12.01.1956
Neðri deild: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

130. mál, mannfræði- og ættfræðirannsóknir

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þegar ég á að mæla fyrir þessu frv.; koma mér í hug orð eða klausa, sem stendur í einu af handritum Landnámu og er þar niðurlagsorð. Þau eru á þessa leið: „Það er margra manna mál, að það sé óskyldur fróðleikur að rita landnám, en vér þykjumst heldur svara kunna útlendum mönnum, þá er þeir bregða oss því, að vér séum komnir af þrælum eða illmennum, ef vér vitum víst vorar kynferðir sannar, svo og þeim mönnum, er vita vilja forn fræði eða rekja ættartölur, að taka heldur að upphafi til en höggvast í mitt mál, enda eru svo allar vitrar þjóðir, að vita vilja upphaf sinna landsbyggða.“

Það munu vera sjö til átta hundruð ár síðan þetta var ritað eða fyrst skráð. Andinn, sem kemur fram í þessum fornu orðum, hefur legið hér í landi frá upphafi Íslandsbyggðar, og það er engum vafa bundið, að við eigum honum að þakka okkar fornbókmenntir, því að að uppistöðu til eru þær fyrst og fremst byggðar á ættartölum og mannfræði þeirra tíma. Það er líka að þakka þessum skilningi forfeðra okkar, að enn í dag getum við rakið ættir fjölmargra Íslendinga, sem nú eru uppi, og það manna úr öllum stéttum þjóðfélagsins, til manna, sem uppi voru á níundu öld. Ég býst við, að þetta sé ef til vill einsdæmi. Í öðrum löndum munu það aðallega vera stórhöfðingjar og fornar aðalsættir, sem geta rakið nokkuð ættir sínar, en þó tæplega öllu lengra en til elleftu og tólftu aldar. Aðrir vita tiltölulega lítið um ættir sinar, gagnstætt því sem hér er.

Ég ætla mér ekki í þeim orðum, sem ég segi hér, að fara að víkja að eða ræða um, hvert gildi ættfræði hefur og mannfræði í því sambandi, en vil þó vekja athygli manna á, að hér er áreiðanlega eitt af framtíðarmálum, ekki aðeins okkar, heldur mannkynsins, því að vafalaust verða látnar fara fram merkilegar rannsóknir, þótt síðar verði, á því, enda væri undarlegt, ef mannkynið væri það eina, sem ekki væri ástæða til að rannsaka þannig, þegar við litum til þeirra rannsókna, sem eiga sér stað á öðrum sviðum, t.d. á okkar búfé og mörgu öðru. Ég get þess vegna búizt við, að síðar meir fái slíkar rannsóknir einmitt merkilegt gildi, og vegna þess að íslenzka þjóðin hefur verið mjög einangruð, munu þær heimildir, sem þá væru tiltækar, þykja þá merkilegar. Þar fyrir utan er það, að ættfræði og mannfræði hafa verið áhugamál og dægradvöl fjölda manna frá landnámstíð og eru það enn í dag. Þessar fræðigreinar með þeim rannsóknum og heimildum, sem við höfum um þetta, gera það að verkum, að við höfum betri aðstöðu en líklega nokkur önnur þjóð til að gera merkilega hluti í þessu efni. Á ég þar við að gera skrá yfir alla íbúa þessa lands frá fyrstu tíð. Fámenni okkar ásamt ættfræðifróðleik og mannfræðiheimildum okkar gerir að verkum, að það ætti að vera kleift með ekki mjög miklum kostnaði að gera spjaldskrá yfir hlutfallslega miklu fleiri menn hjá þessari þjóð en hjá nokkrum öðrum þjóðum, auk þess sem þessi skrá mundi ná alla leið til landnámsaldar eða þess tíma, sem landnám hófst hér á landi, en það mun vera einstakt um þjóð, sem byggt hefur land sitt í meira en þúsund ár.

Ég vék að því áðan, að þetta væri einstakt með okkur Íslendinga, og við erum af ýmsum útlendingum taldir ættfróðasta þjóðin, sem þeir hafi komizt í kynni við. Þrátt fyrir það hefur verið tiltölulega lítið stutt að því og þeim mönnum, sem þessi fræði hafa stundað, verið lítið liðsinnt og þeir lítils stuðnings notið af opinberri hálfu eða fyrirgreiðslu. Þetta er þó áreiðanlega elzta merkileg fræðigrein, sem stunduð hefur verið hér á landi frá upphafi.

Ég hygg, og það munu allir, sem þessum fræðum eru kunnugir, telja, að þessum fræðigreinum verði ekki betur liðsinnt á annan hátt en með því að gera slíka spjaldskrá sem gert er ráð fyrir í frv.

Það er enn eitt, sem ástæða er til að vekja athygli á og styður að því, að það sé réttmætt að hefjast handa einmitt nú og draga það ekki öllu lengur, og það er það, að Hagstofa Íslands hefur þegar komið á fót hjá sér nokkurs konar spjaldskrárstofnun, þar sem eru skráðir allir Íslendingar, sem uppi voru 16. okt. 1952, og þeirri spjaldskrá er haldið áfram, þannig að hún tekur til hvers Íslendings, sem hér fæðist og elst upp. Í þessari spjaldskrá verða öll helztu atriði úr lífi mannsins svo að segja frá vöggu til grafar, og þetta verður varðveitt í skjölum hagstofunnar. Því miður er sá galli á þessari spjaldskrá eða þeim blöðum, að þau eru mjög óaðgengileg fyrir almenning. Þetta eru punktar og annað þess háttar, sem þarf helzt sérstakan lykil við, og er þess vegna ekki á almenningsfæri að notfæra sér það. Þess vegna er gert ráð fyrir í frv., að hagstofan sendi við lát hvers spjaldskrárhafa afrit af skrá hans og upplýsingar til þjóðskjalasafnsins, þar sem skrásetjari geti svo fært þetta inn á sín spjöld í samræmi við skrásetningu annarra íslenzkra borgara. Þannig heldur þetta áfram af sjálfu sér með örlitilli viðbót frá þjóðskjalasafni eða skrásetjara þess, og þannig er komin merkileg heildarskrá yfir alla Íslendinga, sem hafa fæðzt frá 1952.

Augljóst virðist mér og ég held flestum, sem um þetta vilja hugsa, að næsta skrefið hlýtur að verða að tengja þessa spjaldskrá við fortíðina. Með því móti vinnst það, að þessi spjaldskrá kemur að ýmsu leyti að miklu betri notum en ella yrði, og ég trúi því ekki, að menn, þegar frá liði, yndu því að hafa slíka eyðu eða nokkurs konar tómarúm, þegar þessi spjaldskrá hagstofunnar væri á annað borð farin að fá verulegt gildi. Hitt er svo líka jafnaugljóst, að það er miklu heppilegra að vinna að þessum málum nú þegar, einmitt taka spjaldskrárblöð hagstofunnar og færa þau inn í rétt form, heldur en að láta það bíða í mörg ár, því að þá fer verkið að verða miklu torveldara. Ég hugsaði mér, að þetta verk væri unnið þannig, að það væri byrjað á þeim mönnum, sem uppi voru næstu áratugina fram að 1952, og þannig unnið smám saman aftur á bak. Við höfum geysimiklar heimildir til um þetta, fyrst og fremst um allt það, sem af er helmingi 20. aldarinnar, og enn fremur höfum við ýtarlegar heimildir um alla 19. öldina. Úr því fara að vísu heimildir að verða slitróttari, en þó eru til manntöl bæði 1703, bændatal 1735 og manntal 1762, þó að það sé allófullkomið. Enn fremur fara þá úr því að koma ýmsar aðrar mikils verðar heimildir til að styðjast við. Þegar lengra dregur aftur, fer vitanlega þetta að verða gloppóttara, en þó er engum vafa bundið, að mikið mundi koma upp, og ég er alveg sannfærður um það og hef fyrir mér í því orð manna, sem þarna eru kunnugir, að við slíka skrásetningu og rannsóknir mundi margt koma í ljós, ekki aðeins ættfræðilega, heldur sögulega, sem núna er í fullkominni þoku fyrir mönnum.

Það kann vel að vera, að sumum kunni að vaxa þetta verk í augum og telja, að þetta sé svo mikið verk, að það sé óframkvæmanlegt eða illframkvæmanlegt. Það hefur verið gizkað á sem hámark, að alls mundi þurfa, ef þetta væri tekið fyrir, að skrásetja í kringum 2 millj. manna. Þetta er að vísu há tala. En þó verður að hafa það í huga, að sumar þjóðir verða árlega að skrásetja hjá sér þessa tölu, og til samanburðar má geta þess, að það er talið, að Þjóðverjar, sem skrásettir voru ættfræðilega á dögum Hitlers, hafi verið um eða yfir 200 milljónir.

Hér er ekki heldur gert ráð fyrir, að að þessu verði unnið í skyndi. Þetta er vitanlega verk, sem verður að vinnast á löngum tíma, og í raun og veru er ekki hægt að segja, að það kalli neitt sérstakt að um þetta, aðeins er áriðandi, að það sé hafizt handa og hafizt handa sem fyrst. Með frv. hef ég reynt að koma þessu í það horf, að þetta yrði framkvæmt án tilfinnanlegs árlegs kostnaðar fyrir ríkissjóð. M.a. hef ég gert ráð fyrir, að skrásetjari, sem yrði sá maður, sem hefur aðalforgöngu þessara mála, leiti samvinnu bæði við einstaklinga úti um héruðin og sömuleiðis við sögufélög og byggðafélög um samstarf í þessum efnum.

Í mínu héraði er þó nokkuð af mönnum, aðallega eldri mönnum, sem hafa lagt þetta fyrir sig, og ég veit, að þeir mundu með ánægju leggja þarna drjúgan skerf til. Þetta er þeim ánægja, þeir eru ekki að vinna fyrir peningum. Þeir eru að vinna fyrir málefni, sem þeir hafa áhuga á og vilja gjarnan koma áleiðis, og það er einmitt það, sem ég ætlast til að þessi maður, skrásetjari þjóðskjalasafnsins, notfæri sér, hann setji sig í samband við menn, sem hafa áhuga á þessum málum og eru fúsir til að leggja fram vinnu sína. Það er þeim nokkurs konar dægradvöl og ánægja að vinna að þessu og geta þannig orðið að ómetanlegu gagni.

Í þessu sambandi tel ég rétt að benda á, að það er annað starf, sem hefur verið unnið hér á landi og ekki ómerkilegt, sem var að mjög miklu leyti unnið á þennan hátt, og það er örnefnasöfnun hér á landi. Ég veit t.d., að örnefnum í Skagafirði var safnað af einum eða tveimum mönnum, áhugamönnum, fyrir sama sem ekki neitt. Þessir menn víðs vegar á landinu hafa unnið stórkostleg gagn, og þjóðin mun síðar meir koma til með að standa í mikilli þakkarskuld við þessa menn. Ég hugsa, að líkt muni farið um þá menn, sem ynnu í samstarfi við skrásetjara þjóðskjalasafnsins.

Ég hef gert ráð fyrir, að fyrst um sinn mundi nægja einn maður eða skrásetjari með duglegri vélritunarstúlku, og ef til vill þyrfti einhverja smáupphæð, sem hann mætti verja til þess að þægja mönnum, sem væru alveg sérstaklega duglegir við slíka söfnun úti um land. Að öðru leyti álít ég, að þetta geti komizt áfram, og ég vil jafnframt mælast til, ef einhverjum kynni að ofbjóða kostnaðurinn við þetta, að þeir hinir sömu líti t.d. yfir 15. gr. fjárlaganna og sjái þær upphæðir, sem þar er varið til ýmiss konar málefna, — málefna, sem í sjálfu sér eru vafalaust mikilsverð og góð út af fyrir sig, en standa þó okkur áreiðanlega miklu fjær en þetta málefni, sem hér er fram borið. En þessi söfnun og skrásetning, sem hér er farið fram á, mundi aðeins kosta brothluta af því, sem varið er til ýmissa slíkra málefna.

Það hefur verið bent á, að í sambandi við skrásetninguna væri rétt að tengja ýmislegt fleira. T.d. hefur verið vikið að því að safna ljósmyndum og taka upp raddir manna á hljómplötur. Ég vil upplýsa það, að þjóðminjasafnið hefur haft myndasöfnun á hendi nú um langt skeið, og þjóðminjavörður skýrði mér frá, að hann gerði ráð fyrir, að myndir á þjóðminjasafninu mundu vera komnar nokkuð á annað hundrað þúsund, sem allar eru skrásettar og varðveittar á þjóðminjasafninu. Sömuleiðis hefur þjóðminjasafnið nú undanfarið verið að fá teknar upp raddir manna og hefur verið um það í sambandi við útvarpið. Þetta er að vísu skemmra á veg komið, en það er unnið að því. Af þessum ástæðum, að þarna eru opinberir aðilar, sem vinna að þessum málum, og aðilar, sem ég tel að við megum treysta, hef ég ekki séð ástæðu til að taka nein ákvæði um þetta upp í frv., meðfram fyrir það, að ég lít svo á, að skrásetningin ein út af fyrir sig sé nægilegt verkefni og því ekki ástæða að svo stöddu, ef ekki ber brýna nauðsyn til, að fjölga verkefnum fyrir þann mann. Hef ég þá haft í huga þetta gamla, að það er alltaf nokkur hætta, ef mörg járn eru í eldi, að þá vilji eitthvert brenna. Þess vegna hef ég, eins og ég sagði, ekki tekið þetta upp, enda lít ég svo á, að það sé auðgert að bæta því við síðar, ef þá þykir ástæða til.

Loks vil ég minna á það, að þessi hugmynd um að spjaldskrá ala Íslendinga er allgömul. Sá maður, sem ég heyrði fyrst ræða um þetta, var Bjarni heitinn Jónsson frá Vogi. Það getur vel verið, að einhverjir hafi hreyft þessu á undan honum. Síðan hefur þetta alloft borið á góma í hópi fræðimanna og ættfræðinga, og mér er vel kunnugt um það, að ættfræðingar munu ekki eiga annað meira áhugamál, að ég hygg, en að þetta kæmist á.

Þessu máli hefur verið hreyft öðru hverju, og síðast nú á þinginu í haust. Þá var flutt brtt. við fjárlögin um að verja 150 þús. kr. til þess að skrásetja Íslendinga o.fl. Eins og ég get um í grg., greiddi ég atkvæði gegn þessari till. ásamt meiri hluta þingmanna, og þetta gerði ég eingöngu vegna þess, að ég taldi, að mál þetta væri þannig vaxið, að það væri ekki verulegur ávinningur fyrir það að fá því komið fram í þál., um það þyrfti að setja nokkuð fastákveðnar reglur strax í upphafi og þá með lagafyrirmælum. Annars væri efasamt, að æskilegur árangur næðist. Ég taldi líka, að það gæti orðið erfiðara að fá mann, sem væri þessu starfi vaxinn, til þess að takast þetta á hendur, ef hann ætti undir högg að sækja um að fá laun sín greidd eða m.ö.o. yrði að fá samþykki Alþingis í hvert skipti fyrir launum sínum og starfsfé. En mér hefur fundizt það vera vaxandi áhugi hjá mönnum og vaxandi skilningur, ekki aðeins á þessu atriði, heldur á ýmsu öðru, sem þjóðlegt er, nú með þjóð okkar og þá væntanlega einnig meðal þingmanna. Þess vegna hef ég ráðizt í að færa þetta mál í þann búning, sem hér liggur fyrir, í von um, að það mætti verða til þess, að þingmenn vildu veita því brautargengi og málið kæmist í örugga höfn.

Ég skal að lokum geta þess, að ég hef um þetta mál borið mig saman við bæði forstöðumann þjóðskjalasafnsins og enn fremur við þá þjóðskjalaverðina séra Jón Guðnason og Kjartan Sveinsson. Enn fremur hef ég borið það atriði, sem snertir hagstofuna, undir hagstofustjóra. Allir þessir menn hafa tjáð mér, að þeir séu þessu algerlega fylgjandi og hafi ekkert við það að athuga og raunar meira en það. Ég ætla svo ekki að fjöl,yrða frekar um þetta mál, en vænti þess, að málinu verði vel tekið. Að umr. lokinni óska ég eftir, að málinu verði vísað til menntmn.