16.12.1955
Efri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Meiri hl. hv. fjhn. hefur falið mér að gera grein fyrir áliti sínu, og það get ég gert í mjög stuttu máli. N. klofnaði um afgreiðslu málsins, og við erum þrír, sem skipum meiri hl. Einn nm., hv. þm. Seyðf. (LJóh), gat ekki mætt á fundinum við afgreiðslu málsins, en hann hefur tjáð mér utan funda, að hann sé samþykkur áliti meiri hl. Má því telja, að fjórir nm. af fimm séu einhuga í málinu og leggi til, að frv. verði samþ. óbreytt. Hins vegar hefur hv. 4. þm. Reykv. (HG) andstöðu við málið og hefur skilað nál. og brtt.

Frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. sem efnislega alveg óbreytt framlenging á gildandi lögum um tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Meiri hl. n. gekk til hreins um, að þetta er rétt. Frv. felur ekkert í sér annað en framlengingu um eitt ár á gildandi ákvæðum, hvorki meira né minna.

Meiri hl. lítur svo á, að hjá þessari tekjuöflun verði alls ekki komizt, þegar litið er á frv. til fjárl. fyrir 1956, sem búið er að fara gegnum 2. umr. hér í þinginu, og þá hækkun, sem allir vita að er óhjákvæmileg við 3. umr. á útgjaldahlið frv.; það getur engum dulizt, að söluskattsins er full nauðsyn áfram. Það má segja, að oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn.

Hv. 4. þm. Reykv. er á annarri skoðun eða a. m. k. er hann andvígur söluskatti, og í nál. á þskj. 270 gerir hann grein fyrir þessari andstöðu. Þar sem það eru gamalkunn rök, sem hafa komið fram við umr. þessa máls á undanförnum árum, sé ég ekki ástæðu til að tefja tímann með að fara út í þau. En hv. 4. þm. Reykv. gerir ráð fyrir því líka, að þessi rök hans verði ekki tekin til greina, og þar af leiðandi kemur hann fram með brtt., sem er um það, að mér sýnist, að ¼ hluti söluskattsins verði látinn ganga til þess að greiða hann sveitarfélögunum eftir fólksfjölda í þeim samkvæmt manntali næstliðins árs og þó með þeirri takmörkun, að ekkert sveitarfélag fái greiðslu, er nemi meiru en 50% af álögðum útsvörum næsta ár á undan í viðkomandi bæjar- eða hreppsfélagi.

Nú er það svo með mig, að ég skal síðastur manna verða til þess að mæla gegn því, að sveitarfélögin séu í erfiðleikum með tekjuöflun sína, og það færi vel á því, að Alþ. liti til þeirra og greiddi fyrir því, að þau gætu aflað tekna á rýmri hátt en áður og með hentugri aðferðum, því að vitanlega stækkar þeirra þörf fyrir tekjuöflun eins og ríkissjóðsins. En þrátt fyrir það að ég sé þessarar skoðunar, sé ég ekki, að nokkurt vit sé í því að gera ráð fyrir, að ríkið geti staðið af fjórða parti af þessari tekjuöflun, og þess vegna get ég ekki mælt með eða stutt þessa till.

Hins vegar get ég lýst því yfir persónulega, að mér þætti það geta vel komið til mála að hækka söluskattinn t. d. um 25% og ætla sveitarfélögunum þann hlut, sem þá fengist fram yfir, t. d. gegn því, að þau legðu niður að leggja á veltuútsvör eða takmörkuðu þau a. m. k. frá því, sem nú er. Ef sú till. lægi fyrir, en það er ekki, mundi ég hafa aðra afstöðu til hennar en þessarar till., af því að ég viðurkenni þörf sveitarfélaganna, en ég veit svo vel þörf ríkissjóðsins, að til mála getur ekki komið að skerða tekjuöflun þessa, eins og hún er hugsuð samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir.

Nú sé ég enga ástæðu til þess að hafa lengri framsögu. Málið er svo margrætt á undanförnum árum, og tími deildarinnar er naumur. Ég mun þess vegna varla taka til máls aftur, nema eitthvað nýtt komi fram af hálfu andstæðinga þessarar tekjuöflunar.