23.01.1956
Neðri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

118. mál, ný orkuver og orkuveitur

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu frv., sem hún hefur afgreitt frá sér í meginatriðum óbreytt eins og hún var beðin að flytja það, en frv. var í sjálfu sér stjórnarfrv., sem ríkisstj. öll stóð að, þó að sá háttur væri á hafður að óska eftir, að það yrði flutt af nefnd í þinginu.

Það urðu nokkrar umræður um málið við 1. umr., og komu þá fram fyrirspurnir frá nokkrum hv. þm. fyrir sérstök kjördæmi um, hvað fyrirhugað væri í þeim héruðum hvað snerti rafvæðingu. Fjhn. hefur nú rannsakað þetta gaumgæfilega, að því er mér virðist, og haft samráð við raforkumálaskrifstofuna og orðið ásátt um að bera hér fram brtt. varðandi viss héruð um útfærslu á þeim megintill., sem eru í frv. sjálfu. Og eins og ég lýsti við 1. umr. málsins, að mér yrði það mikið gleðiefni, ef hægt væri að taka meira inn í frv. að fengnum nýjum athugunum og till. frá raforkumálaskrifstofunni, þá vil ég enn lýsa því yfir, að það gleður mig mjög, að orðið hefur samkomulag milli hv. fjhn. og raforkumálastjóra um þær till., sem hér liggja fyrir. Það hefur komið alveg það sama fram hér hjá hv. frsm. fjhn. og ég tók fram við 1. umr., að viss atriði í þessu rafvæðingarkerfi væru enn of lítið rannsökuð til þess, að hægt væri að ákveða alveg upp á víst, hvernig framkvæmdum skyldi hagað, og það sama hefur komið hér fram í ummælum hv. frsm. n., að varðandi þessi nýju atriði, sem hér eru tekin inn, a.m.k. annað þeirra, er dálítið óvíst, hvernig framkvæmdin kann að verða, en er þó svo langt komið hvað rannsókn snertir, að raforkumálastjóri hefur treyst sér til að leggja til, að það yrði tekið inn í frv. á þann hátt, sem hér er gert. Þar sem það er viðurkennt, að raforkumálastjóri er einn með allra varfærnustu embættismönnum okkar um að segja ekki meira en hann telur, að hægt verði að standa við, þá tel ég það nokkuð öruggt frá hendi raforkumálaskrifstofunnar, að þessi leið verði farin um rafvæðingu héraðanna í Dalasýslu, eins og þar er lagt til.

Ég get því lýst ánægju minni yfir þeirri meðferð, sem hv. fjhn. hefur veitt þessu frv., og bendir það ótvírætt til þess, að hið háa Alþ. er enn á þeirri sömu skoðun og kom í ljós, þegar þessi 10 ára rafvæðingaráætlun var lögð fyrir Alþ., að það er mjög almennur vilji fyrir því að reyna að koma þessari áætlun út í lífið, ef við megum orða það svo, þ.e.a.s. reyna að framkvæma hana á þeim tíma, sem fyrirhugað var, eða a.m.k. eins fljótt og mögulegt er. Hinu er ekki að leyna, eins og ég held að ég hafi tekið fram við 1. umr. málsins, að þetta hefur nokkuð þanizt út við frekari rannsóknir og athuganir, eins og vitanlega hlaut að verða, og vitanlega hefur það í för með sér, að meiri fjárhæð þarf í þetta að lokum en í fyrstu var áætlað, vegna þess að 10 ára „planið“ hefur verið stækkað, auk þess sem þar koma önnur atriði til greina, eins og öllum er kunnugt, þ.e.a.s. aukin verðþensla, og á þann hátt, að það þurfi þá hærri upphæðir þess vegna. En mér þykir sérstaklega vænt um það, ef nokkurn veginn einhuga samkomulag eða kannske algert samkomulag er um það í Alþ. að fylgja þessu áfram á þann hátt, sem mér virðist nál. hv. fjhn. og þær brtt., sem því fylgja, benda til.

Ég skal aðeins taka það fram hér út af því, sem hv. þm. Dal. sagði hér áðan, að hann teldi gott að gefa út sérstaka bók um rafvæðingaráætlunina, að ég man ekki, hvort þetta kom til umr. við 1. umr., þó finnst mér það nú hafa verið. Þetta er í sjálfu sér ágæt till., en það kann að vera, að eftir að þetta frv. og jafnvel svolítið meira sé orðið að lögum, þá sé tími til þess kominn að gefa opinbera skýrslu um málið á prenti, svo að það liggi fyrir allri þjóðinni með upplýsingum um áætlun um rafvæðingu í hverju héraði. En það hefur áreiðanlega ekki verið tími til þess fyrr en nú, vegna þess að viðbótarrannsóknum hefur ekki verið lokið og er naumast lokið enn, eins og fram hefur verið tekið og mjög eðlilegt er. En þetta mun verða tekið mjög til athugunar af raforkumálaráðuneytinn. — Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram að svo stöddu.