04.11.1955
Efri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

81. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Út af athugasemdum hv. 1. þm. N-M. vildi ég segja það, þar sem hann minnist á ferðakostnað prestsins, að þegar þetta var til umræðu á s.l. vori, síðasta þingi, þá kom það fram í umr. og var fram tekið, að þar væri eingöngu um að ræða ferðakostnað að prestakallinu og frá því, þegar prestur kæmi að til að þjóna, svo að á þessu leikur nú ekki vafi.

Í öðru lagi var einnig minnzt á húsaleiguna, að í flestum tilfellum mundi presturinn geta gengið inn í húsnæði hjá þeim presti, sem yrði forfallaður, en væri það ekki og hann þyrfti að leigja sér húsnæði, því að stundum gæti staðið svo á, sérstaklega í kaupstöðum og þorpum, að hann yrði að fá annað húsnæði, þá yrði að sjálfsögðu að greiða það, því að það stafar eingöngu af því starfi, sem hann væri fenginn til og ætti ekki að greiða sérstaklega frekar en aðrir prestar.

Í frv. segir um prestsráðninguna, að ráðningartími sé t.d. til þriggja ára. Það er ekki ákveðnara til orða tekið en það, það gæti verið eftir samningum, það gæti þá t.d. verið alveg eins tvö ár, það er ekki aðalatriði, en að það sé vígður og ráðinn prestur til nokkurra mánaða, virðist vera gagnslitið og ekki viðkunnanlegt.

Það er annað frv. um sama efni hér, þ.e. skipun prestakalla, og er um það að segja, að einmitt á síðasta þingi var þessum frv. steypt saman, en það er frv. um Vestmannaeyjaprestinn, því var breytt nokkuð og fellt inn í þetta frv., en vel getur verið, að það horfi öðruvísi við nú, og kemur til athugunar hjá nefndinni.