02.02.1956
Neðri deild: 61. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hafði gert mér vonir um, að þetta mál yrði látið hvíla sig hér í hv. þingdeild, meðan hv. frsm. landbn., þm. Dal., væri erlendis, og hafði beinlínis gilda ástæðu til þess að ætla, að þau vinnubrögð yrðu viðhöfð. En það virðist nú vera eitthvað annað, því að daginn eftir að hann fór úr landi var málið tekið á dagskrá, og hv. 6. þm. Reykv. (SG) flutti mjög prúðmannlega framsöguræðu um málið og gerði grein fyrir þeirri afstöðu sinni, að hann væri andvígur þessu máli, andvígur því sökum þess, að í því væri ekki gætt hagsmuna neytendanna á þann veg, er hann teldi æskilegt. Ég taldi, að það væri á engan hátt hægt að sakfella hann fyrir slíka afstöðu. En þrátt fyrir það gerðist sá atburður, sem mér verður nokkuð lengi í minni, að hæstv. landbrh., Steingrímur Steinþórsson, fór í ræðustólinn á ettir og viðhafði mjög stór og að sumu leyti óþingleg orð um hv. 6. þm. Reykv. og málfærslu hans í sambandi við þetta mál. Ég man, að ég ritaði hér niður hjá mér þá úr ræðu ráðh. um moldviðri. Hann kallar sem sé, að hv. 6. þm. Reykv. hefði verið að þyrla upp moldviðri um þetta mál og rangfærslum og hefði það komið úr hörðustu átt, þar sem hér væri um mjög sjálfsagt mál að ræða frá hans sjónarmiði.

Hv. 6. þm. Reykv. hafði leyft sér að lesa upp kafla úr nokkrum umsögnum mætra manna um frv., þ. á m. umsögn Jakobs Frímannssonar kaupfélagsstjóra á Akureyri, og þetta var eitt af því, sem hæstv. landbrh. vitti. Hann spurði: Mundi hv. þm. lesa það upp, ef fyrir lægi umsögn um eitthvert mál Alþýðusambandsins frá t.d. Garðari Jónssyni form. Sjómannafélags Reykjavíkur? — Ég er alveg viss um, að hv. þm. mundi einmitt hafa gert slíkt hið sama, ef einhver mál Alþýðusambandsins hefðu legið fyrir og umsagnir ýmissa forustumanna verkalýðsfélaga hefðu verið sem fylgiskjal. Þá hefði hann vitanlega til stuðnings sinni afstöðu vitnað í slík ummæli. Var því ekkert eðlilegra en hv. þm. gerði þetta.

Ég hef ástæðu til þess að gera þetta mál dálítið að umræðuefni, sökum þess að þegar þetta mál skaut fyrst upp kollinum, bar það að nefnd, sem ég þá átti sæti í, en það var landbn. í fyrravetur. Við vorum í landbn. þá beðnir að gerast flm. frv. fyrir ráðuneytið, og við urðum við þeirri ósk, eins og nefndir gera að jafnaði, og tókum síðan að kynna okkur málið. Þá kom fljótt í ljós, að okkur ýmsum nefndarmönnum fannst frv. hvorki vel samið né þess eðlis að efni, að álitlegt væri að fylgja því í heild. Það var þá upplýst eins og nú, að Stéttarsamband bænda hefði hreyft þessu máli á sínum þingum að undanförnu og gert um það samþykktir að fá efni þess lögfest. Síðan var enn fremur upplýst, að ungur menntamaður hefði verið fenginn til þess að semja frv., nýkominn úr mikilli reisu á kostnað þess opinbera, og í því sambandi var fengin hjá ráðuneytinu mikil bók, sem m.a. hafði að geyma drögin að þessu frv. Ég heyrði hv. 8. þm. Reykv. kalla þessa merku bók „Kartöflubiblíuna“ hérna áðan, og það er sennilega ágætt heiti á doðrantinum. Þegar var farið að lesa hér í fyrra í þinginu kafla úr þessari bók, hló þingheimur svo hjartanlega, að ég hef aldrei heyrt þm. skemmta sér eins vel, svo að eiginlega hefði maður átt að útvega sér „Kartöflubiblíuna“ aftur og lesa skemmtilestur fyrir þm., einkanlega hefði það verið vel til fallið, ef hér hefðu verið betur setnir þingbekkirnir en þeir eru nú. Það má vel vera, að það gefist tækifæri til þess að koma með hana síðar, t.d. við næstu umr., og finnst mér það vel ómaksins vert eftir undirtektunum, sem lestur úr þeirri góðu bók fékk í fyrra.

Ég get af störfum n. í fyrra sagt það, að ég kann þá ekki satt orð að segja, ef það er ekki frétt, að málið fékk ákaflega daufar undirtektir í landbn., þegar nm. höfðu athugað það. Ég gat ekki betur heyrt en hv. þm. Dal., form. n., tæki á þessu máli með fullu ógeði. Það var einn maður í n., hv. 2. þm. Skagf., sem virtist vera ákveðinn fylgismaður málsins. En þriðji bændafulltrúinn í n., hv. þm. A-Húnv. (JPálm), vildi á allan hátt tefja málið, af því að hann áleit þetta ekki vera gott mál, sízt af öllu nauðsynjamál fyrir bændastéttina.

Framhaldið af þessu var svo það, að málið fór út úr n. í deildina og var hér rætt allrækilega. Það var sýnt, að Framsfl. vildi þá eins og nú leggja nokkurt kapp á framgang málsins, og hluti af Sjálfstfl. virtist vera áhugasamur um þetta líka, en nokkur hluti sjálfstæðismanna og þ. á m. fulltrúi bændanna, hv. þm. A-Húnv., taldi málið ekki vera neitt nytjamál fyrir bændastéttina. Og málið fór þannig, að það veslaðist hér upp í deildinni eftir alllangar umr., og menn héldu, að það mundi aldrei skjóta upp kolli síðar. En nú er það komið aftur og byrjað á sinni göngu á ný, búið að fara aftur í gegnum landbn. Nd. En nú hefur því vegnað það verr en í fyrrahaust, að nú fékkst einn nm. ekki, af því að hann hafði kynnzt því í fyrra, til þess að taka að sér flutning þess. Um afstöðu hinna mannanna er það eitt vitað, að þeir skrifa undir nál., form. n., hv. þm. Dal., hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. N-Þ. En nafn hv. þm. A-Húnv. sést hvergi. Það er alveg ótrúlegt, að hans nafn væri ekki þarna, ef honum væri mikið í mun, að þetta mál fengi skjóta og góða afgreiðslu. Og ég veit alveg fyrir víst, að hann mundi ekki láta nafn sitt vanta undir nál., ef hann teldi þetta vera mikið þurftarmál bændastéttarinnar.

Þegar frv hefur verið endursamið, sé ég í lokagrein þess, að menn hafa gert sér vonir um, að það sigldi svo hratt í gegnum þingið, að lög þessi gætu öðlazt gildi 1. jan. 1956. Nú er sá tími liðinn, og það er hér til 2. umr. í byrjun febrúar, og það ber öllum saman um, að þetta mál sé þess eðlis, að það sé ekki hægt að framkvæma stórkostlega skipulagsbreytingu, eins og hér er ætlazt til, nema með mjög löngum fyrirvara. Það er alveg auðséð mál, að ný stofnun, sem ætti að risa af rústum grænmetisverzlunar ríkisins, þyrfti áreiðanlega nokkra mánuði til þess að komast á laggir og hefja sín störf. Það var í fyrra einmitt talin ástæða til þess að hætta við að knýja málið fram, af því að þá var orðið það áliðið vetrar, að hin nýja stofnun mundi ekki vera komin á laggirnar að fullu og tekin til starfa svo snemma vors sem þarf mjög á starfi þessarar stofnunar að halda.

Ég gæti trúað, þar sem málinu hefur seinkað svo enn, að það sé full ástæða til þess að lofa því nú að hvíla sig þetta árið og reyna heldur í þriðja sinn að hausti, alveg í þingbyrjun þá, og reyna þá að koma því það fljótt í gegnum þingið, að það gæti tekið gildi á

haustmánuðunum. Það er alveg auðséð, að það veitir ekki af að hafa allan tímann fyrir sér, a.m.k. alveg frá áramótum, til þess að stofnunin sé komin í fullan gang fyrir vordaga.

Af þessu, sem ég nú hef sagt, er það ljóst, að hv. landbn. er nú eins og í fyrra ósammála um málið. Þá voru tveir af fimm nm. andvígir því og skiluðu sérstöku nál. um það, nú eru heimturnar þannig, að einn hefur neitað að taka þátt í flutningi þess, en þrír virðast hafa undirgengizt það fyrir sína ríkisstj., en einn af stjórnarfylgismönnunum týnist, þegar kemur til nái., og vill hvergi láta nafns síns getið í sambandi við þetta mál. Þætti mér þó ekki ólíklegt, að hann ætti eftir í umr. að segja til sín um það, að hann teldi þetta ekki vera eitt af þrifamálum landbúnaðarins, því að það var hann fyllilega búinn að láta í ljós með afstöðu sinni í landbn. í fyrra, þegar hann starfaði þar ásamt mér.

Ágreiningur er því um málið strax í landbn. Ég hef það fyrir satt, að það sé líka mjög mikill ágreiningur um þetta mál í þingflokki framsóknarmanna. En hitt má vel vera, að það sé nú búið að kveða þann ágreining niður með meirihlutasamþykkt í þingflokknum og að það sé þannig orðið flokksmál og að hendurnar komi þannig allar á loft, ef þetta mál fer til umr. Í Alþfl. er þetta ekki flokksmál, en við höfðum alveg frjálsar hendur um það í fyrra og fullt flokkssamráð að taka afstöðu móti þessu máli í fyrra, hvað sem nú er orðið. Og kynnu þá einhverjar aðgerðir að hafa komið til frá öðrum aðila, utan flokks, ef breyting hefur orðið á því síðan. Má vera, að hv. þm. N-Þ. þykist vita eitthvað um tilraunir í þá átt. [Frh.]