15.12.1955
Efri deild: 29. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur að geyma ákvæði um framlengingu söluskattsins eitt ár. Eins og fjárlagafrv. ber glöggt með sér, er full þörf á því, að ríkissjóður haldi þessum tekjustofni á næsta ári, og leyfi ég mér að vísa til þess varðandi ástæður fyrir frv.

Það er mikil nauðsyn á, að úr þessu máli verði skorið fyrir áramót, og vil ég því leyfa mér að óska þess við hæstv. forseta, að hann greiði fyrir málinu gegnum deildina, og hv. fjhn., að hún afgreiði málið skjótt frá sér, en til hennar legg ég til að málinu verði vísað að lokinni þessari umræðu.