22.11.1955
Neðri deild: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. talaði hér áðan og einnig hv. 2. þm. Reykv. og báðum fannst ekki viðeigandi, að þetta mál fari ekki til n. Ég hélt nú satt að segja um mál, sem væru flutt af n., að það væri ekki þörf að óska þess, að þau færu til n. (Gripið fram í.) Málið er flutt af nefnd. (EOl: Nei, það er ekki flutt af nefnd.) Jú. (EOl: Það er flutt af meiri hluta nefndar, en ekki af nefnd.) Nefndin hefur þá á valdi sinn að breyta frv., eftir því sem henni þóknast, án þess að því væri vísað til hennar. En hins vegar þegar þess er sérstaklega óskað, að því sé vísað til n., þá hef ég ekkert á móti því.

Hv. 6. þm. Reykv. gat þess, að grg. fyrir frv. væri stutt. Það er alveg satt, hún er það. Út af fyrir sig var það ekki nefndarinnar að semja grg. fyrir frv., sem henni er sent. En ég vil benda á það, að í grg. fyrir frv. er vísað til þess frv., sem lá fyrir hv. Alþ. í fyrra, og þeirrar grg., sem því fylgdi, ásamt þeim nál., sem fram komu varðandi málið á síðasta Alþingi. Og ég hygg, að ef þingmenn vildu kynna sér þau nál., komi greinilega í ljós, hver afstaða einstakra þingflokka og einstakra aðila, sem þarna eiga hlut að máli, er til þessa frv. En hvort sú afstaða hefur gerbreytzt á þessu eina ári, það skal ég ekkert um segja, en það má vel vera, að svo sé, og færi kannske betur.

Um það, hvers vegna minni hluta n., sem samdi frv. upphaflega, var ekki sent frv., get ég ekkert sagt, og það má vel vera, að svo hafi verið, þó að það sé ekki tekið fram í grg. En ég vil bara benda á, að einmitt í því frv., sem hér liggur fyrir, er tekinn upp meginþáttur í þeim till., sem minni hl. n., sem samdi frv. upphaflega, lagði til, það eru till. Björns Jóhannessonar. Hann benti m.a. á, að það væri ekki æskilegt að gerbreyta til um umboðsmenn, og nefndin, sem vann að þessu frumvarpi hér í þinginu í fyrra, tók mikið tillit til þessa, og frv. var breytt í þá átt, að þeir umboðsmenn, sem áður hafa verið, eru látnir vera áfram. En ég er nú þeirrar skoðunar, að það gegni öðru máli með grænmetisverzlun ríkisins sem einkasölu en ýmsar aðrar ríkisstofnanir, m.a. vegna þess, að það líða aldrei mörg ár, þar til við Íslendingar getum fullnægt okkar eigin þörfum í ræktun með grænmeti, og þá höfum við í raun og veru ekkert með grænmetisverzlun ríkisins að gera. Og svo vil ég benda á það í sambandi við það, að fela eigi framleiðsluráði landbúnaðarins einkainnflutning á garðmeti, ef til kemur, að það sé reginmisskilningur, vegna þess að það er ríkisstj., sem hefur einkainnflutninginn með höndum og getur falið hvaða aðila sem henni svo sýnist að annast þann innflutning.

Þess er skemmst að minnast, að fyrir nokkru var hörgull á kjöti í landinu, svo að það þurfti að grípa til innflutnings, og það var engin einkastofnun í landinu, sem hafði með slíkt að gera, þegar til þess þurfti að grípa. Þess vegna varð ríkisstjórnin að ráðstafa því. Hvers vegna getur hún þá ekki eins ráðstafað innflutningi, ef um kartöflur eða annað grænmeti er að ræða? Ég sé ekki neinn reginmismun á þessu, enda álít ég líka, að framleiðsluráð landbúnaðarins og starfsemi þess á undanförnum árum hafi sýnt og sannað, að þeir hafa ekki á nokkurn hátt misnotað það vald, sem þeim er falið lögum samkvæmt. Og því er ekki ástæða til, að þeir muni misbeita valdi sínu, þó að þeir fái eitthvað meira vald í því að annast um sölu á garðmeti, frekar en öðrum landbúnaðarafurðum. Það er beinlínis sannað mál, að framleiðslan í landinu hefur dafnað og vaxið, eftir því sem sölufyrirkomulagið hefur flutzt meira í hendur framleiðendanna sjálfra. Það þótti á sínum tíma ekki neitt girnilegt fyrir bændur landsins að koma með fé austan úr sveitum hingað til Reykjavíkur og bíða viku, hálfan mánuð og kannske meira og verða svo að selja það fyrir lítið verð. Og það er einmitt fyrir skipulagningu í þessum málum, sem það hefur áunnizt, að bændurnir hafa fengið hlut sinn réttan. Hvers vegna er þá ástæða til að óttast um það, ef þeir eiga sjálfir að fara með sölufyrirkomulag á garðávöxtum, að það fari frekar út um þúfur en annað, sem þeim hefur verið falið? Ég sé ekki nein rök fyrir þessu máli, nema síður sé, því að þróunin í þessum málum hefur sýnt okkur allt annað en hér er haldið fram. Og jafnvel þó að það hafi verið mjög æskilegt og ekkert annað skárra fyrir 20 árum en að koma á einkasölu í þessum efnum, þá er þar með ekki sagt, að tímarnir hafi leitt í ljós, að það sé æskilegasta fyrirkomulagið nú. Það er öðru nær.

Ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, að málinu sé vísað til n. og það krufið þar, þótt ég hins vegar líti þannig á, að tillögur flestra þeirra aðila, sem að þessu máli snúa, liggi þegar fyrir hv. Alþingi.