15.11.1955
Efri deild: 18. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

81. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég hef nú, herra forseti, raunar engu við það að bæta, sem ég var búinn að segja áður, út af ræðu hæstv. dómsmrh., annað en að endurtaka það, hve nauðsynlegt er, að sú n., sem hefur með þetta mál að gera, kynni sér skoðanir biskups í því. Sú hefur verið venja þau ár, sem ég hef farið með embætti kirkjumálaráðherra, og svo mun hafa verið um langan tíma, að það hefur verið í valdi biskups, hvenær laus prestaköll hafa verið auglýst. Ég hef aldrei haft nokkur áhrif á það þessi ár, hvað auglýst væri í þessum efnum, heldur hef ég algerlega lagt í hendur biskups að ákveða um það. Hann hefur stundum, herra biskupinn, spurt mig að því, hvort ekki væri sjálfsagt að auglýsa þetta og hitt prestakall, og hef ég alltaf sagt, að ég teldi sjálfsagt að gera það, ef hann teldi það hæfa. Eins og hæstv. dómsmrh. nefndi, hefur þetta verið svo um aldarfjórðungsskeið með Þingvelli, og hvort það er orðið eins og einhver hefð, sem ekki einu sinni herra biskupinn hefur viljað brjóta, að gera ekki neitt í þessum efnum, það skal ég á þessu stigi málsins ekki segja neitt um. En það er síður en svo, og átti ekki heldur að skilja orð mín þannig áðan, að ég væri með nokkra óánægju yfir því, að þessu máli væri hreyft hér. Ég tel meira að segja, að það geti verið ágætt að gera það, og mun að sjálfsögðu ræða við biskup um það, eins og ég hef tekið fram.

Ég tel alveg sjálfgefið, að þessari umr. verði frestað nú hér í deildinni og það gefist kostur til þess, að þessi till. verði tekin til meðferðar sérstaklega, þar sem hún er borin fram sem brtt. við frv. um hinar breytingarnar á prestakallaskipaninni, og mun ég að sjálfsögðu ekki skorast undan, ef óskað er eftir, að mæta þá á fundi nefndarinnar um þetta mál, ef svo vildi verða.