02.05.1955
Neðri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

143. mál, almenningsbókasöfn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst dálítið einkennileg afstaða hv. menntmn. Í sambandi við þá till., sem við flytjum hér, tveir þm. Reykv., segir frsm. hv. n., að það mundi raska kerfinu, sem væri í 2. gr.

Nú virðist — eftir ræðu hans að dæma — hv. n. ekki hafa skilið alveg rétt, hvað það var, sem við fórum fram á. Hann talaði um, að við færum fram á, að Kópavogur yrði gerður að sérstöku bókasafnshverfi. Svo er ekki. Það, sem okkar brtt. fer fram á, er, að Reykjavík sé gerð að sérstöku bókasafnshverfi og að Kjósarsýsla sé gerð að sérstöku bókasafnshverfi, en aðsetur safnsins í því hverfi, sem yrði Kjósarsýsla, væri Kópavogur. Ég fæ ekki séð, hvaða rök það eru, sem mæla með því, að Reykjavíkurbær sé ekki fær um að vera eitt bókasafnshverfi. Ég hélt, að Reykjavík með sína 60 þúsund íbúa stæði undir slíku, og ég a.m.k. vildi sem fulltrúi Reykjavíkur alveg frábiðja mér það, að litið væri þannig á Reykjavík, að hún gæti ekki staðið undir því að vera sérstakt bókasafnshverfi út af fyrir sig og þyrfti endilega þess vegna að fá einhverja aðstoð frá Kjósarsýslu til þess að ráða sínu eigin bókasafni. Ég held, að ef það væri nokkur fulltrúi fyrir Kjósarsýslu hér, þá mundi hann segja það sama, að þeir væru alveg færir um það sjálfir í sýslunni að ráða sínu bókasafni, enda hafa þeir ýmis myndarleg bókasöfn nú þegar.

Ég fæ þess vegna ekki séð, að þessi till. raski þessu kerfi, sem hér er, hún bara bætir þetta kerfi, sem þarna er lagt til. Og ég held, að þegar einhverjir embættismenn í stjórnarráðinu útbúa hluti um, hvernig eigi að kerfisbinda, hvort heldur það eru læknishéruð eða bókasafnshverfi eða annað slíkt, þá verði þeir að sætta sig við, að það sé Alþ., sem ræður þessu, og að það sé ekki til neins að koma með svona röksemdir við okkur, að einhverju, sem einhver maður, einhver embættismaður eða kannske ekki einu sinni embættismaður, hefur úthugsað í sambandi við einhverja stofnun, megi ekki raska hér á Alþ. Við erum til þess hér að ákveða, hvernig þetta eigi að vera, og það, sem við gerum, er ekki röskun; það, sem við gerum, er að ákveða þetta, setja þetta í lög. Þess vegna vil ég alveg frábiðja mér svona röksemdir. Þær eiga ekki við, og ég sé ekki, að hvaða leyti er einhver röskun á þessu. Ég sé ekki annað en að þetta sé bein endurbót ú þessu. Svona rök á ekki að bera á borð.

En svo segir sama hv. menntmn. í sambandi við þá till., sem er á þskj. 682, að ákvæði 7. gr. um fjárframlög þurfi ekki að koma í framkvæmd, fyrr en viðkomandi bæjarstjórn eða sýslunefnd hefur samþykkt það. M.ö.o.: ef helmingurinn af öllum sýslunefndum eða bæjarstjórnum landsins ákveður, að þær ætli nú ekki að byrja á þessum framlögum, þá má það bíða í það endalausa. Það er engin röskun. Mér skilst þó, að það sé einmitt einn af þeim virkilega góða tilgangi með þessu frv. að reyna að tryggja, að þessi framlög séu gerð af öllum aðilum til þessa ágæta máls. Það á ekki að vera röskun, en hitt á að vera röskun að ákveða, að Reykjavík megi vera út af fyrir sig og Kjósarsýsla út af fyrir sig. Ég fæ ekki skilið þessa röksemdafærslu. Ég held þess vegna, að þessi brtt. okkar um, að Reykjavík fái að vera út af fyrir sig og Kjósarsýsla sérstök, eigi að samþykkjast, enda skildist mér nú á hv. frsm. n., að það mundu ýmsir menn í hv. menntmn. vera með slíku.

Þá er spursmálið um sérmenntunina. Ef það hefði verið landbn., sem hefði átt að fjalla um þetta, það hefði verið landbúnaðarmál og það væri búnaðarráðunautur, sem hefði verið rætt um, þá hefði þótt sjálfsagt að gera að skilyrði, að hann hefði sérmenntun, en fyrst það eru hin svokölluðu andlegu mál, þá er kannske ekki nauðsyn á því. Ég held þess vegna, að sú till. mín eigi fullan rétt á sér.

En höfuðáherzlu vil ég þó leggja á, að það sé leyfilegt fyrir Reykjavík að fá að vera sérstakt bókasafnshverfi. Fæ ég alls ekki skilið, að hægt sé að hafa á móti því. Ég man ekki eftir, í fljótu bragði a.m.k., neinni kerfaskiptingu í landinu, viðvíkjandi læknishéruðum eða slíku, að Reykjavík sé þó yfirleitt ekki höfð þar út af fyrir sig. Ég vil aðeins benda á, að þetta mundi þýða m.a. að svipta eðlilegan meiri hluta í bæjarstjórn Reykjavíkur yfirráðum yfir bókasafni Reykjavíkur, því að Kjósarsýsla er þarna með og hlýtur að hafa þarna einhvern fulltrúa. Við skulum segja, að það væru 5 fulltrúar og væru kosnir 4 frá Reykjavík og einn frá Kjósarsýslu. Það þýðir, að sá meiri hluti, sem væri t.d. í Reykjavík, við skulum segja eins og nú er, hefur þarna 2 fulltrúa, og það þýðir, að fulltrúinn frá Kjósarsýslu getur myndað þarna meiri hluta. Ég held, að þetta sé alls ekki viðkunnanlegt.

Svo vil ég aðeins benda á: Ef það væri nú t.d. samþykkt af hálfu Reykjavíkurbæjar að fresta því að taka þátt í þessu, en Kjósarsýsla ákvæði hins vegar að taka þátt í því, hvernig verður þetta þá? Ég held, að þetta ætti að athugast betur hjá hv. n.