02.05.1955
Neðri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

143. mál, almenningsbókasöfn

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér hefur verið bent á það, að nauðsynlegt væri að gera nokkra breytingu á þeirri brtt., sem ég hafði hér lagt fram á þskj. 653, b-lið fyrri till., en till. mín hljóðar á þessa leið: „Hvert sveitarfélag skal hafa rétt til þess að velja sjálft um það, hvort það vill vera þátttakandi í héraðsbókasafni eða vill aðeins byggja upp sitt sveitarbókasafn.“

Mér hefur verið bent á, að réttara mundi vera, að þarna standi: „hvort það vill vera þátttakandi í bæjar- eða héraðsbókasafni“, þar sem frv. gerir nokkurn mun á héraðsbókasafni og bæjarbókasafni, en það var fyllilega meining mín, að þau sveitarfélög, sem þarna ættu val um það, hvort þau vildu vera með í héraðsbókasafni, gætu einnig átt val um það að vera með í viðkomandi bæjarbókasafni. Ég hef því leyft mér að flytja brtt. við þessa brtt. mína, fyrst og fremst til þess að leiðrétta þetta, en hún kemur að sjálfsögðu svo seint fram, að ég þarf að leggja hana fram hér skriflega, og vil ég því biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.

Að öðru leyti get ég verið fáorður um þetta mál. Það hefur þegar verið rætt allmikið. Ég vildi þó segja það, að mér þykir nokkuð miður, að hv. menntmn. hefur ekki treyst sér til þess að fallast á mína till., þar sem gert var ráð fyrir því, að bæjarfélög hefðu rétt til þess að vera ein sér um sín bókasöfn, en væru ekki neydd til þess að vera saman í bókasafnshverfi með hlutum úr nálægum sýslufélögum þrátt fyrir vilja kannske beggja aðila, og ég er ákaflega hræddur um, að það eigi eftir að koma í ljós, að það verði einhver dráttur á því, að sum bæjarfélög eða sum sveitarfélög vilji gangast undir löggjöfina eins og hún er, ef hún verður samþ. í því formi, sem hún liggur hér fyrir.

Á sama tíma sem hv. menntmn. treystir sér ekki til þess að veita bæjar- og sveitarfélögum þennan rétt, að þau megi velja um það, hvort þau vilja vera með í tilteknu bókasafnshverfi eða vera ein sér, þá fellst n. þó á, að samþ. verði brtt. á þskj. 682, þar sem l. eiga ekki að koma til framkvæmda á hinum einstöku stöðum, fyrr en bæjar- og sveitarfélög og sýslufélög hafa fallizt á ákvæði laganna. Ég fyrir mitt leyti tel, að það sé að vísu rétt að samþ. þessa till., en ég hefði talið miklu eðlilegra, um leið og þessi till. er samþ., að þá væri þó gert ráð fyrir því í l., að heimilt væri að víkja frá þeim reglum, sem eru alveg fastskorðaðar í 2. gr. frv. um bókasafnshverfl. Nú mundi framkvæmdin verða sú, ef einstakur kaupstaður eða hluti af sýslufélagi felldi sig á engan hátt við þá skipan, sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir og frsm. menntmn. sagði að mundi í ýmsum tilfellum mjög geta orkað tvímælis að skipta landinu niður á þennan hátt, að þó að þessir aðilar féllust engan veginn á þessa skipan, sem lögð er til í frv., og vildu þar af leiðandi ekki ganga undir löggjöfina, þá yrðu þau áfram að standa fyrir utan, því að það yrði að gera hér lagabreytingu á Alþ. á þessari skipan. Miklu réttlátara hefði verið og hentugra að gera ráð fyrir því, að sveitarfélögin sjálf, bæjar- og sýslufélög, fengju að hafa eðlilegan tillögurétt um það, hvort þau vilja vera í þessu eða hinu bókasafnshverfinu.

Það er líka alveg augljóst mál um bæjarfélög, sem búin eru að reka sjálfstæð bókasöfn um margra ára skeið, byggja þau upp og festa rekstur þeirra í formi og eiga þarna mikil verðmæti, að það er ákaflega eðlilegt, að það þurfi til þeirra aðila að leita, ef á nú allt í einu að fara að breyta þessu formi öllu og að slengja þeim saman við óviðkomandi aðila að meira eða minna leyti um samrekstur á þessu bókasafni. En það verður auðvitað að gerast, sem meiri hluti hv. d. vill í þessu efni. Mín till. er skýr. Ég legg til, að bæjarfélögin og sveitarfélögin megi ráða nokkru um þessa skipan, en þessu verði ekki slegið algerlega föstu, eins og frv. gerir ráð fyrir.