02.02.1956
Neðri deild: 61. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir heldur miður, að hæstv. landbrh. skuli vera forfallaður og þar af leiðandi ekki geta verið við umr. um þetta áhugamál sitt. Ég hefði einnig gjarnan viljað sjá hæstv. fjmrh. hér og taka aðeins upp þráðinn frá því í gærkvöld, þegar við minntumst á þessa stofnun í útvarpsumræðunum. Þá kom það fram hjá hæstv. fjmrh., að hann kvaðst láta svo á, að það ætti alls ekki að leggja grænmetisstofnun ríkisins niður. Fullyrti hann í áheyrn alþjóðar, að ekkert slíkt stæði til. En svo kemur blað hæstv. fjmrh., Tíminn, í dag og segir skýrum orðum það, sem raunar allir vita og hæstv. fjmrh. manna bezt, að með frv. því, sem hér um ræðir, eigi að leggja grænmetisverzlun ríkisins niður og stofna aðra grænmetisverzlun á annarra vegum. Ég hélt, að það þyrfti ekki að deila um svo augljósan hlut, og veit, að hæstv. fjmrh. er þetta fullkunnugt, þó að hann teldi heppilegra að halda öðru fram í gærkvöld.

Ég hefði einnig viljað ræða lítið eitt við sama hæstv. ráðh. um skilning hans á því, hvað sé opinbert fyrirtæki og hvað einkafyrirtæki. Hann virtist, í gærkvöld að minnsta kosti, rugla þessum hugtökum nokkuð mikið saman, en vonandi hefur hann nú leiðrétt sig í því efni.

Ég ætla með nokkrum orðum að gera grein fyrir afstöðu okkar þjóðvarnarmanna til þessa frv. Málið hefur verið rætt allmikið, bæði á Alþ. í fyrra og eins nú á þessu þingi. Eftir þær umr. svo og með tilliti til allra þeirra fylgiskjala, sem fram hafa verið lögð í málinu, þótt kartöflubiblían fræga hafi að vísu ekki verið lögð fram enn þá, virðist mér, að málið liggi tiltölulega ljóst fyrir og þess vegna sé ekki ástæða til að lengja umr. úr hófi fram. Ég get samt ekki látið hjá líða að minnast á nokkur atriði málsins.

Meginefni frv. er óumdeilanlega það, að grænmetisverzlun ríkisins verði lögð niður, en stofnuð verði í hennar stað grænmetisverzlun landbúnaðarins undir stjórn framleiðsluráðs landbúnaðarins. Mér skilst, að svo sé til ætlazt, að í höndum þessa nýja aðila eigi að vera ekki aðeins yfirstjórn allrar sölu á kartöflum, sem framleiddar eru hér á landi, svo og öðru grænmeti, en auk þess sala á öllum innfluttum kartöflum og allur innflutningur þeirra svo og sala á innfluttu grænmeti. Ýmislegt er þó næsta óljóst í frv., eins og þegar hefur verið bent mjög ljóslega á, einkum af forstjóra grænmetisverzlunar ríkisins í álitsgerð hans, sem prentuð er hér með áliti minni hl. hv. landbn. Sömuleiðis hefur hv. frsm. minni hl. n., hv. 6. þm. Reykv. (SG), bent á ýmis atriði, sem eru næsta óljós í frv. Svo er til dæmis um það, hver skuli vera hinn raunverulegi eigandi grænmetisverzlunar landbúnaðarins, sem ætlazt er til að fái keyptar eignir grænmetisverzlunar ríkisins með þeim kjörum, sem ríkisstjórnin ákveður.

Sitthvað er það fleira, sem ekki liggur algerlega ljóst fyrir, hvernig skilja beri í þessu frv. Grænmetisverzlun ríkisins var stofnuð fyrir 20 árum. Framsóknarmenn stóðu að stofnun hennar, og þeir gerðu það í því skyni að gera umbætur á sölu og meðferð garðávaxta og annast hóflegan innflutning, svo sem þörf krefði hverju sinni. Áður hafði þetta verið skipulagslitið, og skipulagsleysið í þeim efnum hafði ekki gefizt vel. Hér var að því stefnt að tryggja hvort tveggja, hagsmuni framleiðenda og neytenda. Skipulagsleysið hafði, eins og ég áður sagði, valdið margvíslegum óþægindum fyrir báða þessa aðila. Afleiðingin varð of mikill innflutningur á kartöflum í góðum sprettuárum og of lítill innflutningur og þá kartöfluskortur, þegar illa spruttu kartöflur í landinu.

Hvernig hefur nú þetta skipulag gefizt, sem hér hefur ríkt í þessum efnum nú um 20 ára skeið? Hefur það gefizt svo ákaflega illa, að sérstök ástæða sé til að gera þar á verulega breytingu? Ég efast ekki um það, að grænmetisverzlun ríkisins hefur sætt gagnrýni á þessum árum, eins og mörg opinber fyrirtæki. Það má segja, að slíkt sé algengt. Jafnvel þó að opinberum fyrirtækjum sé vel stjórnað, liggja þau jafnan undir opinberri gagnrýni, og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Ef hún er á rökum reist, þá er hún nauðsynleg. En ég held, að sú gagnrýni, sem einkum hefur komið fram á grænmetisverzlun ríkisins og starfshætti hennar, hafi verið langsamlega mest á fyrri árum hennar, en hún hafi minnkað og jafnvel að miklu leyti þorrið síðari árin, og það er nú viðurkennt af flestum, sem eitthvað þekkja til, að þessi ríkisstofnun er á margan hátt myndarlegt og vel rekið fyrirtæki. Um rekstrarkostnað hygg ég, að þessi stofnun sé mjög til fyrirmyndar. Það munu ekki starfa á skrifstofu þessa stóra fyrirtækis nema 5 menn, að forstjóra meðtöldum, en þetta er fyrirtæki, sem mun árlega velta 40–50 millj. kr. Er það ekki ýkja algengt, að svo vei sé á málum haldið að því er sjálfan reksturinn snertir.

Vitnisburðir um gagnsemi þá, sem orðið hefur af störfum grænmetisverzlunar ríkisins, eru hér ýmsir prentaðir sem fylgiskjöl með nál. minni hl. hv. landbn. Og hver er vitnisburður hæstv. landbrh. sjálfs? Samkvæmt frásögn í dagblaðinu Tímanum frá 26. jan. hefur hæstv. ráðh. látið svo ummælt um þessa stofnun, sem hann vill nú láta leggja niður, með leyfi hæstv. forseta. Það, sem ég nú les, er endursögn á ræðu hæstv. landbrh., endursögn fréttamanns Tímans. Þar segir:

„Hann (þ.e. hæstv. ráðh.) kvaðst ekki ætla að ræða um forsögu málsins eða störf grænmetisverzlunar ríkisins, það væri stofnun, sem frá upphafi hefði verið rekin mjög vei að sínum dómi og gert mikið gagn, og ekkert, sem hann segði hér um þetta mál, væri sagt til þess að viðra þeirri starfsemi á einn eða neinn hátt, síður en svo. Hún hefði á sínum tíma verið stofnsett að frumkvæði Framsfl. og fengið misjafnar víðtökur, en reynslan hefði sýnt, að þessi skipulagning var nauðsynleg, og engum hefði dottið í hug nú upp á síðkastið, að hún yrði afnumin.“

Þetta er frásögn dagblaðsins Tímans af kafla úr ræðu hæstv. landbrh. um þetta mál.

Ég hlýddi á þessa ræðu og hygg, að hér sé í öllum atriðum rétt með farið kjarna þess, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta efni. Í hinni sömu ræðu lagði hæstv. ráðh. áherzlu á það, að með þeirri lagabreytingu, sem hér um ræðir, væri verið að leggja á herðar Stéttarsambands bænda og framleiðsluráðs landbúnaðarins geysilega erfitt verkefni, og ráðh. kvaðst síður en svo öfunda þessa aðila af því að eiga að leysa það af hendi. Ég man ekki betur en að hann kæmist að orði eitthvað á þá leið, að reynt hefði verið að sporna við því, að framleiðsluráðið tæki á sig ábyrgð á rekstri slíkrar stofnunar. Mér skildist, að hæstv. ráðh. sjálfur hefði reynt að sporna við því, að þessir aðilar færu inn á þá braut, sem nú er fyrirhugað með þessu frv. En hann bætti því við, að þeir hefðu sótt málið fast og gert um það ítrekaðar samþykktir á fundum Stéttarsambands bænda. Þess vegna kvaðst ráðh. hafa talið sér það skylt að veita þessu máli liðsinni sitt til þess að verða við óskum bænda, þótt það kostaði þá fórn að leggja í rúst ríkisstofnun, sem Framsfl. hafði komið á fót á sínum tíma og ráðh. sjálfur viðurkennir að gert hefur stórmikið gagn og engum hefði fram að þessu dottið í hug að ætti að leggja niður.

Ég skal á engan hátt draga úr því, að tillit sé tekið til óska og vilja bændastéttarinnar í þeim málum, sem hana varða miklu. En þrátt fyrir það að einhverjar samþykktir Stéttarsambands bænda séu til í þessu efni, þá dreg ég í efa, að hér sé um að ræða mjög almennan vilja bændastéttarinnar í heild.

Það er líka hárrétt, sem bæði hv. 6. þm. Reykv. og sömuleiðis hv. 2. þm. Reykv. hafa glögglega bent á í þessum umr., að margir menn, sem eru í snertingu við bændastéttina og mega á vissan hátt teljast fulltrúar bænda, eru síður en svo fylgjandi því, að grænmetisverzlun ríkisins verði lögð niður.

Þá er það mikilvægt atriði í þessu máli, að hér er ekki aðeins um að ræða fyrirkomulag á sölu og dreifingu íslenzkrar framleiðsluvöru, heldur er einnig um innflutning og sölu að ræða á kartöflum, sem keyptar eru frá öðrum löndum. Mismunandi mikið magn er flutt inn af kartöflum á ári hverju eftir því, hvernig sprettan er innanlands. Reynsla margra undanfarinna ára sýnir, að innflutningur er sjaldan minni en fjórðungur allrar neyzlunnar og hefur stundum komizt upp í helming allrar neyzlu. Og nú á að taka upp þá nýstárlegu aðferð að leggja niður vel rekið ríkisfyrirtæki, sem hefur haft það með höndum að selja kartöflur fyrir innlenda aðila og sjá um innflutning og sölu á kartöflum frá útlöndum, og fela þetta hvort tveggja einkaaðila, sem hlýtur fyrst og fremst að hafa hagsmuni kartöfluframleiðenda fyrir augum. Það getur ekki hjá því farið, að sá aðili, sem á að taka við, líti fyrst og fremst á málið frá sjónarmiði þeirra aðila.

Hvað mundu menn nú segja, ef haldið væri áfram á þeirri braut á þann veg að afhenda einkaaðilum, sem framleiða t.d. helming einhverrar nauðsynlegrar vöru, einkaleyfi til alls innflutnings á sömu vörutegund og að þeir mættu haga sér í því efni algerlega eftir eigin geðþótta, flytja inn svo mikið eða svo lítið sem þeir sjálfir vilja? Mig minnir, að það væri hv. 6. þm. Reykv., sem benti á það alveg réttilega, hvort mönnum þætti t.d. viðeigandi að láta íslenzkar skóverksmiðjur fá einkarétt til þess að kaupa allan skófatnað frá útlöndum eða t.d. íslenzkar klæðaverksmiðjur fá einkarétt til þess að flytja inn vefnaðarvöru. Hæstv. landbrh. taldi að vísu í ræðu, sem hann hélt hér við umr., að þetta væri alls ekki sambærilegt, en ég get ekki séð, að neinn eðlismunur sé á þessu tvennu.

Þeir menn, sem berjast fyrir framgangi þessa frv., leggja ríka áherzlu á, að bændastéttin standi einhuga um málið, og vitna þá eingöngu, að ég hygg, í samþykkt frá Stéttarsambandi bænda. Ég held þó, með allri virðingu fyrir því sambandi, að hér sé gert of mikið úr því, að það túlki í einu og öllu vilja bændastéttarinnar almennt. Samkvæmt fskj., sem birt er með nál. hv. minni hl. landbn., er allt annað upp á teningnum hjá ýmsum kaupfélagsstjórum og það kaupfélagsstjórum mjög stórra kaupfélaga, en kaupfélög landsins annast, eins og kunnugt er, meginhluta afurðasölunnar fyrir bændur, og kaupfélagsstjórarnir eru því þessum hlutum manna kunnugastir. Eitthvað mun hafa verið lesið úr þessu áliti hér áður, en ég get þó ekki stillt mig um, með leyfi hæstv. forseta, að benda á örfáar umsagnir:

Jakob Frímannsson kaupfélagsstjóri á Akureyri segir:

„Eftir nána athugun, viðtöl við ýmsa grænmetisframleiðendur og samráð við deildarstjóra vorn, sem hefur haft á hendi móttöku grænmetis og sölu, höfum vér ákveðið að svara fyrirspurn yðar þannig:

Vér teljum, að hag framleiðenda grænmetis verði á engan betri hátt borgið en að þeir feli þeim samtökum sínum, sem þegar eru fyrir hendi, þ.e. kaupfélögunum og S.Í.S., að annast sölu á þessari framleiðsluvöru sinni.“ Enn fremur: „Fari svo, að grænmetisverzlun ríkisins verði lögð niður, virðist augljóst, að mikinn undirbúning þarf til nýrrar skipulagningar. Teljum vér því sjálfsagt, að varazt sé að leggja út í nokkrar grundvallarbreytingar á sölufyrirkomulaginu nema að mjög vel athuguðu máli.“

Skúli Jónasson á Svalbarðseyri segir:

„Að fenginni reynslu kaupfélagsins í samskiptum við grænmetisverzlun ríkisins teljum við engar líkur til, að nýr aðili, er annist sölu og innkaup á þeim vörum, er grænmetisverzlun ríkisins hefur annazt, mundi leysa það hlutverk betur af hendi.“

Og Oddur Sigurbergsson kaupfélagsstjóri í Vík í Mýrdal segir:

„Ekki tel ég miklar líkur til þess, að það yrði til hagsbóta fyrir framleiðendur og enn síður fyrir kaupfélagið, að þetta nýja skipulag verði tekið upp óbreytt. Verði sú vitleysa gerð að leggja grænmetisverzlun ríkisins niður, þá er það mitt álit, að ekki skipti svo miklu máli, hvort sú vitleysa er gerð nokkrum mánuðum fyrr eða síðar.“

Magnús Kristjánsson kaupfélagsstjóri á Hvolsvelli segir:

„Vér lítum svo á, að grænmetisverzlun ríkisins hafi með starfi sinu allt frá stofnun unnið mikið og gott starf í þágu framleiðenda og neytenda. Afgreiðsla öll við stofnunina hefur verið traust og örugg og viðskipti Kaupfélags Rangæinga við hana hin beztu í hvívetna.“

Loks ætla ég að lesa það, sem Sveinn Guðmundsson kaupfélagsstjóri á Akranesi segir: „Ég get ekki séð, að það sé á neinn hátt hagkvæmt framleiðendum, að grænmetisverzlun ríkisins sé lögð niður og sölunefnd stofnsett í hennar stað. Ég hef aldrei heyrt neinn framleiðanda tala um slíkt.“

Þetta er úr álitsgerðum kaupfélagsstjóranna um málið.

Eins og þessi tilvitnuðu ummæli bera greinilega með sér, er það mjög orðum aukið, að kartöfluframleiðendur almennt hafi slíkan brennandi áhuga á því, að grænmetisverzlun ríkisins verði lögð niður og þeirri skipulagsbreytingu komið á, sem frv. þetta stefnir að, eins og flm. vilja vera láta. Sumir þeir menn, sem hvað bezta aðstöðu hafa til þess að dæma um málið og verða raunar, eins og ég sagði fyrr, að teljast eins konar fulltrúar framleiðenda eða eru a.m.k. nákunnugir vilja margra þeirra og óskum, hafa mjög sterk orð um stefnu þessa frv. Segja jafnvel sumir, að hún sé vitleysa, og einn kaupfélagsstjóri við kaupfélag í héraði, þar sem framleitt er mikið af kartöflum, tekur það beinlínis fram, að hann hafi aldrei heyrt neinn framleiðanda impra á því, að hagkvæmt gæti verið að leggja grænmetisverzlun ríkisins niður og stofnsetja nýtt fyrirtæki í hennar stað.

Samkvæmt ákvæðum 4. gr. þessa frv. skal landbrn. hafa einkarétt til að flytja inn kartöfiur og nýtt grænmeti. Ekki kemur beint fram í frv., hvort svo sé til ætlazt, að ráðuneytið verzli með þessar vörur, en telja má víst, að ætlunin sé, að ráðuneytið framselji hinni fyrirhuguðu grænmetisverzlun landbúnaðarins þessi réttindi.

Í 2. gr. frv, er ákvæði þess efnis, að þrátt fyrir einkarétt sinn til innflutnings kartaflna megi rn. þó ekki flytja þær inn, fyrr en það hefur leitað samþykkis framleiðsluráðs. Það er ekki sagt með berum orðum, en liggur þó nærri að skilja þetta ákvæði svo, að ráðuneytinu sé alls ekki heimilt að flytja inn kartöflur, hve mikla þörf sem það teldi á því, fyrr en framleiðsluráð landbúnaðarins hefði samþykkt innflutninginn. Sé þessi skilningur réttur, virðist mér eiga að leiða í lög, að enda þótt innflutningseinkarétturinn sé að nafninu til í höndum rn., eigi hann raunverulega að vera í höndum framleiðsluráðs. Hér er vissulega nokkuð langt gengið, að fela þeim aðila, sem eingöngu hlýtur að telja sig umboðsmann framleiðenda, meira vald en sjálfu rn. yfir því, hvort lífsnauðsynleg fæða eins og kartöflur er flutt til landsins, eftir því sem þörf er á, eða ekki. Mér dettur ekki í hug að fara að væna framleiðsluráðið um það að óreyndu, að það muni beita þessum miklu réttindum gálauslega á þann hátt, að það valdi kartöfluskorti í landinu, og reyna á þann algerlega óviðurkvæmilega hátt að halda íslenzkum kartöflum í sem allra hæstu verði í skjóli vöruskorts. En á þessum miklu kröfutímum, þar sem stéttir og hagsmunahópar líta oft heldur einsýnum augum á eigin hag, stundum jafnvel aðeins ímyndaða stundarhagsmuni, þá er það vissulega nokkuð mikil bjartsýni að fela framleiðendum ákveðinnar vörutegundar að annast ekki aðeins eigin hag, heldur einnig hag neytenda. Ég tel hiklaust, að líkurnar séu a.m.k. meiri á því, að gætt sé hagsmuna beggja, bæði framleiðenda og neytenda, ef innflutningur og sala vörunnar er í höndum ríkisfyrirtækis, ekki sízt þegar um er að ræða ríkisstofnun, sem fyllilega hefur sannað tilverurétt sinn með 20 ára starfi og er að dómi kunnugra vel rekin stofnun.

Ég er satt að segja töluvert hissa á því, að hæstv. landbrh. skuli sækja það svo fast sem raun ber vitni að leggja grænmetisverzlun ríkisins að velli, þessa ríkisstofnun, sem byggð var upp af Framsfl. og hefur að allra sanngjarnra manna dómi, þ. á m. hæstv. ráðh. sjálfs, leyst af hendi gott starf og unnið þjóðfélaginu gagn. Ég hefði í sjálfu sér ekkert verið hissa á því, þótt einhverjir þingmenn eða ráðherrar Sjálfstfl. hefðu komið fram með frv. um að leggja þessa stofnun niður. Það hefði ég talið í raun og veru eðlilegt og búizt við því, að það kæmi fram. En ég er hissa á þeim ágætu framsóknarmönnum, sem virðast nú vinna að því með oddi og egg að leggja niður þessa ríkisstofnun. Þeir hafa tekið það heldur óstinnt upp, þegar sjálfstæðismenn hafa sótt að skipaútgerð ríkisins, og ég lái þeim það engan veginn. En það er þeim mun einkennilegra, þegar framsóknarmenn sjálfir leggja nú allt kapp á að koma á kné eigin afkvæmi, einu af þeim ekki allt of mörgu afkvæmum flokksins, sem telja verður að hafi dafnað vel og orðið foreldri sínu heldur til sóma heldur en hitt. Það kapp er mér satt að segja nokkurt undrunarefni. Ég fæ ekki betur séð en hér sé á ferðinni enn ein sönnun þess, að langvarandi og heldur giftu- og gleðisnauð sambúð Framsóknar við Sjálfstfl. hafi reynzt Framsfl. næsta óhollur skóli.

Eins og að líkum lætur af því, sem ég hef nú sagt, mun ég greiða atkv. gegn þessu frv., en með hinni rökstuddu dagskrá hv. 6. þm. Reykvíkinga.