26.01.1956
Efri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

107. mál, kirkjuítök

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Það má eflaust eitthvað deila um það, hvert réttlæti sé í því að skipta ítökum á milli ýmissa kirkna í sama prestakalli, eins og hér er lagt til. En það verður að gá að því, að fyrr meir, þegar margt var af prestum og kirkjur færri, var það iðulega, að einn prestur þjónaði aðeins einni kirkju. Síðan með prestafækkuninni dróst það þannig saman, að prestinum var fengin þjónusta fyrir fleiri kirkjur, tvær, þrjár, fjórar og jafnvel fimm. Eins og ég tók fram áðan, finnst mér ekkert eðlilegra en að kirkjurnar hver í sinni sókn sameinist um að reyna að viðhalda byggingunni og umbæta, því að til þess er þetta ákvæði fram sett.

Um það, sem hv. 1. þm. N-M. tók fram, að vafasamt væri, hvort ítökum hefði verið lýst, þá átti ég tal við biskupsskrifstofuna um þetta, og ég hygg, að það hafi verið lýst öllu, sem fundizt hafi, og það var ógrynni, því að þeim var ljóst, að það var nauðsyn vegna laganna frá 1952 að festa ítökin, þannig að rétturinn til þeirra tapaðist ekki og að eignarrétti skyldi haldið í gildi með því að lýsa ítakinu. Ég býst því ekki við, að þetta verði til þess, að niður falli neitt, sem gildi hefur. Hins vegar er mikið af ítökum, sem ég tel að hafi ekki einu sinni verið átt við að lýsa, af því að þau eru lítilfjörleg eða einskis virði.

Annars er alveg sjálfsagt að athuga þetta enn betur fyrir 3. umr.