupstaður og ekki heldur kauptún. Ef þar verður sett niður héraðsbókasafn samkvæmt 3. gr., verður þá þetta gjald, 15 kr., látið gilda fyrir þann stað? Ef það er hugsunin, þá er æskilegt, að það kæmi beint fram í frv., að þetta gilti um hvern þann stað, þar sem héraðsbókasafn er sett niður, hvort sem það stendur í sveit eða í kaupstað eða kauptúni. Eins og gr. er ákveðin nú, mætti kannske skilja, að það ætti að setja upp héraðsbókasafn á Reykhólum, en það safn fengi þó engan veginn rétt samkv. 7. gr., enda mætti ekki leggja önnur gjöld á íbúana en samkvæmt II. kafla.

Einnig segir í 11. gr.:

„Í hverju sveitarfélagi utan þeirra kauptúna, þar sem héraðsbókasafn er starfandi, skal vera sveitarbókasafn.“

Mér finnst, að hér rekist á nokkuð í þessum tveimur gr., og vildi ég einmitt hafa bent á þetta atriði, og það þóttist ég hafa gert í minni fyrri ræðu, þó að það hafi þá ekki verið það skýrt, að hv. frsm. hafi skilið það.

Ég vil síður en svo hafa nokkuð á móti því, að héraðsbókasafn sé sett upp á Reykhólum, en ég vil, að þessi ákvæði séu alveg skýr. Ég hygg, að þetta gildi einnig um Búðardal og kannske einhverja aðra staði á landinu, en það gildir a.m.k. um Reykhóla. Mér sýnist ekki, að það sé nægilega skýrt í frv., eins og það er nú, hvaða gjald slíkur staður ætti að greiða, fyrr en hann er orðinn það fjölmennur, að hann geti talizt kauptún.

Þá vildi ég einnig spyrja hv. frsm. að því, hvernig skilja beri 22. gr. Þar stendur: „Heimilt er að stofna og reka bókasöfn með styrk af opinberu fé í heimavistarskólum (barnaskólum og framhaldsskólum), ef ekki er sveitar-, bæjar- eða héraðsbókasafn á staðnum, svo og í sjúkrahúsum.“ Ber þetta að skilja svo, að ef heimavistarskóli er á stað, þar sem er annaðhvort sveitarbókasafn eða héraðsbókasafn, þá fái ekki sá skóli neinn styrk til síns bókasafns? Nú er það alveg vitað, að fjöldamargir skólar hafa bókasöfn, þó að bókasafn sé í hreppnum. Ég geri t.d. ráð fyrir því, að húsmæðraskólinn á Staðarfelli eigi eitthvert bókasafn og haldi því áfram, jafnvel einnig í Hrútafirði. Er þá hugsað, að þessir skólar fái ekki neinn styrk fyrir sín bókasöfn, eftir að l. eru komin í gildi og bókasafn hefur verið sett upp í héraðinu, annaðhvort sem héraðsbókasafn eða sveitarbókasafn? Þetta fyndist mér að væri rétt að athuga.

Þá er einnig sagt hér í 25. gr., að „öll almenningsbókasöfn, sem styrks njóta samkvæmt lögum þessum, skal geyma í góðum, rakalausum húsakynnum“. Ég veit ekki, nema það sé eðlilegt, að þessi krafa sé gerð, en þessi krafa hlýtur að hafa allmikil útgjöld í för með sér. Mér er það alveg ljóst, að í langflestum sveitarhéruðum á landinu eru þessi bókasöfn ekki geymd á stöðum, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem hér er sagt í þessari gr., og mundi tvímælalaust kosta allmikið fé að koma bókasafninu í þau húsakynni, sem l. ákveða, auk þess sem mér finnst ekki óeðlilegt, að það væri gert líka að skilyrði, að bókasafnið skyldi vátryggt, en um það er ekkert sett í frv. Þetta eru nokkrar ábendingar, er ég vildi skýra frá, úr því að ég tók til máls á annað borð.

Hvað snertir 3. brtt. á þskj. 419, við 27. gr., þá sýnist mér, að athuguðu máli, að hún sé alveg óþörf; ef gerðar eru á annað borð nokkrar breytingar á 27. gr., þá sé alveg óþarft að gera hana eins og n. leggur til, því að í 2. málsgr. 25. gr. stendur alveg ákveðið: „Allar bækur þeirra skal binda í traust band, jafnóðum sem því verður við komið.“ Og það er nákvæmlega sama fyrirskipunin og nú er lagt til að verði í 27. gr. samkvæmt þingskjalinu. Ég vildi aðeins benda á þetta, úr því að ég fór að ræða frv. almennt.

Það er sýnilegt, að hæstv. ráðh. hefur ætlazt til þess með 27. gr., að það væri skylt að láta binda öll slík rit og varðveita þau, þ.e.a.s. þessi ákveðnu rit, sem þar er um rætt, og er það alveg óháð ákvæðum 25. gr. En þegar búið er að breyta því svo sem n. leggur til, þá er það orðið sama ákvæðið og kveðið er á um í 25. gr., og falla þá alveg eins þessar sérstöku bækur undir það ákvæði og aðrar bækur, sem safnið á, svo að mér sýnist, að það sé alveg óþarfi að samþ. till. eins og hún liggur fyrir hér frá nefndinni.

Ég vil svo að síðustu mega spyrja hæstv. ráðh. að, hvort það sé ekki eðlilegra, að bókafulltrúi og þessi nýja stofnun heyri undir landsbókasafnið en undir fræðslumálastjóra, og hvort það sé ekki hægt að sameina þetta starf meira og betur í sambandi við þá starfsemi, sem þar er rekin, og með minni kostnaði fyrir ríkissjóð en að fara að stofna hér nýtt embætti við fræðslumálaskrifstofuna. Mér finnst það vera skyldara þeirri stofnun. Þetta er að vísu aukaatriði, en ég vildi þó hafa bent á, að það sé skyldara þeirri stofnun en fræðslumálaskrifstofunni.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða frekar um málið, en er að sjálfsögðu þakklátur hv. frsm. n. fyrir að vilja ræða við mig um hin einstöku atriði, sem við koma Barðastrandarsýslu.