14.12.1955
Neðri deild: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég hef hér ásamt hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) borið fram allmargar og ýtarlegar brtt. við þetta frv. Þessar brtt., sem við berum nú fram við þetta mál, bárum við fram í frumvarpsformi í fyrra. Þær voru þá ýtarlega ræddar og skýrðar, og tel ég því ástæðulaust að fara um þær mjög mörgum orðum. Efnislega eru þessar till. á þá leið, að felldur verði niður hluti af söluskattinum; söluskattur, sem nú er innheimtur af vörum í smásölu, verði felldur niður, og söluskattur, sem innheimtur er af þjónustu og innlendum iðnaðarvörum, verði felldur niður, og einnig verði felldur niður söluskattur af ýmsum nauðsynjum til framleiðsluatvinnuveganna, þ. e. a. s. til sjávarútvegs og landbúnaðar. Hinn meginkafli frv. fjallar svo um það, að eftir að þessar ráðstafanir hafi verið gerðar, verði tekið upp verðlagseftirlit og verðlagsákvarðanir og Alþýðusambandi Íslands falið þetta verðlagseftirlit og þessar verðlagsákvarðanir, þ. e. a. s., að í n., sem hefði með þau mál að gera, yrðu kosnir þrír menn, tveir samkvæmt tilnefningu Alþýðusambandsstjórnar, en einn skipaður af ráðherra.

Þegar við bárum þetta mál fram í frumvarpsformi á þinginu í fyrra, stóð svo á í íslenzku efnahagslífi, að þar voru að gerast stórir hlutir. Alþýðustéttirnar gátu ekki unað lengur því hlutskipti, sem þeim var búið. Það hafði verið gengið svo á rétt þeirra með alls konar verðlagshækkunum á flestöllum vörum, sem fáanlegar voru í landinu, og það hafði enn fremur verið gengið svo hart að þeim með álögum af hálfu hins opinbera, bæði ríkis og bæjarfélaga, að sýnilegt var og viðurkennt af öllum, bæði málsvörum alþýðustéttanna og eins andstæðingum alþýðustéttanna, þ. e. a. s. núverandi stjórnarflokkum, að þess væri full þörf, að alþýðustéttirnar fengju sinn hlut eitthvað réttan.

Við þjóðvarnarmenn lýstum þá yfir þeirri skoðun sem stefnu okkar í málinu, að þá og því aðeins mætti takast að bæta kjör alþýðunnar, þegar með völd í landinu færi stjórn, sem væri alþýðustéttunum andvíg og andstæð og hefði vald til þess að eyðileggja allar kjarabætur, sem alþýðan gæti náð eftir venjulegum leiðum, að farið væri inn á þá braut að lækka verðlag og lækka skatta til ríkisins. Við bentum einnig á, að ef þessi leið yrði ekki farin, þá mundi efnahagslíf okkar lenda í algeru öngþveiti, því að milliliðir og aðrar okurstéttir í þjóðfélaginu mundu nota hvað lítilfjörlega hækkun sem verkalýðurinn fengi á kaupi sínu í krónutölu til stórfelldra hækkana á alls konar álagningu og þjónustu, sem þessar stéttir reka. Þetta sjónarmið var raunverulega viðurkennt að væri rétt, þó að engir fengjust til þess að breyta í samræmi við það. Það virtist á þeim tíma, að það væru ekki aðrir aðilar í þjóðfélaginu en Þjóðvfl. einn, sem vildi draga raunhæfar og rökréttar ályktanir af þessum niðurstöðum. Og þess vegna var sú ólánsstefna farin að hækka kaup verkafólks að krónutölu, sem milliliðirnir og braskararnir hafa tekið aftur af því margfalt með hækkunum á vörum, sem eru ekki í samræmi við þá 10% hækkun, sem verkamenn fengu á kaup sitt. Einnig þetta er viðurkennt. Og það er nú viðurkennt af öllum, að þessi þenslustefna hafi þegar beðið skipbrot, að það sé ekki lengur fært að halda áfram sömu fjármálastefnu og núverandi stjórnarflokkar hafa haldið fram, síðan þeir tóku við völdum í þessu þjóðfélagi; ef efnahagslíf þjóðarinnar eigi ekki að reka í algert strand, verði nú að skipta algerlega um stefnu og taka upp aðra stefnu. Enn þá hefur henni ekki verið lýst, en ljóst er, að hún verður í öllum meginatriðum að vera algerlega frábrugðin þeirri stefnu, sem Sjálfstfl. og Framsfl. hafa haft í þessu máli. M. ö. o.: Stjórnarflokkarnir eru sjálfir orðnir sammála um, að það, sem Tíminn hefur gefið nafnið fjármálastjórn Eysteins Jónssonar og lofsungið á undanförnum árum, sé hrein vitleysa og sé að leiða þjóðina í glötun. Þetta er það, sem raunverulega er viðurkennt af öllum landsmönnum í dag, einnig framsóknarmönnum.

Nú skal ég viðurkenna það, að þær till., sem við þjóðvarnarmenn bárum fram á sínum tíma í fyrravor, þ. e. a. s. mánuði fyrir verkföll, mundu að sjálfsögðu ekki hafa jafnmikil áhrif í svip, ef þær væru framkvæmdar nú. Það hefur verið unnið það tjón í þessu þjóðfélagi, að þær mundu ekki bera sama árangur í dag, ekki í svip. Hins vegar skal ekkert fullyrt um, og það getur að sjálfsögðu enginn fullyrt um það, hvort þær, er til lengdar léti, hefðu ekki sömu áhrif í för með sér.

Nú veit ég það, að hæstv. fjmrh. og menn, sem hugsa eitthvað svipað og jafnsnjallt í fjármálum og hann, munu koma og segja, að það séu einkennilegar till. af hálfu þjóðvarnarmanna nú, þegar sýnilegt sé, að útgjöld ríkisins aukist mjög mikið, að bera þá fram till. um að lækka tekjustofna ríkisins, þetta mundi þýða stórkostlegan greiðsluhalla hjá ríkissjóði, eða þá að finna yrði annan skattstofn, sem væri ekki neitt betri. Þetta er að vísu ákaflega mikil speki og stór sannleikur, enda ekki við öðru að búast úr fjármálahorni ríkisstj. Vissulega lækka tekjur ríkissjóðs, ef skattur er lækkaður; það ætti hér um bil hvert mannsbarn að geta sagt sér sjálft. Hitt er svo allt annað mál, hvort greiðsluhalli á fjárlögum þyrfti að vera eða yrði jafnmikill og skattlækkunin gæfi til kynna í upphafi. Þess skyldu menn minnast, að þegar söluskattur eða hluti af söluskatti yrði afnuminn, þá yrði óhjákvæmilega að taka upp verðlagseftirlit, annars væri engin trygging fyrir því, að vörurnar lækkuðu um það, sem söluskattslækkuninni næmi. En ef á annað borð væri tekið upp verðlagseftirlit, þá mundi fleira vera lækkað í þessu þjóðfélagi en söluskatturinn. Afleiðingin af þessum lækkunum yrði sú, að vísitala lækkaði, en afleiðingin af vísitölulækkun yrði aftur lækkun á flestöllum útgjaldaliðum ríkissjóðs, svo að ríkisútgjöldin mundu þá líka lækka. Það er ekki á mínu færi né nokkurs manns hér inni að reikna það út, hvort þyngra yrði í fjárlögunum, lækkunin á söluskattinum eða lækkunin á gjöldum ríkissjóðs. En það yrðu ekki aðeins útgjöld ríkissjóðs, sem lækkuðu. Allur framleiðslukostnaður í landinu mundi líka lækka við þessar aðgerðir. Þar með mundu lækka útgjöld, sem ríkissjóður hefur af því, við hve erfið kjör atvinnuvegirnir búa nú í dag. Þetta mundi líka spara ríkissjóði útgjöld. Og að öllu samanlögðu vil ég ekki taka ábyrgð á því að halda neinu fram um það, hvort þetta yrði meira eða minna en lækkun sú á söluskattinum, sem hér er farið fram á. En nú er viðurkennt af öllum, að einmitt þessa lækkunarstefnu verður að fara, ef takast á að bjarga íslenzku efnahagslífi. Og þessi lækkunarstefna verður að sjálfsögðu aldrei framkvæmd, svo að ég noti nú hálfgerða framsóknarheimspeki, nema byrja einhvern tíma á því að lækka einhvern hlut. Og hvar skyldi eiga að byrja, ef ekki hjá því opinbera? Ég vil mælast til þess, ef hæstv. fjmrh. eða einhverjir af hv. þm. stjórnarflokkanna fara að fetta fingur út í þessar tillögur okkar, að þeir geri grein fyrir því og rökstyðji það, hvar á að byrja að lækka í þessu þjóðfélagi, ef ekki hjá því opinbera, og ég vil enn fremur mælast til þess, að þeir geri grein fyrir því, hvenær þeir hafa hugsað sér að snúa við á þeirri óheillabraut, sem þeir hafa sjálfir búið til í íslenzkum fjármálum á undanförnum árum.

Þetta eru spurningar, sem ég og aðrir alþm. og þjóðin öll á heimtingu á að fá svarað. Ég býst enn fremur við því, að sú framsóknarspeki gæti skotið upp kollinum í þessum umræðum, að við þm. Þjóðvfl. hefðum borið fram till. við umr. fjárlaga um það að hækka tekjuáætlun vegna söluskatts. Þetta er rétt. Þetta höfum við gert, vegna þess að við höfum svo litla trú á skynsemi af hálfu stjórnarflokkanna eða velvild eða stjórnvizku, að við væntum þess naumast, að brtt. okkar til lækkunar á söluskattinum verði samþykktar. En ef þær verða ekki samþykktar, þá viljum við að sjálfsögðu, að söluskatturinn sé áætlaður rétt í fjárlögunum, og það er eina ástæðan til þess, að við berum fram till. um að hækka áætlun á söluskattinum í fjárlögum. Við viljum ekki og munum aldrei greiða atkvæði hér með till., sem við vitum að eru rangar. Við höfum ekki gert það hingað til og munum ekki gera það hér eftir.

Það hefur komið fram á þessu þingi lofsverður áhugi hjá tveimur flokkum um að taka upp verðlagseftirlit og verðlagsákvarðanir. Ég fagna þessum áhuga. Þessi áhugi hefur komið fram hjá Sósfl. og Alþfl. Ég minnist þess, að áhuginn hjá þessum flokkum í þessu efni var harla lítill, þegar hann skipti hvað mestu máli, þ. e. a. s. á þinginu í fyrra fyrir verkföllin. Þá bárum við þjóðvarnarmenn fram frv. um að taka upp verðlagseftirlit og afhenda Alþýðusambandi Íslands yfirráð yfir því verðlagseftirliti. Þessu frv. var vísað til n., þar sem bæði Sósfl. og Alþfl. áttu fulltrúa, og hvorugur þessara fulltrúa skilaði áliti um frv., enda þótt þeir hefðu ótal tækifæri til þess. Slíkur var áhugi þeirra þá. Og þegar Alþfl. burðast nú við að láta líta svo út sem hann hafi einhvern áhuga á þessu máli nú á þessu þingi, þá er það í því formi að afhenda einhverjum allt öðrum mönnum og allt öðrum aðilum eftirlit með verðlagseftirliti í landinu heldur en verkalýðsstéttunum. Alþfl. ber fram frv. um það að afhenda milliliðunum sjálfum yfirráð yfir verðlagsákvörðunum. Samkv. þeirra till. á Samband íslenzkra samvinnufélaga og samtök kaupmanna að hafa tvo menn í verðlagseftirlitsnefndinni, íhaldssöm ríkisstjórn að skipa þann þriðja og þar með meiri hlutann. Væntanlega ætlast þeir svo til þess, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja skipi íhaldsmann í n. sem fjórða manninn, og síðan á Alþýðusambandið af náð að fá einn, sennilega eins konar áheyrnarfulltrúa, sem þó má klína á skömminni af starfi slíkrar nefndar.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, ræddum við þjóðvarnarmenn þetta mál mjög ýtarlega á þinginu í fyrra, bæði í framsögu um málið og eins við eldhúsdagsumræður hér á þingi. Þess vegna veit ég, að þingmönnum er málið ljóst, og af þeim sökum tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða neitt frekar um þessar till., nema tilefni gefist til. Ég sé, að hv. fjhn. hefur ekki haft áhuga á því að taka þessar till. upp að neinu leyti. Fulltrúar Alþfl. og kommúnista í þeirri n., sem eru þeir sömu og í fyrra, hafa enn ekki neinn áhuga á þessu. Þeim er það ekkert kappsmál, að alþýðusamtökin fái yfirráð yfir verðlagsmyndun og verðlagsákvörðunum í þjóðfélaginu, og ég hef því litla von um, eins og ég hef áður tekið fram, að tillögurnar nái fram að ganga að þessu sinni. En það er spá mín, að svo mikil sé gæfa íslenzkrar þjóðar, að þetta mál nái fram að ganga þrátt fyrir andstöðu þeirra, sem nú sitja á Alþingi Íslendinga, þó að síðar verði.