15.11.1955
Efri deild: 18. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

81. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki alveg fylgzt með umræðunum, en mér skilst, að fyrir okkur þm. í þessari d. sé nauðsynlegt, að við vitum það, áður en við greiðum atkv. um þá brtt., sem hér liggur fyrir, hvort til standi að ráðstafa prestsembættinu á Þingvöllum lögum samkvæmt eða ekki. Ég hef að vísu ekki athugað nýlega lagaboðið, en hv. þm. Barð. fullyrti, og mig minnir, að það sé rétt, að lögboðið sé sérstakt prestakall á Þingvöllum. Og án þess að ég vilji deila við minn góða starfsbróður, hæstv. kirkjumrh., skilst mér, að það þurfi ekki neina tillögu frá biskupi um að framfylgja landsins lögum. Það er eðlilegt, að biskup eigi tillögurétt um framkvæmd á landsins lögum, ef þar er um vafaatriði að ræða og fleiri en einn möguleiki og valfrelsi hjá stjórnvöldunum. En ef það er rétt, sem mig minnir og hér hefur verið fullyrt í umræðunum, að það sé lögboðið að hafa prestakall á Þingvöllum, þá vantar mig skýringu á því, eins og hv. þm. Barð., af hverju þeim lögum hefur ekki verið fullnægt. Það er eðlilegt, að þeirri spurningu sé nú beint til hæstv. kirkjumrh., þó að þar sé auðvitað engan veginn hann um að saka á neinn veg, sérstaklega þar sem vitað er, að þeim sama hætti hefur verið haldið í 25 ár og menn af mörgum stjórnmálaflokkum og mismunandi viðhorfum í þessum málum haft æðstu stjórn þessara mála. En áður en við eigum að fara að taka ákvörðun um það, hvort við viljum láta sérreglur gilda um þetta prestakall, er eðlilegt, að við fáum alveg upplýst, hvernig stendur á því, að núgildandi reglum er ekki fullnægt. Og það flýgur í hug minn, að nær væri að samþykkja lagaákvæði um, að núgildandi lögum skyldi fullnægt, heldur en að samþykkja þá brtt., sem hv. þm. Barð. ber hér fram, sem mér finnst að sumu leyti óeðlileg.

Ég verð að játa, að mér finnst langeðlilegasta lausn þessa máls vera sú, að söfnuðum í Þingvalla- og Úlfljótsvatnsprestaköllum verði gefinn kostur á að kjósa sér prest eins og hverjum öðrum prestaköllum og síðan semji Þingvallanefnd við hinn kjörna prest, ef hann er til þess hæfur, um að vera umsjónarmaður á Þingvöllum. Og tel ég sannast sagt ákaflega ólíklegt annað en að þessar sóknir mundu velja mann, sem hægt væri að trúa fyrir ekki meira vandastarfi en það þó er að vera umsjónarmaður á Þingvöllum, og geri ég ekkert litið úr því. En auðvitað vitum við það, að núverandi fyrirkomulag, þar sem prestlærður maður og einn af mestu lærdómsmönnum íslenzku kirkjunnar situr sem umsjónarmaður á Þingvöllum, og svo eru prestar fengnir frá Mosfellunum báðum til þess að koma í þessar kirkjur, sem frá fornu fari hafa legið undir Þingvelli, í mesta máta óeðlilegt og vekur mann til umhugsunar um það, að miklu eðlilegra væri að gefa kjósendum þarna kost á því að greiða atkv. um það, hvort þeir vildu hafa þennan mann eða einhvern annan, sem býður sig fram til þess að vera prestur á staðnum, og síðan væri leitað til þess manns, sem kosinn er, ef hann er hæfur til þess að gegna því starfi að vera umsjónarmaður. Ég get ekki skilið, hvaða rök hníga gegn því að hafa þessa aðferð. Ég

verð að segja, að mér finnst till. hv. þm. Barð. vera mun óeðlilegri en að hafa þann hátt á, sem ég hér hreyfi.

Mér skildist hæstv. kirkjumrh. beina því til hv. menntmn., að hún kynnti sér skoðanir biskups á þessu efni. Ég hef sízt á móti því, en þar af mundi þá leiða, að málinu yrði frestað hér og 3. umr. haldið fram síðar, þar sem þetta er síðasta umr., ef ekki verður frestun. En ef slík frestun á sér stað, þá vildi ég mjög eindregið óska, að það lægi alveg ljóst fyrir, hvaða rök eru til þess, að ekki má framfylgja landsins lögum í þessum efnum eins og öðrum.