28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

143. mál, almenningsbókasöfn

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir töluvert auknum framlögum frá ríkinu og fleiri aðilum til almenningsbókasafna. Er frá þessu skýrt í greinargerð, sem frv. fylgir. Þar kemur fram, að það sé ekki um mikla aukningu að ræða á framlagi bæjarfélaga, en hins vegar verði kauptún, þar sem héraðsbókasöfn verði staðsett samkvæmt frv., að leggja á sig mjög aukin útgjöld og á sýslufélögin yfirleitt séu einnig lagðar allmiklar byrðar samkvæmt frv. Þó er þarna nefnt eitt sýslufélag, sem leggur nú nokkru meira fé til þessara mála en því mundi verða skylt að gera, ef frv. verður að lögum. Og skýrt er frá tveimur öðrum sýslufélögum í greinargerðinni, sem borga litlu minna nú til þessara mála en þeim er ætlað að gera eftir frv. En flest sýslufélögin mundu hins vegar þurfa að leggja á sig mjög aukin útgjöld, et frv. verður samþ. Hækkun á framlagi ríkisins er einnig talsverð.

Stundum hefur orðið vart við aðfinnslur frá þeim mönnum, sem stjórna málefnum bæjar- og sveitarfélaga, um það, að Alþ. leggi tíðum gjöld á bæjar- og sveitarfélög án þess, að þau mál séu nokkuð borin undir bæjarstjórnir og sveitarstjórnir eða þeim gefinn kostur á að láta uppi álit sitt um þau fjárframlög, sem þar er verið að ákveða. Hygg ég, að þeir menn, sem þetta mæla, hafi nokkuð til síns máls.

Í tilefni af þessu og þeim auknu fjárframlögum frá bæjar- og hreppsfélögum og sýslufélögum, sem hér er gert ráð fyrir, hef ég ásamt hv. þm. A-Húnv. lagt fram brtt. á þskj. 649 um það, að lögin komi ekki til framkvæmda í hverju bókasafnshverfi, fyrr en hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd hefur samþykkt það. Við nánari athugun höfum við flm. till. ákveðið að gera á henni nokkra breytingu, og er hin nýja till. nú í prentun, en þar sem henni hefur ekki verið útbýtt, vil ég fyrir okkar hönd bera hér fram þessa nýju till. skriflega og óska eftir því, að hæstv. forseti leiti afbrigða um hana.

Í frv. eru ákvæði, sem ekki virðist ástæða til að bæjarstjórnir og sýslunefndir segi sitt álit um sérstaklega, áður en þau koma til framkvæmda. T.d. eru hér í II. kafla ákvæði um sveitarbókasöfn og lestrarfélög, og í 32. gr. frv. eru fyrirmæli um það, að með lögum þessum séu ákvæði laga frá 1944 um lestrarfélög numin úr gildi. Gæti því farið svo, ef þessi upphaflega till. okkar yrði samþ., að ekki yrðu í gildi nein ákvæði um lestrarfélög einhvern tíma, og það er vitanlega ekki heppilegt. Við höfum því breytt okkar till. þannig, að hún orðist eins og nú skal greina, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 31. gr. bætist: og ákvæði 7. gr. um fjárframlög bæjar-, hrepps- og sýslufélaga ekki fyrr en hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd hefur samþ., að svo skuli verða.“

Ég held það sé rétt, með leyfi hæstv. forseta, að ég lesi þá 31. gr. eins og hún mundi verða í heild, ef okkar till. verður samþ. En þá mundi hún verða þannig:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæðin um framlög til bókasafna ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1956 og ákvæði 7. gr. um fjárframlög bæjar-, hrepps- og sýslufélaga ekki fyrr en hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd hefur samþ., að svo skuli verða.“

Í 7. gr., sem við vitnum þarna til, eru ákvæðin um fjárframlög til bæjar- og héraðsbókasafna úr bæjarsjóði kaupstaða eða hreppssjóði, þar sem safnið er staðsett, og enn fremur eru þar ákvæði um framlög annarra aðila bókasafnshverfa, þ.e.a.s. sýslufélaga eða hluta af sýslufélögum, og greiðir ríkissjóður á móti þessum framlögum. Við teljum, flm. till., að það sé eðlilegt, að bæjarstjórnir og sýslunefndir fái að ákveða, hvenær þessi 7. gr. eða ákvæði hennar um fjárframlög af þeirra hálfu koma til framkvæmda. Vitanlega leggur ekki ríkissjóður fram samkvæmt greininni neitt til bókasafna í elnstökum héruðum, fyrr en framlög koma þaðan á móti.

Í 7. gr. eru, eins og ég áður gat um, einnig ákvæði um framlög úr hreppssjóði, þar sem safnið er staðsett. Við teljum þó ekki ástæðu til, að hreppsnefndir geri samþykktir um þetta, áður en til framkvæmda kemur, það mundi gera málið nokkru flóknara, og við teljum ekki þörf á því, þegar litið er til þess, að allir hreppar hafa fulltrúa í sýslunefndum og geta komið þar að sínum sjónarmiðum.

Við væntum þess, að hv. þd. geti á það fallizt, að það sé ekki óeðlilegt að veita héruðunum þannig rétt til þess að ákveða, hvenær lögin að þessu leyti komi til framkvæmda hjá þeim. Líklegt má telja, þótt þetta verði samþ., að ákvæðin um fjárframlög til héraðsbókasafnanna komi til framkvæmda allviða um landið strax á næstu áramótum, þar sem allviða, eins og getið er um í greinargerð frv., er þannig ástatt nú í þessum efnum, að bæjarfélögin leggja fram jafnmikið og sum meira til bókasafna en þeim verður gert skylt að leggja fram samkvæmt þessu frv., ef það verður að lögum.

Ég vil svo afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. okkar, og kemur hún í stað þeirrar, sem prentuð er á þskj. 649.