23.01.1956
Neðri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Áageir Bjarnason):

Herra forseti. Það er nokkuð langt um liðið síðan þetta mál var hér til 1. umr., og gerði ég þá allglögga grein fyrir frv. Frv. er nú að heita má í nákvæmlega sama formi og þegar það var lagt hér fyrir Alþingi í vetur, og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um það, en vil þó að nokkru geta þeirra umsagna, sem borizt hafa, því að á tímabilinu, sem n. hafði frv., sendi hún það til umsagnar nokkurra aðila, sem hafa siðan sent svör.

Framleiðsluráð landbúnaðarins var einn aðilinn, sem frv. var sent til umsagnar, og mælti það eindregið með framgangi þessa máls, og sömuleiðis var frv. sent til umsagnar Stéttarsambands bænda, sem mælir sömuleiðis eindregið með framgangi þess, og vil ég, með leyfi forseta, lesa hér upp till, sem samþykkt var á aðalfundi Stéttarsambands bænda nú á s.l. ári:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1955 þakkar stjórn sambandsins ötula baráttu fyrir bættri skipan matjurtasölunnar. Jafnframt ályktar fundurinn, að bændastéttin geti ekki lengur unað drætti á nauðsynlegri löggjöf um matjurtasöluna, og vísar um það til fyrri samþykkta. Fundurinn heitir áframhaldandi stuðning landbrh. og væntir jafnframt skilnings alþingismanna á þessu nauðsynjamáli og felur stjórn Stéttarsambandsins að vinna einarðlega að því, að samþykkt verði löggjöf um matjurtasöluna á Alþingi í haust í samræmi við samþykktir fyrri aðalfunda.“

Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa matjurtasölumálin verið eitt af aðalmálum Stéttarsambands bænda allt frá stofnun þess, og það má segja, að þetta frv. sé ekki nýtt mál á döfinni, þar sem það hefur verið í gerjun um það bil 7–8 ár, þótt það hafi ekki verið lagt fram á hv. Alþingi í því formi, sem nú er, fyrr en á s.l. ári.

Þá sendum við frv. til umsagnar Búnaðarfélags Íslands, og mælir stjórn þess eindregið með því, að það verði samþykkt.

Við sendum frv. sömuleiðis til umsagnar Sambands smásöluverzlana, sem óskaði eftir einni smávægilegri breytingu á frv., og hún er þess efnis, að fulltrúi frá Sambandi smásöluverzlana fái að vera viðstaddur, þegar rædd eru sérstaklega þau mál, sem Samband smásöluverzlana varða, og höfum við orðið við ósk Sambands smásöluverzlana og flytjum hér eina brtt. til samræmis við það.

Vegna þess að það tímatakmark, sem áður var ákveðið í frv., hvenær lögin ættu að öðlast gildi, er þegar úr sögunni, er því breytt þannig, að lögin öðlist gildi 1. sept. á þessu ári.

Að svo stöddu hef ég ekki meira að segja um þetta mál. Ég get að vísu getið þess, að frv. var að sjálfsögðu sent til umsagnar grænmetisverzlunar ríkisins, og hefur hv. minni hluti, 6. þm. Reykv., birt álitsgerð grænmetisverzlunarinnar í málinu. Ég get tekið það fram nú, eins og ég tók fram þegar við 1. umr. þessa máls, að það ér út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, að þeir starfsmenn, sem eru við stofnun sem grænmetisverzlunina, séu undir þessum kringumstæðum mótfallnir því, að stofnunin sé lögð niður. Slíkt mundu allir gert hafa, svo að út af fyrir sig sé ég ekki, að það sé nein brýn ástæða til að taka tillit til þess, þar sem það væri hins vegar óeðlilegt, ef starfsmenn við stofnunina æsktu þess, að hún væri lögð niður. Finnst mér því, þar sem allir aðilar, sem leitað var umsagnar til, hafa svarað þessu jákvætt nema starfsmenn stofnunarinnar, að þá sé það þyngra á metunum. Ég vil geta þess, eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, að þetta er málefni bændastéttarinnar og Stéttarsambands bænda, sem þeir hafa verið að berjast fyrir á undanförnum árum og vænta eindregið eftir, að þeim verði mætt með skilningi og þetta mál nái fram að ganga nú á þessu þingi.