23.01.1956
Neðri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

118. mál, ný orkuver og orkuveitur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn., sem flutti þetta frv. eftir tilmælum hæstv. ráðh., hefur tekið það til nánari athugunar milli umræðna. N. flytur brtt. við frv. á tveim þskj., en brtt. raska ekki efni frv. nema að litlu leyti, og eru þær gerðar í samráði við raforkumálastjóra og með hans samþykki.

Skýringar á einstökum greinum frv. eru í grg., sem því fylgir, og get ég látið nægja að vísa til þeirra viðkomandi efni frv., en ég vil gera hér grein fyrir brtt. nefndarinnar.

Á þskj. 249 er brtt. við 2. gr. frv., en sú grein er um orkuveitu til Raufarhafnar og Þórshafnar. Í lögum nr. 22 frá 1952 er heimild til að virkja Sandá í Þistilfirði og leggja aðalorkuveitur þaðan til Þórshafnar og Raufarhafnar. Í 2. gr. frv. er lagt til, að heimilað verði að leggja aðalorkuveitu til þessara kauptúna frá Laxárvirkjuninni í Suður-Þingeyjarsýslu í stað þess að virkja Sandá, ef það telst hagkvæmara.

Fjhn. leggur til í 1. till. á þskj. 249, að orðalagsbreyting verði gerð á 2. gr. frv., sem um þetta fjallar. Og verði brtt. n. samþ., væntir hún þess, að hv. þm. N-Þ. geti fallizt á að taka aftur brtt. sína á þskj. 171.

Næsta brtt. n. á þskj. 249 er viðkomandi fyrirhugaðri orkuveitu til Vestmannaeyja. Í lögunum frá 1952 er veitt heimild til að leggja aðalorkuveitu úr Landeyjum til Vestmannaeyja. Raforkumálastjóri telur, að Vestmannaeyjalínan muni verða lögð frá Hvolsvelli, og er brtt. n. við það miðuð.

Næst vil ég nefna brtt. við 4. gr. frv. á þskj. 252. Með lögum nr. 55 frá 1954 var veitt heimild til að virkja Múlaá í Geiradalshreppi í allt að 500 hestafla orkuveri til vinnslu raforku handa nálægum hreppum. Í 4. gr. þessa frv. er lagt til, að við þann lið í lagagreininni frá 1954 bætist orðin: eða leggja aðalorkuveitu frá orkuverinu við Þverá í Steingrímsfirði til Króksfjarðarness. — Fjhn. leggur til, að hér við bætist til nánari skýringar orðin: til þess að veita þaðan raforku um þá hreppa og suður um Dalasýslu. — Ef frvgr. og brtt. n. verða samþ., verður þessi heimild í lagagreininni í heild svo hljóðandi :

Að virkja Múlaá í Geiradalshreppi í allt að 500 hestafla orkuveri til vinnslu raforku handa nálægum hreppum eða leggja aðalorkuveitu frá orkuverinn við Þverá í Steingrímsfirði til Króksfjarðarness til þess að veita þaðan raforku um þá hreppa og suður um Dalasýslu.

Ég skal geta þess, að það þarf að leiðrétta, þegar frv. verður prentað aftur, að till. á þskj. 252 er um viðbót við málslið í tillgr., og á því ekki að vera þar upphafsstafur.

Við 1. umr. frv. komu fram athugasemdir frá hv. 2. þm. Reykv. viðkomandi formi frv. Það er rétt, að sé lögunum oft breytt á þennan hátt, verða þau ekki aðgengileg fyrir þá, sem vilja kynna sér efni þeirra. Til þess að ráða bót á þessu flytur fjhn. 3. brtt. á þskj. 249, en sú till. er um það, að þegar lög þessi hafi hlotið staðfestingu, skuli fella meginmál þeirra ásamt meginmáli l. nr. 55 frá 1954 inn í l. nr. 22 frá 1952 og gefa þau út svo breytt.

Hv. þm. Dal. (ÁB) flutti ræðu við 1. umr. þessa frv. hér í deildinni. Hann gat um áhuga manna fyrir því að fá vitneskju um fyrirhugaðar framkvæmdir í raforkumálum samkv. þeim áætlunum, sem raforkumálastjórnin hefur unnið að. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að fyrir þessu er mikill og almennur áhugi um land allt, og er það eðlilegt. En eins og fram kom í ræðu hæstv. landbrh., er hann flutti við 1. umr. þessa frv., var mjög langt frá því, að lokið hefði verið fullnaðaráætlunum um þessar framkvæmdir, þegar lög voru sett nú fyrir tæpum tveimur árum um, að verja skyldi a.m.k. 250 millj. kr. til raforkuframkvæmda á árunum 1954–63. Síðan hefur verið unnið áfram að rannsóknum og áætlunum viðkomandi þessum framkvæmdum, og er því undirbúningsstarfi enn ekki lokið. Rannsóknirnar hafa stundum leitt í ljós, að hagfelldara væri að haga rafvæðingu einstakra landssvæða öðruvísi en upphaflega var gert ráð fyrir, og hefur þá þurft að fá breytingar á lagaheimildum, eins og það frv., sem hér er til umr., ber vott um. Af þeirri ástæðu, að ekki er að fullu lokið rannsóknum og útreikningum um þessi efni, hefur ekki verið unnt að taka fullnaðarákvarðanir enn sem komið er um það, með hverju móti framkvæmdum verði hagað í ýmsum héruðum landsins. Eitt af þeim héruðum er Dalasýsla. Með lögum nr. 55 frá 1954 var veitt heimild til að virkja Haukadalsá í allt að 500 hestafla orkuveri til vinnslu raforku handa 5 syðstu hreppum Dalasýslu. En í því frv., sem hér liggur fyrir, er farið fram á heimild til þess að leggja aðalorkuveitu frá Þverárvirkjun í Steingrímsfirði til Króksfjarðarness, og verði sú lina lögð, er gert ráð fyrir, að þaðan verði veitt raforku um hluta af Austur-Barðastrandarsýslu og suður um Dalasýslu. Verði þetta frv. samþykkt, verður því um tvær leiðir að velja í rafmagnsmálum Dalasýslu, annaðhvort að virkja Haukadalsá samkv. lagaheimildinni frá 1954 eða leggja héraðsrafmagnsveitu suður í Dalasýslu frá Króksfjarðarnesi, ef að því ráði verður horfið að leggja þangað aðallinn frá Þverárvirkjuninni. Að svo stöddu er ekki hægt að fullyrða, hvor leiðin verður valin, þar sem rannsóknum er ekki að fullu lokið. En rafmagnsstjóri telur þó, að athuganir þær, sem gerðar hafa verið, bendi ákveðið til þess, að sú leið verði fremur farin að leggja aðalorkuveitu vestur frá Þverárvirkjuninni og línur frá Króksfjarðarnesi suður um Dalasýslu heldur en að byggja sérstakt orkuver innan sýslunnar.

Þetta vildi ég láta koma hér fram út af fyrirspurnum hv. þm. Dal., sem hann bar fram við 1. umr. frv. Væntanlega verður, áður en langt líður, úr því skorið, hvor leiðin verður farin í þessum framkvæmdum.

Ég vil geta þess, að í fjhn. var nokkuð rætt um að flytja till. um að taka inn í frv. aðalorkuveitu frá Eyjafirði til Skagafjarðarhéraðs, en raforkumálastjóri hefur áður látið uppi þá skoðun, að rétt væri að tengja orkuveitusvæði Laxárvirkjunar í Þingeyjarsýslu á þann hátt við orkuveitusvæði Skagafjarðar- og Húnavatnssýslna. En vegna þess að raforkumálaskrifstofan hefur enn ekki lokið áætlunum sínum um þessa fyrirhuguðu samtengingarveitu, var horfið frá því að flytja till. um þetta nú, í trausti þess, að það verði auðsótt mál að fá lagaheimild til framkvæmdarinnar, þegar áætlanir eru fullgerðar og þörf verður fyrir heimildina.