20.02.1956
Neðri deild: 73. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

155. mál, vátryggingasamningar

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem fyrir liggur, er flutt af sjútvn. eftir beiðni Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum og í samráði við atvmrn. Því miður varð ekki af því við 1. umr., að gerð væri grein fyrir efni frv., sem þó hafði verið ætlunin, og vil ég þess vegna nú við þessa umr. fara um það nokkrum orðum.

Árið 1954 voru sett lög um vátryggingarsamninga, nr. 20 það ár, sem er almenn löggjöf um það efni. Í þessum lögum frá 1954 er m. a. kveðið á um það, að niður falli tiltekin ákvæði úr lögum frá 1921, um vátryggingarfélag fyrir fiskiskip, þ.e.a.s. samábyrgðina, og lögum frá 1947, um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, sömuleiðis lög frá 1952 um sama efni.

Með lögunum um vátryggingarsamninga er því svo komið, að lögin nm vélbátatryggingar eru niður felld að nokkru leyti, eftir því sem nánar er tiltekið í þessum nýju lögum, og gilda því aðeins að því leyti, sem þau hafa ekki verið niður felld. En um þau atriði, sem hafa verið felld niður úr hinum eldri lögum um vélbátatryggingar, gilda ný ákvæði í hinum nýju lögum um vátryggingarsamninga.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að þau ákvæði úr l. um vélbátatryggingar, sem felld voru niður 1954, komi aftur í gildi, og hefur verið gert ráð fyrir því, að þau verði í gildi, þangað til tími hefur unnizt til þess að endurskoða lögin um vélbátatryggingar í heild.

Í grg. frv. á þskj. 375 er birt bréf til sjútvn. frá forstjóra samábyrgðarinnar. Í þessu bréfi er sérstaklega gerð grein fyrir einni breytingu, sem hin nýju lög um vátryggingarsamninga hafa haft í för með sér og forstjórinn telur að muni verða mjög afdrifarík fyrir starfsemi samábyrgðarinnar og bátaábyrgðarfélaganna, ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir.

Í lögum um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip stóð í 22. gr. m.a. það, sem nú skal lesið, með leyfi hæstv. forseta:

„Öll þau skip, sem tryggð eru samkvæmt lögum þessum eða af samábyrgðinni, svo og öll þau skip, sem ríkisstofnanir eða ríkissjóður gera út eða sjá um útgerð á, eru skyld til að hjálpa hvert öðru úr háska. Greiðslu fyrir slíka hjálp verður ekki krafizt eftir venjulegum björgunarreglum, heldur skal hún ákveðin af stjórn hlutaðeigandi félags, þegar bæði skipin eru tryggð hjá sama félagi, ella stjórn samábyrgðarinnar. Greiða skal aðeins það fjártjón og þann tilkostnað, sem hjálpin hefur bakað þeim, er hana veitti, þó með þeim takmörkunum, er segir í 3. mgr. 13. gr., og aldrei getur greiðslan orðið hærri en vátryggingarfjárhæð skipsins, sem hjálpina þáði“ o.s.frv.

Svipuð ákvæði eru í lögunum um samábyrgðina frá 192l.

Nú er það svo, að með lögunum um vátryggingarsamninga er m.a. einmitt þessi gr., sem ég nú las, numin úr lögum, þannig að um greiðslu fyrir björgun á skipum, sem tryggð eru samkv. lögunum, fer nú eftir allt öðrum reglum, að því er talið er, og þessa breytingu hafa menn, eins og ég gerði áður grein fyrir, talið það alvarlegs eðlis fyrir tryggingastarfsemina, að ekki verði við unað.

Niðurfelling þessarar gr. mun vera aðalástæðan til þess, að málið er flutt fram, en eins og ég sagði, er frv. um að láta þau ákvæði í lögunum um samábyrgðina og vélbátatryggingarnar, sem felld voru niður með nýju lögunum frá 1954, taka gildi á ný.