05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

143. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur tekið nokkrum breytingum í hv. Nd. Tel ég víst, að hv. þm. hér í deild hafi kynnt sér þær breytingar. Skal ég því ekki a.m.k. fara langt út í það, en ef til vill síðar nefna sumar af þeim breytingum. En þess hefur ekki verið gætt, þegar frv. var samþ. í Nd., að það er orðin breyting á héraðaskipun, að Kópavogur eða Kópavogshreppur er orðinn kaupstaður eða Alþingi a.m.k. búíð að samþykkja lög um það, að hann skuli verða kaupstaður, og þarf að taka tillit til þess í þessu frv. Þess vegna ber menntmn. fram brtt. á þskj. 741 um að laga þetta að í staðinn fyrir „Kjósarsýsla“, sem er 2. tölul. í 2. gr., komi: Kópavogskaupstaður og Kjósarsýsla, — og svo í 3. gr., þar sem er talað um staðsetningu héraðsbókasafna og stendur „Kópavogur“, þá komi í staðinn: Kópavogskaupstaður.

Af nýmælum, sem hv. Nd. hefur sett inn í frv., er helzt að nefna, að ákveðið er, að sýslusjóður greiði til hreppsbókasafna 3 kr. á íbúa hreppsins. Þetta var ekki áður. Og tillag ríkissjóðs, sem ákveðið er í 13. gr., síðari málsgr., er hækkað úr 10 kr. í 20 kr. Smábreytingar eru fleiri, sem ég vil ekki eyða tíma til að minnast á.

Það er því nú till. menntmn., að frv. verði samþ. með breyt. á þskj. 741.