23.01.1956
Neðri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

118. mál, ný orkuver og orkuveitur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég tek ekki til máls til að gagnrýna till. fjhn. við þetta frv., mér sýnist þær stefna í rétta átt og hef ekki neina athugasemd við það að gera. En ég var á ferð í Dalasýslu í sumar og varð þess þá var, strax og ég kom þar í héraðið, að það var mikil óró meðal manna um það, hvort Dalasýslu væri enginn staður ætlaður í þeirri 10 ára áætlun, sem þá hafði fyrir nokkuð löngu verið birt um raforkuframkvæmdir í landinu, og skildi ég þá óró mjög vel. Mér skilst, að það hafi verið fyrir löngu augljóst mál, að ekki væri um nema tvennt að ræða til þess að útvega raforku um Miðvesturland, það væri annaðhvort að leggja meginlínu frá Andakílsárvirkjun að sunnan og hins vegar frá Þverárvirkjun eða Þiðriksvallavatnsvirkjun í Strandasýslu að norðan og tengja þær línur saman og sjá byggðunum á Miðvesturlandi þannig fyrir raforku eða að virkja vatnsföll í Dalasýslu. Nú er langt síðan lagaheimild var fengin fyrir því að virkja Haukadalsá og ekki komin til framkvæmda og einnig í lögum ákvæði um, að virkja mætti Múlaá í Gilsfirði. En enn þá er sagt af raforkumálastjóranum, að það sé óákveðið, hvor þessara möguleika verði notaður. Sú óvissa verður viðvarandi, áframhaldandi, ef ekki er fyrir nokkuð löngu byrjað að mæla þessar ár, Múlaá og Haukadalsá, og ég þykist vita, að hæstv. raforkumálarh. geti upplýst það, hvort mælingar hafa um lengri tíma verið framkvæmdar í þessum tveimur ám og hvort þær eru í gangi nú og framvegis, því að ef svo er ekki, þá verður þessi óvissa um, hvor leiðin sé heppilegri, áframhaldandi og ekki hægt að taka neina ákvörðun um það af raforkumálastjórninni, hvora leiðina skuli velja, virkjanir þessara vatnsfalla eða lagningu lína að norðan og sunnan.

Ég undrast það í raun og veru, að raforkumálastjóri skuli vera svona seinn á ferðinni með ákvarðanir um það, hvora þessara tveggja leiða skuli fara um rafvæðingu Miðvesturlandsins, því að það hlýtur að vera reikningsdæmi fyrir honum og hans sérfræðingum, hvort skuli gert, ef mælingarnar liggja fyrir hendi um þessar tvær ár, sem helzt er horft á annars vegar, eða hvort nota skuli þegar beizlaða orku eða orku, sem fljótlega er hægt að ná til með því að setja upp aðrar vélasamstæður í Þverárvirkjun og Andakílsárvirkjun; en val er ekki hægt að gera milli þessa, nema því aðeins að mælingarnar hafi verið framkvæmdar eða séu enn þá í gangi. Ég tel, að séu mælingarnar í gangi, hljóti að verða óskað eftir því af íbúum Miðvesturlands, að þeim útreikningum verði hraðað og ákvarðanir fljótlega teknar um það, hvort eigi að leggja línur að norðan og sunnan eða hvort það eigi að fara í sérvirkjanir á þessu svæði. — Ég óska sem sagt eftir því, að hæstv. raforkumrh. gefi upplýsingar um það, hvort mælingar eru í áframhaldandi framkvæmd að því er snertir orku Múlaár og Haukadalsár.