25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

143. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er stefnt að því að koma á heildarskipulagi um starfsemi bókasafna í landinu.

Bókasöfnum hefur að undanförnu verið veittur nokkur fjárhagslegur stuðningur, bæði með hluta af skemmtanaskatti, sem varið hefur verið til þess að styrkja lestrarfélög og hreppabókasöfn í sveitum, og enn fremur með nokkrum fjárveitingum í 15. gr. fjárl. til héraðsbókasafna.

Sú starfsemi, sem lestrarfélögin hafa haft með höndum, hefur á undanförnum árum fylgt ákveðnum reglum, þar sem sett voru lög um þau efni á árinu 1937, að ég ætla, og þeim lögum hefur verið fylgt hátt á annan áratug. En þegar litið er til héraðsbókasafnanna, þá gegnir öðru máli, að um starfsemi þeirra og skipan hefur ekki verið heildarlöggjöf, og er nú stefnt að því með þessu frv. að setja slíka löggjöf.

Íslenzka þjóðin hefur öldum saman verið bókhneigð, og arfleifð þjóðarinnar er að miklu leyti bundin við bóklega menningu. Það getur því ekki leikið á tveim tungum, að það sé rétt stefna að hlynna að starfsemi bókasafna í landinu og efla þau, og að því leyti stefnir frv. í rétta átt. En með þessu frv. er um nýtt skipulag að ræða, þar sem landinu er skipt í ákveðin bókasafnshverfi, og um einstök atriði málsins getur vitanlega orkað tvímælis, hvort rétt er að fylgja nákvæmlega ákvæðum frv. eða haga þeim nokkuð á annan veg.

Fram kom í n. það sjónarmið, að einstök atriði í 2. gr. frv. um skiptingu landsins í bókasafnshverfi kynnu að orka tvímælis. Til dæmis kom sú skoðun fram hjá borgarstjóranum í Reykjavík, á meðan hann gat tekið þátt í störfum n., að Reykjavík væri svo stór kaupstaður, að það væri mikið álitamál, hvort það væri rétt að hafa Kjósarsýslu í sama bókasafnshverfi. Það getur líka verið álitamál, hvort Seyðisfjörður, Vopnafjörður og Skeggjastaðahreppur í Norður-Múlasýslu eiga alls kostar samleið í þessum efnum vegna þess, hve sú byggð er víðáttumikil og samgöngur þar á milli ekki svo góðar sem æskilegt væri, a.m.k. þegar litið er til samgangna á landi.

Í annan stað eru með þessu frv. lagðar nýjar skyldur á hreppsfélögin, bæjarfélögin og sýslurnar um nokkru hærri fjárframlög til bókasafna en verið hefur. Sá munur er þó ekki mjög mikill, að því leyti sem tekur til lestrarfélaganna í sveitunum, en munurinn á útgjaldaaukningunni er mestur í kauptúnum og öðrum hreppum, þar sem héraðsbókasöfn eiga að vera staðsett.

Í þriðja lagi má á það benda, að með þessu frv. er gert ráð fyrir breytingu á eignaryfirráðum safnanna, bæjarbóka- og héraðsbókasafnanna. Það mun vera svo nú, að bæjarbókasöfnin eru eign bæjarfélagsins, sem í hlut á, og lúta beint stjórn bæjarstjórnarinnar, en í 6. gr. þessa frv. er ákveðið, að hvert bæjar- og héraðsbókasafn skuli vera sjálfseignarstofnun undir yfirstjórn hlutaðeigandi bæjarstjórnar, en sérstök stjórn, sem kosin er fyrir safnið, skal þó sjá um málefni þess.

Enn má á það benda, að þrátt fyrir þann stuðning, sem veittur hefur verið samkvæmt l. um lestrarfélög, hafa ekki öll hreppsfélög í landinu sett á stofn sveitarbókasöfn. Hreppsfélögunum hefur verið það í sjálfsvald sett, hvort þau hafa komið upp slíkum söfnum eða ekki. Þeim hefur verið veittur rétturinn til hins fjárhagslega stuðnings samkvæmt lögum, en á þeirra herðar hefur ekki verið lögð skylda til þess að setja á stofn slík söfn. Með þessu frv. er ætlazt til þess, að hverjum hreppi verði lögð skylda á herðar í þessu efni. Nú munu vera 29 hreppsfélög, sem þannig er ástatt um, að þau hafa ekki enn þá komið á fót sveitarbókasafni, en hljóta að gera það samkvæmt þeim l., sem á að setja samkvæmt þessu frv. Þessir hreppar eru dreifðir um landið, en í Árnessýslu munu þó vera 6 hreppar, sem þannig er ástatt um, og í Snæfellsnessýslu 5 hreppar.

Út af þessum atriðum kom það sjónarmið fram í n., að ástæða væri til þess að senda þetta mál til umsagnar heim í bæjarfélögin og sýslurnar, áður en það yrði endanlega lögfest á Alþ., og virtist n., að hægt væri að koma því við án þess að valda tilfinnanlegum töfum um afgreiðslu málsins á þann hátt, að málið hefði verið sent til umsagnar nú í vor og sumar og síðan tekið upp í haust að þeim umsögnum fengnum og lögfest á þinginu í haust, og hefðu lögin getað öðlazt gildi um n.k. áramót, eins og ætlazt er til með þessu frv.

Þó að þetta sjónarmið kæmi fram og væri nokkuð rætt í n., þá varð þó niðurstaðan sú, að n. ákvað að mæla með því, að frv. yrði samþykkt með breytingum til lagfæringar, sem prentaðar eru á þskj. 607.

21. tölul. í 2. gr. frv. hljóðar svo, þar sem rætt er um skiptingu landsins í bókasafnshverfi: „Fljótsdalshérað, Skriðdalur, Fljótsdalur og Jökuldalur.“ Þessi upptalning mun stafa af því, að þeir, sem frv. sömdu, hafa ekki verið nægilega kunnugír staðháttum og málvenju á Austurlandi, en það er talið af kunnugustu mönnum, að þessir hreppar, sem tilgreindir eru, teljist til Fljótsdalshéraðs, og þess vegna sé þeim orðum ofaukið að telja upp sérstaklega nokkurn hluta Fljótsdalshéraðs, og leggur n. til, að þessi orð verði niður felld.

Í 5. gr. frv. er svo fyrir mælt, að bókavörðum skuli skylt, eftir því sem við verður komið, að senda fáorðar, skriflegar upplýsingar um fróðleiksatriði, þegar um þær er beðið í skynsamlegum tilgangi. Greinin ákveður ekki, eins og hún er orðuð, hver eigi að meta það í hvert sinn, hvort um skynsamlegan tilgang sé að ræða eða ekki. N. finnst sjálfsagt að kveða nánar á um þetta og leggur til, að við gr. bætist: „að dómi bókavarðar“.

8. gr. frv. mælir fyrir um það, hvernig stjórn bókasafns skuli skipuð og hve margir menn skuli eiga sæti í stjórn safnsins, en það kemur ekki fram í orðalagi gr., hverjir eigi að ákveða það, hvort stjórn safnsins er skipuð 3 mönnum eða 5. N. virðist skýrara að orða þetta eins og hún leggur til í 3. brtt. sinni.

9. gr. ákveður, hvaða aðilar velji bókavörð fyrir safnið. Það er stjórn bókasafns. En til þess þarf að leita samþykkis hlutaðeigandi bæjarstjórnar eða sýslunefndar og bókafulltrúa. N. leggur til, að orðin „og bókafulltrúa“ séu felld niður, en það sé eingöngu á valdi héraðsstjórnanna að velja bókaverði fyrir söfnin.

Þar sem lestrarfélög starfa eða bókasöfn eru rekin á vegum annarra félagssamtaka, þá er það venja, að slík félagssamtök setja sér starfsreglur, þó að þau lög séu vitanlega ekki staðfest af forseta. Eitt meginatriði í þeim starfsreglum er að jafnaði það, að halda skuli aðalfund í hverju félagi og nánar kveðið á um helztu störf aðalfundar, m.a. það, að á hverjum aðalfundi skuli kjósa stjórn fyrir félagið, annaðhvort alla í einu eða einhverja stjórnarmenn í hvert sinn. N. virðist ástæðulaust að breyta þessu með lagaboði, en í frv. er gert ráð fyrir því, að slík félagssamtök kjósi stjórnarnefndarmenn til 4 ára í senn. N. leggur til, að lestrarfélögunum sé leyft að haga þeirri starfsemi á sama hátt og verið hefur, að kosning þessara manna fari fram á hverjum aðalfundi félags.

6. og 7. brtt. n. eru leiðréttingar, önnur um nýja kaflafyrirsögn, en hin um að breyta orði í ákvæðum til bráðabirgða. Frv. þetta var samið á síðastliðnu hausti og lagt fyrir þingið allsnemma í vetur, og var þá gert ráð fyrir því, að hægt yrði að kjósa stjórn bókasafna fyrir júnílok 1955. Nú hefur afgreiðsla þessa máls dregizt svo, að vafasamt er, að l. um þetta efni verði staðfest fyrr en í maímánuði, og er þá enginn tími til þess að senda lögin út um allt land og láta kjósa stjórnir bókasafna fyrir júnílok þessa árs. Nefndin leggur því til, að hér verði sú breyting á gerð, að í staðinn fyrir „júnílok“ komi: árslok.