03.02.1956
Neðri deild: 62. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins virðist ætla að verða meira hitamál hér í deildinni en ég tel að efni standi til.

Ég tel mig fylgjandi frv. eins og það er lagt fram af meiri hl. landbn. og get ekki séð þau miklu vandkvæði, sem ýmsir hv. alþm. reyna að þyrla upp, þá hættu, sem ætti að geta stafað af því, ef sú skipan yrði tekin, sem gert er ráð fyrir með frv. í sambandi við sölu á grænmetisvörum.

Ég segi fyrir mitt leyti: Ég ber traust til grænmetisverzlunarinnar, eins og hún hefur verið rekin, og það er trú mín, að þó að þessi breyting verði gerð, sem frv. gerir ráð fyrir, þá verði sala þeirra tegunda landbúnaðarafurða framkvæmd með líkum hætti og nú á sér stað. Ég tel alveg óþarft að vera með aðdróttanir í garð bændastéttarinnar eða framleiðsluráðs um það, eins og kom fram hjá hv. 4. landsk. þm. (GJóh), að það mætti jafnvel gera ráð fyrir, að það yrði minnkaður innflutningur á jafnþarfri og nauðsynlegri vöru og kartöflur eru fyrir neytendur til þess á þann hátt að hækka verð á hinni innlendu framleiðslu. Ég vil segja, að slíkar getsakir ættu ekki að vera bornar fram hér í þingsölum, og hv. 4. landsk. þm. á ekki að víta hv. þm. Dal. (ÁB) fyrir þau orð, sem hann lét falla í þessari deild, er hann flutti framsöguræðu sína með þessu frv. Þau voru sízt stærri eða meiri en hann lætur hér falla í garð bændastéttarinnar með þessum ummælum.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fara hér dálítið inn á annað mál, þó að það snerti ekki beinlínis það mál, sem hér er á dagskrá, en hv. 3. landsk. þm. (HV) gaf ríkt tilefni til þess í þessum umræðum. Hann þurfti endilega í sambandi við afgreiðslu þessa máls að koma inn á skipaútgerð ríkisins, sem hv. þm. Barð. (GíslJ) og ég höfum borið fram þáltill. um. Við bárum fram fyrir tveim þingum og aftur í fyrra þáltill. um það, að teknir væru upp samningar við Samband ísl. samvinnufélaga og Eimskipafélagið um það, hvort þessir aðilar, annar hvor þeirra eða báðir, mundu vilja gefa kost á því að taka að sér það starf, sem ríkisskip hefur annazt á undanförnum árum, þannig að það kæmi til með að kosta ríkið minna fé en það kostar nú með rekstri ríkisskipa. Það er algerlega rangt hjá hv. 3. landsk. þm. að halda því fram, að við hv. þm. Barð. og ég höfum viljað á þennan hátt svipta strjálbýlið þeirri þjónustu, sem Ríkisskip hefur haft með höndum. Ég tel, að það sé ósæmilegt að bera slíkt á þm., að þeir vilji hafa í frammi hér á Alþingi aðgerðir, sem eigi að svipta ekki einungis þeirra kjördæmi, heldur og önnur strjálbýliskjördæmi þeirri þjónustu, sem ríkisskip hefur látið í té á undanförnum árum. Við höfum ekki óskað eftir neinu öðru en að sú þjónusta yrði rækt með öðrum hætti og minni kostnaði fyrir ríkið.

Ég tel, að eins og nú er komið, þar sem gert er ráð fyrir, að Ríkisskip fari með 10–12 millj. kr. á ári af ríkisfé til þess að geta haft þessar strandferðir á hendi, að hér sé um svo mikið fé að ræða, að ekki sé ástæðulaust, að þingmenn geri sér grein fyrir, hvort ekki sé hægt að koma þessum málum fyrir á annan hátt, sem sé að láta strjálbýlisfólkinu í té betri þjónustu og það fyrir minna fé úr ríkissjóði. Af þeirri ástæðu höfum við hv. þm. Barð. og ég flutt till. til þál. á þskj. 78. sem hv. 3. landsk. þm. vildi segja að væri þess eðlis, að það ætti að svipta strjálbýlið þeim samgöngum, sem Ríkisskip veitir. Sú þáltill. er aðeins um breytta skipun strandferða og að þessi mál séu rækilega athuguð af þingskipaðri fimm manna nefnd. Ég tel það ekki vera þá goðgá hjá hv. þm. Barð. og mér að flytja þessa till. til þál. um breytta skipun strandferða á þskj. 73, að það sé ástæða til fyrir hv. 3. landsk. þm. að hafa mörg og stór orð um hana. Hann gat þess sérstaklega, að hann ræddi þessi mál sem forseti Alþýðusambands Íslands.

Yfirleitt er það skoðun mín, að það fari mjög illa á því fyrir hv. alþm. að vera að reyna að koma fram með blekkingar og staðlausa stafi; þó að þeir vilji reyna að vinna sínu máli gagn, þá sé sú aðferð ekki sigurvænleg til langframa. — Hv. 3. landsk. þm. virðist oft í málflutningi sinum grípa til þessara vopna.

Ég mun geta upplýst hv. 4. landsk. um það, að engir samningar eru uppi milli stjórnarflokkanna um að leggja Ríkisskip niður. Ég veit ekki einu sinni, hvort maður má vænta þess, að endurskoðun sú fari fram, sem till. til þál. á þskj. 78 fjallar um, hvað þá heldur annað meira.