28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

143. mál, almenningsbókasöfn

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. á þskj. 651 við frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 647.

Fyrri brtt. er við 3. gr. frv. Í 3. gr. er mælt fyrir um það, hver skuli vera aðsetur héraðsbókasafna, og eru þau talin í gr. Ég hygg, að það hafi ekki verið athugað til hlítar alls staðar, hvaða staður kynni að vera heppilegast aðsetur fyrir slíkt safn innan héraðs. Þetta kann sums staðar a.m.k. að orka nokkuð tvímælis, og ég held, að það væri æskilegt, að hlutaðeigandi héruð eða þeirra fyrirsvarsmenn í þessu máli hefðu nokkuð frjálsar hendur um að ákveða staðinn. Þess vegna er lagt til hér í brtt. á þskj. 651, að stjórn héraðsbókasafns geti með samþykki bókafulltrúa ákveðið bókasafni annað aðsetur innan bókasafnshverfis en mælt er fyrir um í þessari grein.

Þetta þýðir það, að aðsetur héraðsbókasafnanna væru ekki algerlega lögbundin, heldur gæti komið þar til greina breyting, ef stjórn hlutaðeigandi bókasafns telur rétt og bókafulltrúi samþykkir. Ég held, að þetta sé heppileg breyting og geti ekki orðið til skaða.

Mér er kunnugt um, að dæmi er til þess, að sýslubókasafn sé nú á öðrum stað en tilgreindur er í þessu frv., og held ég, að það væri rétt, að héraðsmönnum gæfist kostur á að athuga það mál nánar a.m.k., áður en öðru er slegið föstu til frambúðar.

Hin brtt. er við 7. gr. frv. og er í tveim liðum, en 7. gr. fjallar um fjárframlög til bæjar- og héraðsbókasafna. Það er um þessa brtt. eins og hina, að hún snertir eingöngu héraðsbókasöfnin, ekki þau bókasöfn, sem bæir einir standa að.

Í gr. er gert ráð fyrir því, að á þeim stað og í þeim hreppi, þar sem héraðsbókasafn er staðsett, séu greiddar til safnsins 15 kr. á hvern íbúa í hreppnum, auk þess séu greiddar 3 kr. fyrir hvern íbúa í öðrum hreppum bókasafnshverfisins. Það kemur ekki beint fram í sjálfu frv., hver eigi að greiða þetta 3. kr. framlag, en af greinargerð stjfrv. má ráða nokkuð um það, hver hafi verið hugsunin í því efni. Ég hygg samt, að það sé rétt, að það komi beinlínis fram í frv., að þessar 3 kr. eigi að greiðast úr sýslusjóði og þá náttúrlega þannig, að þar sem sýsla skiptist milli bókasafnshverfa, fari greiðslur sýslusjóðsins til tveggja bókasafna eða fleiri samkv. íbúatölu. En sé það nú svo, að sýslusjóðurinn eigi að inna af hendi þessar greiðslur fyrir íbúa hreppanna, alla nema í þeim hreppnum, þar sem bókasafnið er staðsett, þá virðist mér sanngjarnt, að sýslusjóðurinn greiði einnig fyrir þann hrepp jafnhátt framlag og hann greiðir fyrir aðra. Er lagt til, að af þeim 15 kr., sem greiðast eiga úr hlutaðeigandi hreppi, þar sem bókasafnið er staðsett, greiðist 3 kr. úr sýslusjóði. Væri það þá svo, að sýslusjóður greiddi fyrir alla hreppa sýslunnar jafnt, 3 kr. á íbúa, en síðan greiddi sá hreppur, sem hefur bókasafnið, 12 kr. til viðbótar. Þetta er ekki stórmál, en mér virðist það vera sanngirnismál og til lagfæringar.