16.12.1955
Efri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

57. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Nd., var flutt þar af hv. 1. þm. Árn. og var um heimild fyrir ríkisstj. að mega selja eyðijörðina Breiðumýrarholt ábúendum Holts í Stokkseyrarhreppi í Árnessýslu, en þessi jörð, Breiðumýrarholt, hefur um nokkurt árabil verið í eyði, en verið nytjuð frá Holti af ábúanda þeirrar jarðar. Í Holti er rekið stórt bú, jörðin vel hýst og þar eru 3 uppkomnir synir bóndans, sem stunda þar búskapinn ásamt föður sínum. Við þessa aukningu á búskapnum í Holti hefur jarðnæði orðið of lítið, og hafa þeir þess vegna haft Breiðumýrarholtið til nytja ásamt sinni jörð. Þeir sóttu um að fá ábúð á þessu eyðibýli, en þar sem engin hús eru á jörðinni, hefðu þeir orðið að nytja hana frá sinni eigin jörð, en með því gátu þeir ekki fengið byggingu fyrir jörðinni. Þess vegna hafa þeir óskað eftir því að fá jörðina keypta með það fyrir augum að fjölga býlum þarna og auka búskap, annaðhvort að byggja upp á þessari jörð eða auka byggingar á sinni eigin jörð.

Þetta frv. var samþ. í hv. Nd., en frv. sjálft tók þeim breytingum þar, að bætt var við það nýrri grein, sem fjallar um makaskipti á löndum milli skógræktar ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar, og er frv. þannig hingað komið til þessarar hv. deildar. Í þessum 2. lið frv., um makaskiptin á þessum löndum, er þannig að orði komizt í greininni, að Hafnarfjarðarkaupstaður fái hluta af landi skógræktar ríkisins í Hafnarfjarðarhrauni, en samkv. ábendingu skógræktarstjóra átti að standa þarna í stað „Hafnarfjarðarhrauni“: landi Þorbjarnarstaða og Straums í Garðahreppi. Landið, sem þarna var talað um að skipta á, var í landi þessara jarða, en ekki í Hafnarfjarðarhrauni, eins og stendur í frv. á þskj. 156, eins og það kom hingað til þessarar hv. deildar og eins og það lá fyrir landbn. hér. Landbn. hefur tekið þessa ábendingu til greina og flytur brtt. þessu til leiðréttingar. Má segja, að hér sé um leiðréttingu, en ekki efnisbreytingu að ræða.

Þá lá fyrir landbn. þessarar hv. deildar bréf frá 3 bændum í Sandvikurhreppi í Árnessýslu, þar sem þeir fara fram á að fá. keypta eyðijörðina Smjördalakot í sama hreppi. Þetta er eyðijörð, sem ekki hefur verið byggð nú í tugi ára, landlitil og illa sett til þess að vera sérstakt býli, vegna þess að við skiptingu á þessari torfu, sem þarna er um að ræða, voru löndin nokkuð slitin í sundur, þannig að áveitulönd þessarar jarðar er ekki áfast við það tún og beitiland, sem jörðin á. En þarna eru aðrar þrjár jarðir, sem eru í byggð, frekar landlitlar, og hændur þeir, sem þarna búa og eiga jarðirnar, fara nú fram á að fá keypta þessa eyðijörð og hafa komið sér saman um að skipta landinu upp á milli sín þannig, að tvær jarðirnar fá áveitulandið, en ein jörðin fær lítið tún, sem fylgir þessu eyðibýli, og beitiland. Lýsing á þessu fylgir í bréfi, sem þessir þrír bændur hafa skrifað landbrn., og þetta bréf er prentað sem fskj. með nál. á þskj. 202. Nefndin athugaði þetta og átti einnig tal um þetta við landnámsstjóra, og hafði hann ekkert við það að athuga, þó að þessi sala færi fram.

Nefndin leggur því til, að frv., eins og það kemur frá hv. Nd., sé samþ. með þeim breytingum, sem segir á þskj. 202. Fyrri breytingin er sú við 1. gr., að á eftir 1. tölul. komi nýr tölul., svo hljóðandi:

„Að selja eigendum og ábúendum jarðanna Smjördala, Nýjabæjar og Ljónsstaða í Sandvíkurhreppi í Árnessýslu, þeim Jóni Þorkelssyni, Þorsteini Brynjólfssyni og Leó Viggó Johnsen, hverjum um sig hluta úr þjóðjörðinni Smjördala-Norðurkoti í sama hreppi fyrir það verð, sem dómkvaddir menn meta hvern hluta, enda falli ábúendur, hver um sig, frá forkaupsrétti að áveitulöndum þeim (svonefndri Hrísmýri), sem þeir hafa áður afsalað ríkissjóði til greiðslu á áveituskatti.“

Þetta er breytingin, sem við kemur þessari jörð í Sandvikurhreppi. Og þá kemur breytingin í b-lið, sem ég gat um áðan, leiðréttingin, að í staðinn fyrir „Hafnarfjarðarhrauni“ í 2. tölul. komi: „landi Þorbjarnarstaða og Straums í Garðahreppi“.

Þá leggur nefndin til, að fyrirsögn frv. verði breytt á þann hátt, að í stað þess, sem er núna, komi: „Frv. til l. um sölu tveggja jarða í opinberri eigu og um makaskipti á löndum.“

Ég held, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta. Nefndin er á einu máli um að leggja til við hv. d., að málið verði samþ. eins og það liggur nú fyrir hér.